Menntamálaráðuneyti

292/1992

Reglugerð um Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

1. gr.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri lýtur yfirstjórn háskólanefndar. Stofnunin skal hafa reglubundið samráð við deildir skólans og samvinnu við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins, sem og aðrar stofnanir er tengjast kennslu- og rannsóknasviði Háskólans hverju sinni.

2. gr.

Hlutverk Rannsóknastofnunarinnar er:

a) Að efla rannsóknir við Háskólann á Akureyri,

b) að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna við Háskólann á Akureyri,

c) að hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaaðila,

d) að veita upplýsingar og ráðgjöf,

e) að standa fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum, f) að selja þjónustu.

3. gr.

Háskólanefnd skipar stjórn Rannsóknastofnunar til þriggja ára. Hver deild skólans tilnefnir einn fulltrúa og háskólanefnd skipar tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnarinnar.

Stjórnin mótar rannsóknarstefnu stofnunarinnar, ræður vali verkefna, hefur umsjón með fjármálum og gerir tillögur til háskólanefndar um fjárveitingar. Stjórninni er heimilt, að fengnu samþykki háskólanefndar, að ákvarða deildaskiptingu innan stofnunarinnar ef ástæða þykir til.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sem skal hafa umsjón með framkvæmd á ákvörðunum stjórnarinnar og daglegum rekstri á vegum stofnunarinnar.

Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Framkvæmdastjóri, með samþykki stjórnar, ræður annað starfslið eftir því sem fé er veitt til.

Rekstrarkostnað stofnunarinnar skal greiða af rannsóknafé, sbr. 5. grein.

4. gr.

Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns. Framkvæmdastjóri á sæti á stjórnarfundum og hefur þar tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

5. gr.

Stjórnin tekur ákvarðanir um ráðstöfun rannsóknafjár sem fengið er með:

a) Fjárveitingum sem veittar kunna að vera í fjárlögum,

b) styrkjum til einstakra verkefna,

c) greiðslum fyrir umbeðin verkefni,

d) gjöfum og öðrum tekjum.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskólans. Fjárlagatillögur Rannsóknastofnunarinnar skulu vera sérgreindur hluti af fjárlagatillögum Háskólans.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 12. gr., sbr. 17. gr., laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 24. júlí 1992.

Ólafur G. Einarsson.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica