Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

29/1993

Reglugerð um fullnustu refsidóma. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um fullnustu refsidóma.

1. gr.

Fangelsismálastofnun tekur við refsidómum til fullnustu frá ríkissaksóknara og Hæstarétti og öðrum dómum þar sem refsing er ákveðin. Sektardóma sendir stofnunin viðkomandi lögreglustjórum til fullnustu.

Stofnunin annast fullnustu varðhalds- og fangelsisdóma.

Fangelsismálastofnun felur viðkomandi lögreglustjórum innheimtu sakarkostnaðar og skal innheimtan falin þeim með úrskurði þar um.

2. gr.

Stofnunin tilkynnir dómþola um dóm hans og hvenær hann skuli mæta til afplánunar. Mæti dómþoli ekki til afplánunar á þeim tíma sem ákveðinn er í tilkynningu felur stofnunin viðkomandi lögreglustjóra að hafa upp á honum og færa hann í fangelsi.

3. gr.

Leiti dómþoli eftir fresti á að hefja afplánun er stofnuninni heimilt að veita hann, ef sérstakar aðstæður dómþola mæla með, í allt að sex mánuði frá þeim tíma er dómþoli átti upphaflega að hefja afplánun.

Við ákvörðunina skal tekið mið af alvarleika afbrots dómþola, sakarferli, hversu langt er um liðið frá því afbrot var framið og öðru sem máli skiptir. Ekki skal veita frest á afplánun ef hætta er talin á að dómþoli misnoti hann og almennt skal frestur ekki vera lengri en einn mánuður í senn. Rétt er að binda slíkan frest þeim skilyrðum að dómþoli fremji ekki afbrot á fresttímanum, sé reglusamur og hafi samband við fangelsismálastofnun eins og fyrir hann er lagt. Einnig er heimilt að binda frestun skilyrðum sem getið er í 57. gr. almennra hegningarlaga. Í undantekningartilvikum má taka mið af fangafj ölda þegar ákvörðun um frest er tekin.

Rjúfi dómþoli skilyrði fyrir frestun afplánunar er stofnuninni rétt að láta afplánun hefjast án frekari fyrirvara.

Mæti dómþoli ekki á þeim tíma sem ákveðinn hefur verið með frestveitingu felur stofnunin viðkomandi lögreglustjóra að hafa upp á honum og færa hann í fangelsi.

4. gr.

Fangelsismálastofnun veitir reynslulausnir skv. 40. gr. almennra hegningarlaga. Ákvarðanir stofnunarinnar skulu vera skriflegar og rökstuddar.

Stofnunin tekur á móti beiðnum um náðun af refsingu, tekur saman upplýsingar um þau mál og sendir náðunarnefnd sbr. 6. gr.

Stofnunin tilkynnir dómþola um afgreiðslu dómsmálaráðherra á náðunarbeiðni

Beiðni um náðun frestar framkvæmd refsingar þar til hún hefur verið afgreidd, enda sé hún fram komin eigi síðar en hálfum mánuði áður en afplánun skal hefjast. Sé náðunarbeiðni endurnýjuð frestar hún þó ekki framkvæmd refsingar, nema um sé að ræða nýjar upplýsingar um hagi dómþola, sem ekki var unnt að leggja fram með fyrri beiðni.

5. gr.

Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Fanga verður ekki veitt reynslulausn af blönduðum skilorðsdómi. Þó er unnt að víkja frá því ef sá dómur er síðastur í fullnusturöð fleiri dóma og öll refsing dómsins rúmast innan tímaskilyrða 1. og 2. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga. Heimilt er að veita fanga reynslulausn þó blandaður skilorðsdómur sé meðal þeirra dóma sem hann afplánar, enda sé þeim dómi haldið utan útreiknings á tímaskilyrðum 1. og 2. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga.

Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans, ef hann afplánar refsingu fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiriháttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, rán, eða annað afbrot sem er sérlega gróft nema sérstakar ástæður mæli með, þ.m.t. lengd refsingar, persónulegar aðstæður og framúrskarandi hegðun í refsivistinni.

Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans, ef hann hefur áður afplánað óskilorðsbundnar refsingar tvívegis eða oftar, nema sérstakar ástæður mæli með, þ.m.t. lengd dómsins, persónulegar aðstæður og framúrskarandi hegðun í refsivistinni, eða að mörg ár eru liðin frá síðustu afplánun.

Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn ef hann telst vera síbrotamaður eða honum hefur ítrekað áður verið veittar reynslulausnir og rofið skilyrði þeirra, nema alveg sérstaklega standi á.

Reynslulausn verður ekki veitt ef slíkt þykir að öðru leyti óráðlegt vegna haga fangans.

Nú hefur dómþoli ekki hafið afplánun og er þá allt að einu heimilt að veita honum reynslulausn af refsingunni, ef hann hefur áður afplánað a.m.k. jafnlanga refsingu, og refsingin er einvörðungu vegna afbrota sem framin eru fyrir þá afplánun og hann hefur ekki verið dæmdur fyrir afbrot framin eftir að þeirri afplánun lauk og öðrum skilyrðum um veitingu reynslulausnar er fullnægt.

6. gr.

Heimilt er dómþolum að skjóta til dómsmálaráðherra ákvörðunum fangelsismálastofnunar um reynslulausnir.

Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna nefnd, náðunarnefnd, til tveggja ára í senn, sem lætur honum í té rökstuddar tillögur um afgreiðslu erinda sem til hans er skotið skv. 1. mgr. þessarar greinar og um afgreiðslu náðunarbeiðna.

7. gr.

Nú hefur dómþola verið veitt skilorðsbundin náðun eða reynslulausn, eða hann dæmdur skilorðsbundið og umsjón gerð að skilyrði og skal þá fangelsismálastofnun fylgjast með því eftir föngum að hann haldi skilorðið. Rétt er stofnuninni í þessu skyni að leggja fyrir dómþola að tilkynna sig með reglubundnum hætti til stofnunarinnar símleiðis eða með því að koma á skrifstofu hennar, eða með öðrum hætti.

8. gr.

Fangelsismálastofnun tekur allar ákvarðanir skv. 41. gr. almennra hegningarlaga um lengd reynslutíma, skilyrði reynslulausnar og um að feIla niður skilyrði reynslulausnar að nokkru eða öllu leyti.

9. gr.

Fangelsismálastofnun fjallar um skilorðsrof skv. 2. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga. Stofnunin fjallar með sama hætti um skilorðsrof þeirra sem hefur verið veitt náðun skilorðsbundið.

Stofnunin ákveður hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða að dómþoli taki út refsingu þá sem eftir stendur. Ákvörðun fangelsismálastofnunar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal vera skrifleg og

rökstudd. Fangelsismálastofnun birtir eða lætur birta dómþola ákvörðunina með sannanlegum hætti og er óheimilt að láta hann taka út eftirstöðvar refsingar fyrr en eftir birtingu.

10. gr.

Nú hefur fangelsismálastofnun tekið ákvörðun um að dómþoli skuli afplána eftirstöðvar refsingar, sem honum hefur verið veitt skilorðsbundin reynslulausn á eða náðun af, vegna skilorðsrofs, og dómþoli er frjáls ferða sinna, og er þá stofnuninni rétt að fela viðkomandi lögreglustjóra að hafa upp á dómþola til að birta honum ákvörðunina og eftir atvikum að færa hann í fangelsi.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 30. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48 frá 19. maí 1988 og 40.- 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 12. febrúar 1940 og öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur brott reglugerð um upphaf og lok fangavistar nr. 569 frá 30. desember 1988.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 28. janúar 1993.

Þorsteinn Pálsson.

Hjalti Zóphóníasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica