Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

295/2018

Reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum.

1. gr. Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi er sett til framkvæmdar 2. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks.

Til opinberra sjóstangaveiðimóta teljast þau mót sem eru opin öllum sem sækjast eftir þátttöku í þeim, eftir atvikum með aðild að því félagi sem heldur mótið, sé það mögulegt miðað við aðstæður.

2. gr. Umsóknir.

Fiskistofa skal auglýsa eigi síðar en 15. nóvember ár hvert, eftir umsóknum um vilyrði vegna aflaskráningar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða, vegna opinberra sjóstangaveiðimóta sem áætlað er að verði haldin á yfirstandandi fiskveiðiári. Umsóknarfrestur er til 1. desember ár hvert, ef annað er ekki ákveðið.

Í umsókn skal tilgreina fjölda þeirra móta sem sóst er eftir að halda, hvenær þau verði haldin, hvar þau fari fram og hvert sé áætlað aflamagn á mótunum. Umsækjandi skal vera félag sem ekki er rekið í ábataskyni. Með umsókn skulu fylgja samþykktir félagsins auk upplýsinga um reglur um félagsaðild.

3. gr. Veiting vilyrða.

Fiskistofa skal eigi síðar en 15. janúar ár hvert taka ákvörðun um hvort veita skuli vilyrði vegna aflaskráningar á opinberu sjóstangaveiðimóti.

Telji Fiskistofa að fjöldi umsókna, eða áætlað umfang opinberra sjóstangaveiðimóta samkvæmt þeim, muni geta leitt af sér meiri afla en nemur 200 lestum, er Fiskistofu heimilt að takmarka veitingu vilyrða skv. 1. mgr. 1. gr. við tiltekinn fjölda móta. Fiskistofu er heimilt að boða umsækjendur á fund til að leita sjónarmiða þeirra til mögulegrar takmörkunar á fjölda áformaðra móta eða breytinga á fyrirkomulagi þeirra. Þá er heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun.

Umsóknum þeirra aðila sem hafa ekki sinnt skyldu skv. 2. mgr. 4. gr. á fullnægjandi hátt, vegna fyrri móta á þeirra vegum, skal hafnað.

4. gr. Ráðstöfun afla og aflaverðmætis.

Allur afli sem veiðist á sjóstangaveiðimóti sem nýtur vilyrðis skv. 1. gr. skal veginn og skráður í samræmi við reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Skal aflinn seldur á opinberum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir.

Innan 30 daga frá næstu mánaðamótum eftir að mót var haldið, skal það félag sem stóð fyrir því móti sem naut vilyrðis skv. 1. gr. skila til Fiskistofu vigtarnótum yfir afla og afreikningum frá opinberum uppboðsmarkaði sem aflinn var seldur á sem og gera skil á 10% af söluandvirði aflans umfram 500.000 kr.

5. gr. Viðurlög, gildistaka o.fl.

Um viðurlög gegn brotum á þessari reglugerð fer eftir lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, eftir því sem við á.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og 9. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 916/2016 um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Umsóknir sem hafa borist um úthlutun vilyrðis fyrir að afli á opinberum sjóstangaveiðimótum teljist ekki til aflamarks eða krókaaflamarks á árinu 2018, en hefur verið hafnað með vísun til eldri reglugerðar, skal taka til meðferðar að nýju af Fiskistofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Skal ákvörðun Fiskistofu um veitingu vilyrða tekin eigi síðar en 15. apríl nk.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. mars 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Arnór Snæbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.