Umhverfisráðuneyti

295/2012

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

1. gr.

Við 3. gr. bætast eftirfarandi skilgreiningar:

  1. Gæðakrafa fyrir grunnvatn: umhverfisgæðakrafa, sem ekki má fara yfir, til að vernda heilbrigði manna og umhverfið, gefin upp sem styrkur tiltekins mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í vatni.
  2. Viðmiðunargildi: gæðakrafa sem tölugildi, fyrir grunnvatn sem sett er til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns.
  3. Umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni: öll marktæk aukning á styrk mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í grunnvatni sem hefur tölfræðilega þýðingu eða þýðingu fyrir umhverfið og vegna hennar er talið nauðsynlegt að snúa slíkri leitni við í samræmi við skilgreindan upphafspunkt.
  4. Íkoma mengunarvalda í grunnvatn: bein eða óbein viðbót mengunarvalda í grunnvatn af mannavöldum.
  5. Bakgrunnsgildi: styrkur efnis eða gildi fyrir mengunarvísi í grunnvatnshloti sem samsvarar ýmist engum eða aðeins smávægilegum breytingum af mannavöldum við náttúrulegt ástand.
  6. Grunnlínugildi: meðalgildi sem mældist á viðmiðunarárunum 2010 og 2011 á grundvelli vöktunaráætlana eða þegar um er að ræða efni sem greinast eftir viðmiðunarárin, skal miða við fyrsta tímabilið með vöktunargögnum sem telst lýsandi fyrir tímabilið.

2. gr.

Við 8. gr. bætist ný mgr. sem orðast svo:

Til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota samkvæmt lið 2.3. í III. viðauka skal nota eftirfarandi viðmiðanir:

a)

Gæðakröfur fyrir grunnvatn sem um getur í lið 2.3.3 í III. viðauka.

b)

Viðmiðunargildi sem ráðherra setur í reglugerð í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í A-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka fyrir mengunarvalda, hópa mengunarvalda og mengunarvísa sem staðfest hefur verið að stuðli að því að grunnvatnshlot eða hópar grunnvatnshlota séu talin í áhættu, þar sem a.m.k. er tekið tillit til skrárinnar í B-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka.



3. gr.

Á eftir 8. gr. bætast við 3 nýjar greinar, 8. gr. a, 8. gr. b og 8. gr. c, sem orðast svo:

8. gr. a

Viðmiðanir til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns.

Viðmiðunargildin fyrir gott, efnafræðilegt ástand skulu byggjast á verndun grunnvatnshlotsins í samræmi við 1., 2. og 3. lið í A-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka og sérstakt tillit skal tekið til áhrifa á og innbyrðis tengsla þess við yfirborðsvatn og þau landvistkerfi og votlendi sem eru beint háð því og skal m.a. taka tillit til þekkingar varðandi visteiturefnafræði.

Eigi síðar en 22. desember 2013 skal fastsetja viðmiðunargildi samkvæmt b-lið 2. mgr., í fyrsta sinn. Birta skal öll fastsett viðmiðunargildi í vatnaáætlun, þ.m.t. samantekt með upplýsingunum sem koma fram í C-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka.

Til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfið skal Umhverfisstofnun breyta skránni yfir viðmiðunargildi þegar nýjar upplýsingar um mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa benda til þess að setja skuli viðmiðunargildi fyrir fleiri efni eða að setja skuli aftur inn viðmiðunargildi fyrir efni sem var áður í skránni.

Unnt er að fjarlægja viðmiðunargildi úr skránni þegar viðkomandi mengunarvaldar, hópur mengunarvalda eða mengunarvísar skapa ekki lengur áhættu fyrir umrætt grunnvatnshlot.

Allar slíkar breytingar á skránni yfir viðmiðunargildi skal tilkynna í tengslum við reglubundna endurskoðun á vatnaáætlun.

8. gr. b

Verklag við mat á efnafræðilegu ástandi grunnvatns.

Grunnvatnshlot eða hópur grunnvatnshlota skal teljast í góðu, efnafræðilegu ástandi ef:

a)

viðeigandi vöktun leiðir í ljós að skilyrðin sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í III. viðauka eru uppfyllt eða

b)

ekki er farið yfir gildi gæðakrafnanna fyrir grunnvatn, sem eru tilgreindar í lið 2.3.3 í III. viðauka, og viðeigandi viðmiðunargildi, sem eru fastsett í reglugerð um varnir gegn mengun vatns, í samræmi við 8. gr. a og lið 2.3.4 í III. viðauka, á neinum vöktunarstað í grunnvatnshlotinu eða hópi grunnvatnshlota eða

c)

farið er yfir gildi gæðakrafna fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi á einum eða fleiri vöktunarstöðum en viðeigandi rannsókn, í samræmi við lið 2.3.5 í III. viðauka, staðfestir að:



  1. á grundvelli matsins, sem um getur í 3. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka, er ekki talið að styrkur mengunarvalda, sem fer yfir gildi í gæðakröfum fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi, skapi verulega áhættu fyrir umhverfið, að teknu tilliti til umfangs grunnvatnshlotsins sem hefur orðið fyrir áhrifum eftir því sem við á,
  2. önnur skilyrði varðandi gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í III. viðauka, hafa verið uppfyllt í samræmi við 4. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka,
  3. kröfurnar í reglugerð um neysluvatn hafa verið uppfylltar í samræmi við 4. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka að því er varðar grunnvatnshlot sem eru tilgreind í samræmi við 24. og 25. gr. laga um stjórn vatnamála,
  4. grunnvatnshlotið, eða eitthvert þeirra grunnvatnshlota sem eru í hópi anna, er ekki svo mengað að notkunarmöguleikar í þágu manna hafi rýrnað umtalsvert.

Val á vöktunarstöðunum fyrir grunnvatn verður að vera í samræmi við kröfurnar í lið 2.4 í III. viðauka um að tilhögun þeirra sé þannig að þeir gefi samfellda heildarsýn yfir efnafræðilegt ástand grunnvatnsins og að vöktunargögn frá þeim séu lýsandi.

Birta skal samantekt á mati á efnafræðilegu ástandi grunnvatns í vatnaáætlun. Í saman­tektinni skulu einnig koma fram skýringar á því með hvaða hætti hefur verið tekið á þeim tilvikum, þar sem farið er yfir gildin sem varða gæðakröfur fyrir grunnvatn eða viðmið­unargildi á einstaka vöktunarstöðum.

Ef grunnvatnshlot er flokkað þannig að það sé í góðu, efnafræðilegu ástandi í samræmi við c-lið 1. mgr. skal grípa til þeirra ráðstafana sem kunna að reynast nauðsynlegar til að vernda vatnavistkerfi, landvistkerfi og notkun manna á grunnvatni, sem er háð þeim hluta grunnvatnshlotsins þar sem vöktunarstaðurinn eða -staðirnir eru, þegar farið hefur verið yfir gildi í gæðakröfu fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi.

8. gr. c

Greining á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni
og skilgreining á upphafspunktum til að snúa slíkri leitni við.

Umhverfisstofnun skal tilgreina alla umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa sem finnast í grunnvatnshlotum eða hópum grunnvatnshlota, sem talin eru í áhættu, og skilgreina upphafspunkt til að snúa þeirri leitni við, í samræmi við lið 2.4.4 í III. viðauka.

Í samræmi við B-hluta í lið 2.4.4 í III. viðauka, skal snúa við leitni, sem skapar umtalsverða áhættu á að skaða gæði vatnavistkerfa, landvistkerfa, heilbrigði manna eða raunverulega eða hugsanlega réttmæta notkun á vatnsumhverfinu, sem um getur í aðgerðaráætlun til þess að draga jafnt og þétt úr mengun og koma í veg fyrir að grunnvatn spillist.

Umhverfisstofnun skal skilgreina upphafspunkt til að snúa við leitni sem nemur tilteknum hundraðshluta af gildum í gæðakröfum fyrir grunnvatn, sem settar eru fram í lið 2.3.3 í III. viðauka, og af viðmiðunargildum, sem eru fastsett skv. 8. gr. a, á grundvelli greindrar leitni og umhverfisáhættunnar sem tengist henni í samræmi við 1. lið B-hluta í lið 2.4.4 í III. viðauka.

Í vatnaáætlun skal gera samantekt á eftirfarandi:

a)

hvernig mat á leitni frá einstökum vöktunarstöðum innan grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota hefur átt þátt í því að greina að í þessum vatnshlotum sé umtals­verð og viðvarandi, stígandi leitni í styrk einhvers mengunarvalds eða viðsnúningur á þeirri leitni og

b)

ástæðunum sem liggja að baki upphafspunktunum sem eru skilgreindir skv. 3. mgr.



Ef þörf er á að meta áhrif mengunarslóða sem fyrir eru í grunnvatnshlotum, sem kunna að stefna uppfyllingu umhverfismarkmiða III. kafla laga um stjórn vatnamála í hættu, og einkum mengunarslóða frá punktupptökum og menguðu landi skal Umhverfisstofnun vinna frekara mat á leitni, að því er varðar mengunarvalda sem greinst hafa, til þess að staðfesta að slóðar frá menguðum stöðum breiðist ekki út, spilli ekki efnafræðilegu ástandi grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota og skapi hvorki áhættu fyrir heilbrigði manna né umhverfið. Umhverfis­stofnun skal taka saman niðurstöður þessa mats í vatnaáætlun.

4. gr.

Við bætast 3 nýir liðir á eftir 2.3.2 í III. viðauka, 2.3.3, 2.3.4 og 2.3.5 sem orðast svo:

2.3.3 Gæðakröfur fyrir grunnvatn.

1. Til þess að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns í samræmi við 8. gr. b verða eftirfarandi gæðakröfur fyrir grunnvatn þær gæðakröfur sem um getur í töflu 2.3.2.

Mengunarvaldur

Gæðakröfur

Nítröt

25 mg/l

Virk efni í varnarefnum, þ.m.t. viðeigandi umbrots-, niðurbrots- og myndefni þeirra

0,1 μg/l
0,5 μg/l (samtals)(1)

(1) "Samtals": summa allra einstakra varnarefna sem finnast og eru magngreind í vöktunarferlinu, þ.m.t. umbrots-, niðurbrots- og myndefni þeirra sem skipta máli.

2. Ef talið er, að því er varðar tiltekið grunnvatnshlot, að gæðakröfurnar fyrir grunnvatn gætu leitt til þess að ekki reynist unnt að ná umhverfismarkmiðunum, sem tilgreind eru í III. kafla laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, að því er varðar tengd yfirborðsvatnshlot, eða til þess að vistfræðilegum eða efnafræðilegum gæðum slíkra vatnshlota hrakaði umtalsvert eða til að umtalsvert tjón yrði á landvistkerfum sem eru háð grunnvatnshlotinu beint, skal fastsetja strangari viðmiðunargildi í samræmi við 8. gr. a. Áætlanir og ráðstafanir, sem krafist er í tengslum við slík viðmiðunargildi, skulu einnig gilda um starfsemi sem fellur undir gildissvið reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.

2.3.4 Viðmiðunargildi fyrir mengunarvalda í grunnvatni og mengunarvísa.

A-hluti

Viðmiðunarreglur til að fastsetja viðmiðunargildi í samræmi við 8. gr. a.

Ráðherra setur í reglugerð, að fenginni tillögu Umhverfisstofnunar, viðmiðunargildi fyrir alla mengunarvalda og mengunarvísa sem, samkvæmt greiningunni á eiginleikum sem tekin er saman í samræmi við álagsgreininguna, sbr. kafla 1.4 í viðauka II, lýsa eiginleikum grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota þar sem hætta er talin á að gott, efnafræðilegt ástand grunnvatnsins náist ekki, sbr. 11. gr.

Viðmiðunargildi skal fastsetja þannig að ef niðurstöður úr vöktun á einkennandi vöktunarstað fara yfir gildin bendi það til þess að hætta sé á að eitt eða fleiri skilyrði til að ná góðu, efnafræðilegu ástandi grunnvatns, sem um getur í ii-, iii- og iv-lið c-liðar í 2. mgr. 8. gr. b, hafi ekki verið uppfyllt. Þegar viðmiðunargildi er sett skal hafa eftirfarandi viðmiðunarreglur í huga:

1)

Ákvörðun um viðmiðunargildi skal byggjast á:

a)

umfangi víxlverkana milli grunnvatns og tengdra vatnavistkerfa og landvistkerfa sem eru háð því,

b)

truflun á raunverulegri eða hugsanlegri, réttmætri notkun eða virkni grunnvatnsins,

c)

öllum mengunarvöldum, sem eru lýsandi fyrir eiginleika grunnvatnshlota þannig að þau teljast í áhættu, að teknu tilliti til lágmarksskrárinnar sem sett er fram í B-hluta,

d)

vatnajarðfræðilegum eiginleikum, þ.m.t. upplýsingar um bakgrunnsgildi og vatns­jöfnuð.

2)

Við ákvörðun um viðmiðunargildi skal einnig taka tillit til uppruna mengunarvaldanna, hvort þeir finnast e.t.v. í náttúrunni, eiturefnafræði þeirra og leitni til dreifingar, þrávirkni þeirra og hugsanlegrar uppsöfnunar í lífverum.

3)

Ef bakgrunnsgildi efna eða jóna eða vísa þeirra eru hærri vegna náttúrulegra, vatna­jarðfræði­legra ástæðna skal taka tillit til þessara bakgrunnsgilda í viðkomandi grunnvatnshloti þegar viðmiðunargildi eru fastsett.

4)

Ákvörðun á bakgrunnsgildum skal studd gæðakerfi fyrir gögnin sem aflað er, sem grundvallast á mati á gæðum gagna, greiningarforsendum og bakgrunnsgildum, bæði fyrir efni sem kunna að koma fyrir í náttúrunni og af mannavöldum.

B-hluti

Lágmarksskrá yfir mengunarvalda og vísa þeirra sem skal fastsetja viðmið­unar­gildi fyrir í samræmi við 8. gr. a.

1. Efni eða jónir eða mengunarvísar sem kunna að koma fyrir í náttúrunni og/eða af manna­völdum.

Arsen
Kadmíum
Blý
Kvikasilfur
Ammóníum
Klóríð
Súlfat

2. Manngerð, tilbúin efni

Tríklóretýlen
Tetraklóretýlen

3. Mæliþættir sem benda til innstreymis salts vatns eða annars

Leiðni

Efnafræðilegt ástand fyrir grunnvatn: viðmiðunargildi og viðsnúningsgildi.

Efni og mælieining

Viðmiðunargildi

Viðsnúningsgildi

Arsen, μg/l

10

7,5

Kadmíum, μg/l

5

3,75

Blý, μg/l

10

7,5

Kvikasilfur, μg/l

1,0

0,75

Ammóníum, mg/l N

0,5

0,4

Klóríð, mg/l

250

187,5

Súlfat, mg/l

250

187,5

Summa af Tríklóretýlen og Tetraklóretýlen, μg/l

10

7,5



C-hluti

Upplýsingar sem eiga að koma fram í vatnaáætlun varðandi mengunarvalda og vísa þeirra sem viðmiðunargildi hafa verið ákveðin fyrir.

Í vatnaáætlun skal Umhverfisstofnun gera samantekt um það hvernig málsmeðferðinni, sem sett er fram í A-hluta þessa liðs, hefur verið fylgt.

Ef því verður við komið, skal einnig leggja fram:

a)

upplýsingar um fjölda grunnvatnshlota eða hópa grunnvatnshlota sem eru talin vera í áhættu og um mengunarvalda og mengunarvísa sem stuðla að þessari flokkun, þ.m.t. mældur styrkur/mæld gildi,

b)

upplýsingar um hvert grunnvatnshlot sem er talið vera í áhættu, einkum um stærð hlotanna, tengsl milli grunnvatnshlota og yfirborðsvatns sem tengist þeim og landvistkerfi sem eru beint háð þeim og, ef um er að ræða efni sem koma fyrir í náttúrunni, náttúruleg bakgrunnsgildi í grunnvatnshlotunum,

c)

viðmiðunargildi fyrir vatnaumdæmið,

d)

tengslin milli viðmiðunargildanna og:

i.

mældu bakgrunnsgildanna, ef um er að ræða efni sem koma fyrir í náttúr­unni,

ii.

umhverfisgæðamarkmiða og staðla vegna vöktunar forgangsefna í grunnvatni í samræmi við 4. mgr. 14. gr. og

iii.

allra viðeigandi upplýsinga sem varða eiturefnafræði, visteiturefnafræði, þrávirkni, hugsanlega uppsöfnun í lífverum og tilhneigingu mengunarvaldanna til að dreifast.



2.3.5 Mat á efnafræðilegu ástandi grunnvatns.

1)

Aðferðin við mat til að ákvarða efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota skal notuð í tengslum við öll grunnvatnshlot eða hópa grunnvatnshlota sem eru metin þannig að þau séu í áhættu og í tengslum við sérhvern mengunarvald sem stuðlar að því að grunnvatnshlotið eða hópur grunnvatnshlota séu metin í áhættu.

2)

Þegar athuganirnar, sem um getur í c-lið 1. mgr. 8. gr. a fara fram, skal taka tillit til:

a)

upplýsinganna sem safnað er sem hluta af eiginleikagreiningunni,

b)

niðurstaðnanna frá vöktunarnetinu fyrir grunnvatn sem fást í samræmi við lið 2.4. og

c)

allra annarra viðeigandi upplýsinga, þ.m.t. samanburður á árlegum, reiknuðum meðalstyrk fyrir viðkomandi mengunarvalda á vöktunarstað við gæðakröfurnar fyrir grunnvatn, sem settar eru fram í lið 2.3.3, og viðmiðunargildin sem aðildarríkin ákvarða í samræmi við 8. gr. a og lið 2.3.4.

3)

Í því skyni að rannsaka hvort skilyrðin um gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem um getur í i-lið c-liðar í 1. mgr. 8. gr. b, hafi verið uppfyllt skal, ef við á og ef nauðsyn krefur og á grundvelli viðeigandi samantektar á niðurstöðum úr vöktun, sem studdar eru, ef nauðsyn krefur, með mati á styrk, sem byggist á heildstæðu líkani af grunnvatnshloti eða hópi grunnvatnshlota, meta umfangið í grunnvatnshlotinu þar sem árlegur, reiknaður meðalstyrkur mengunarvalds er hærri en gæðakrafa fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi.

4)

Í því skyni að rannsaka hvort skilyrðin um gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem um getur í ii- og iii-lið c-liðar í 1. mgr. 8. gr. a, hafi verið uppfyllt skal Umhverfisstofnun, ef við á og ef nauðsyn krefur og á grundvelli viðeigandi samantektar úr vöktun og viðeigandi heildstæðs líkans af grunnvatnshlotinu, meta:

a)

áhrif mengunarvaldanna í grunnvatnshlotinu,

b)

magn og styrk mengunarvaldanna sem berast eða líklegt er að berist frá grunnvatnshlotinu til yfirborðsvatns sem tengist þeim eða landvistkerfa sem eru beint háð þeim,

c)

líkleg áhrif af magni og styrk mengunarvaldanna sem berast til tengdra yfirborðs­vatna og landvistkerfa sem eru beint háð þeim,

d)

umfang innstreymis salts vatns eða annars inn í grunnvatnshlotið og

e)

áhættuna af völdum mengunarvalda í grunnvatnshloti fyrir gæði vatns sem tekið er eða ætlunin er að taka til neyslu úr grunnvatnshlotinu.

5)

Sýna skal á kortum, sbr. 19. gr., efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota í samræmi við liði 2.4.5 og 2.5. Einnig skal, þar sem við á og við verður komið, sýna á kortunum alla vöktunarstaði þar sem farið er yfir gæðakröfur fyrir grunnvatn og/eða viðmiðunargildi.



5. gr.

Við lið 2.4.4. í III. viðauka bætist eftirfarandi:

A-hluti

Greining á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni.

Greina skal umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í öllum grunnvatnshlotum eða hópum grunnvatnshlota, sem eru metin þannig að þau séu í áhættu, í samræmi við kafla 1.4 í II. viðauka við reglugerð þessa, að teknu tilliti til eftirfarandi krafna:

1)

Vöktunaráætlunin skal þannig gerð, að unnt sé að greina umtalsverða og við­var­andi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda sem greinst hafa, skv. 8. gr. a.

2)

Við greiningu á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni skal aðferðin byggjast á eftirfarandi þáttum:

a)

tíðni vöktunar skal ákveðin og vöktunarstaðir valdir þannig að það nægi til:

i.

að veita nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja að unnt sé að greina milli slíkrar stígandi leitni og náttúrulegra sveiflna af fullnægjandi öryggi og nákvæmni,

ii.

að gera kleift að greina slíka stígandi leitni nógu tímanlega til að unnt sé að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir eða a.m.k. að draga eins og unnt er úr skaðlegum breytingum á gæðum grunnvatns sem hafa verulega þýðingu fyrir umhverfið. Þessi greining skal fara fram í fyrsta sinn árið 2013, ef unnt er, og þar skal taka tillit til fyrirliggjandi gagna í tengslum við skýrslu um greiningu á leitni í fyrstu vatnaáætlun fyrir vatnaumdæmið, og a.m.k. á sex ára fresti eftir það,

iii.

