Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 20. ágúst 1998

289/1994

Reglugerð um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði

I. KAFLI Almenn ákvæði og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um leysiefni, sem ætluð eru til notkunar í matvælaiðnaði, með fyrirvara um aðrar sértækari reglur um þessi efni. Hún gildir þó ekki um leysiefni sem notuð eru við framleiðslu á aukefnum, vítamínum eða öðrum næringarefnum, öðrum en þeim sem getið er um í viðauka reglugerðarinnar, en tryggja skal að notkun aukefna, vítamína eða annarra næringarefna leiði ekki til þess að matvæli innihaldi leifar leysiefna í þeim mæli að valdið geti heilsutjóni.

Reglugerðin gildir ekki um leysiefni eða matvæli sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópsks efnahagssvæðis.

2. gr.

Leysiefni eru efni sem notuð eru til að leysa upp matvæli eða efnisþætti þeirra, þar með talin öll aðskotaefni sem geta verið til staðar í matvælum.

Leysiefni til útdráttar eru leysiefni sem notuð eru við útdrátt við vinnslu á matvælum eða efnisþáttum þeirra og eru fjarlægð, en leifar efnanna kunna þó að fyrirfinnast í matvælunum eða efnisþáttum þeirra af tæknilegum ástæðum.

II. KAFLI Notkun leysiefna og merking umbúða.

3. gr.

Notkun leysiefna til útdráttar í matvælaiðnaði skal vera í samræmi við það sem fram kemur í viðauka þessarar reglugerðar og samkvæmt þeim skilyrðum sem þar eru sett. Engin önnur efni skulu leyfð og tilgreint hámarksmagn skal ekki gilda um önnur efni en þar er kveðið á um.

4. gr.

Þar til annað verður ákveðið, er heimilt að nota efni, sem notuð eru til að þynna eða leysa bragðefni, sem leysiefni til útdráttar á náttúrulegum bragðefnum.

Vatn, sem inniheldur efni til jöfnunar á sýrustigi, etanól, og efni í matvælum sem hafa eiginleika leysiefna, er heimilt að nota sem leysiefni til útdráttar.

5. gr.

Tryggja skal að leysiefni til útdráttar innihaldi ekki eiturefni í því magni að valdið geti heilsutjóni. Þau skulu ekki innihalda meira en 1 mg/kg af arseni eða 1 mg/kg af blýi.

Hollustuvernd ríkisins er heimilt að fella tímabundið úr gildi eða takmarka notkun leysiefna sem fram koma í viðauka þessarar reglugerðar, ef sýnt þykir að slík notkun geti á einhvern hátt valdið heilsutjóni.

6. gr.

Óheimilt er að dreifa efnum sem fram koma í viðauka nema eftirfarandi upplýsingar komi fram á umbúðum eða áföstum merkimiðum. Merkingin skal vera greinileg, vel læsileg og þannig að hún máist ekki af umbúðunum. Merkja skal á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.

a) vöruheiti eins og skráð er í viðauka;

b) upplýsingar um hreinleika efnisins og að það henti við útdrátt í matvælaiðnaði;

c) auðkenni framleiðslueiningar;

d) nafn og heimilisfang framleiðanda eða dreifanda;

e) nettómagn í rúmmálseiningum;

f) ef þörf krefur, geymslu- og notkunarskilyrði.

Heimilt er að upplýsingarnar sem getið er um í liðum c-f komi fram í viðskiptaskjölum viðkomandi vöru, sem látin skulu í té fyrir eða við afhendingu.

Þessi skilyrði gilda með fyrirvara um aðrar reglur er gilda um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna og efnablanda.

III. KAFLI Ýmis ákvæði og gildistaka.

7. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

8. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

9. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 52/ 1988 um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 43. tölul., tilskipun 88/344/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi leysiefni sem notuð eru við framleiðslu matvæla og efnisþátta sem notaðir eru við matvælavinnslu, með breytingum nr. 92/ 115/EBE. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.