Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

288/1981

Reglugerð um framkvæmd vinnueftirlits í landbúnaði.

1. gr.

Félagsmálaráðherra skipar 5 manna stjórn til að hafa umsjón með framkvæmd þeirra ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er sérstaklega varða landbúnað.

Stjórnin skal skipuð tveim mönnum tilnefndum af stjórn Vinnueftirlits ríkisins, einum tilnefndum af stjórn Stéttarsambands bænda, einum tilnefndum af stjórn Búnaðarfélags Íslands auk stjórnarformanns Vinnueftirlits ríkisins sem skal vera formaður stjórnarinnar.

Skipunartími stjórnarinnar skal vera hinn sami og stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Um laun stjórnarinnar gilda sömu reglur og um laun stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

2. gr.

Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd eftirlits með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í landbúnaði.

Forstjóri Vinnueftirlitsins situr fundi stjórnarinnar og ennfremur aðrir starfsmenn þess, þegar við á. Þeir skulu hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

3. gr.

Verkefni stjórnar vinnueftirlits í landbúnaði eru m. a.:

  1. Að fjalla um tillögur að reglugerðum og reglum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins sem snert geta landbúnaðinn.
  2. Að setja reglur um framkvæmd einstakra ákvæða laga nr. 46/1980 í landbúnaði þegar ástæða þykir til að setja slíkar reglur sérstaklega fyrir landbúnað vegna sérstakra atvinnuhátta.
  3. Að fjalla um starfsáætlanir Vinnueftirlits ríkisins m. t. t. landbúnaðar.
  4. Að gera tillögu að gjaldskrá vegna skráningar og skoðunar búvéla sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980.
  5. Að fjalla um ákvarðanir forstjóra og starfsmanna Vinnueftirlits ríkisins sem áfrýjað kann að verða af aðilum sem stunda landbúnað sbr. 2. mgr. 87. gr. og 98. gr. laga nr. 46/1980.
  6. Að beita sér fyrir rannsóknum á atvinnusjúkdómum í landbúnaði og gerð leiðbeininga um varnir gegn þeim í samráði við forstjóra og starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins og heilbrigðisyfirvöld.

4. gr.

Stjórn vinnueftirlits í landbúnaði getur beitt sér fyrir stofnun öryggisnefndar fyrir landbúnað sbr. 11. gr. laga nr. 46/1980.

5. gr.

Um greiðslu kostnaðar við framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar fer samkvæmt 77. gr. laga nr. 46/1980.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 9. .júní 1981.

F. h. r.

Hallgrímur Dalberg.

Hólmfríður Snæbjörnsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.