að taka tillit til tímabundinna, eðlisfræðilegra og efnafræðilegra einkenna grunnvatnshlotsins, þ.m.t. flæðiskilyrði grunnvatns og endurnýjunarhraði og vætlunartími gegnum jarðveg eða jarðvegsgrunn,

b)

aðferðirnar sem eru notaðar við vöktun og greiningu skulu vera í samræmi við alþjóðlegar meginreglur um gæðastaðla, sbr. lið 1.3.6 í III. viðauka,

c)

matið skal byggjast á tölfræðiaðferð, t.d. aðhvarfsgreiningu, til að greina leitni í tímaröð mæligagna frá einstökum vöktunarstöðum,

d)

til að komast hjá skekkjum í leitnigreiningu skulu allar mælingar, sem eru undir magngreiningarmörkum, fastsettar við helmingsgildi hæstu magngreiningarmarka sem koma fyrir í tímaröð, þó ekki fyrir samanlögð varnarefni.

3)

Við greiningu á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í styrk efna, sem bæði koma fyrir í náttúrunni og af mannavöldum, skal taka til greina grunnlínugildi og gögn, sem safnað er áður en vöktunaráætlun er tekin í notkun, ef slík gögn liggja fyrir, í því skyni að gefa skýrslu um leitnigreiningu í fyrstu vatnaáætlun fyrir vatnaumdæmið.



B-hluti

Upphafspunktar til að snúa leitni við.

Snúa skal við umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni, í samræmi við 8. gr. c, að teknu tilliti til eftirfarandi krafna:

1)

Upphafspunkturinn fyrir framkvæmd ráðstafana til að snúa við umtalsverðri og við­var­andi, stígandi leitni er þegar styrkur mengunarvaldsins nær 75% af viðmið­unar­mæliþáttunum fyrir gæðakröfur grunnvatns, sem settar eru fram í lið 2.3.3 og viðmið­unar­gildanna, sem eru fastsett skv. lið 2.3.4, nema:

a)

gerð sé krafa um fyrri upphafspunkt til að unnt sé að gera ráðstafanir til að snúa leitni við á sem fjárhagslegan hagkvæmastan hátt eða a.m.k. að draga eins og unnt er úr skaðlegum breytingum á gæðum grunnvatns sem hafa marktæka þýðingu fyrir umhverfið,

b)

rök séu færð fyrir því að annar upphafspunktur sé notaður ef ekki er unnt, á grundvelli greiningarmarkanna, að ákvarða að leitni sé fyrir hendi sem svarar til 75% af mæliþáttunum eða

c)

aukinn vaxtarharði í leitni og möguleiki á að snúa henni við séu þannig að seinni upphafspunktur fyrir ráðstafanir til að snúa leitni við geri það samt kleift með slíkum ráðstöfunum að koma, á sem fjárhagslegan hagkvæmastan hátt, í veg fyrir allar skaðlegar breytingar á gæðum grunnvatns sem hafa marktæka þýðingu fyrir umhverfið eða a.m.k. að draga úr þeim eins og kostur er. Seinni upphafspunktur af þessum toga skal ekki leiða af sér neinar tafir við að ná umhverfismarkmiðunum á tilskildum tíma.

Að því er varðar starfsemi, sem fellur undir gildissvið reglugerðar um varnarefni í land­búnaði og garðyrkju og reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfn­unar­efnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri skal fastsetja upphafs­punktinn til að lögleiða ráðstafanir til að snúa við umtalsverðri og viðvarandi, stíg­andi leitni í samræmi við umhverfismarkmið III. kafla laga um stjórn vatnamála.

Þegar upphafspunktur hefur verið fastsettur fyrir grunnvatnshlot, sem er metið þannig að það sé í áhættu í samræmi við lið 2.4.4 og skv. 1. lið hér að framan, verður honum ekki breytt á sex ára gildistímabili vatnaáætlunar.

2)

Sýna skal fram á viðsnúning leitni með tilliti til viðkomandi ákvæða um vöktun sem er að finna í 2. lið A-hluta.



6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í a-lið 29. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og vatnaráð.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu, með tilvísun til tilskipunar ráðsins 2000/60/EB.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 5. mars 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica