Landbúnaðarráðuneyti

712/1996

Reglugerð fyrir Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

fyrir Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi.

 

I. KAFLI

Tilgangur, inntökuskilyrði, námstími og námslok.

1. gr.

                Tilgangur Garðyrkjuskóla ríkisins er:

1. að veita sérfræðslu á framleiðslu- og ræktunarsviði (garð- og skógarplöntuframleiðsla, ylrækt og útimatjurtaræktun og lífræn ræktun garðyrkjuafurða), á skrúðgarðyrkju- og umhverfissviði (skrúðgarðyrkja, skógrækt og náttúru- og umhverfisvernd) og á blóma-skreytinga- og markaðssviði (blómaskreytingar, vörumeðhöndlun og markaðssetning).

2. að stuðla að aukinni fræðslu og endurmenntun þeirra, er við og fyrir garðyrkju starfa með ráðgjöf, námskeiðum, fræðslufundum, útgáfu fræðslurita og birtingu tilraunaniðurstaðna.

3. að halda námskeið fyrir almenning eftir því sem aðstæður leyfa.

4. að skapa aðstöðu fyrir rannsóknir og tilraunir í garðyrkju.

 

2. gr.

                Nám við Garðyrkjuskóla ríkisins skiptist í eftirfarandi námssvið og námsbrautir:

Blómaskreytinga- og markaðssvið:Blómaskreytinga- og markaðsbraut.

Framleiðslu- og ræktunarsvið:        Garðplöntubraut.

                                Ylræktar- og útimatjurtabraut.

Skrúðgarðyrkju- og umhverfissvið:Skrúðgarðyrkjubraut.

                                Umhverfis- og náttúruverndarbraut.

 

3. gr.

                Garðyrkjuskóli ríkisins er sériðnskóli fyrir skrúðgarðyrkjumenn. Um þau atriði, sem þessi reglugerð nær ekki til, vísast til gildandi laga og reglugerða um framhaldsskóla og iðnfræðslu hverju sinni.

                Garðyrkjuskólinn skal hafa aðstöðu til að láta sveinspróf í skrúðgarðyrkju fara fram á skólastaðnum.

 

4. gr.

                Við skólann skal reka garðyrkjustöð með fjölbreyttri ræktun úti og í gróðurhúsum til kennslu og verkþjálfunar og skapa aðstöðu fyrir rannsóknir og ráðgjöf á öllum sviðum garðyrkju. Garðyrkjustöð skólans, matjurtagarðar, skrúðgarðar, jurta- og trjáplöntusöfn, skógræktarsvæði og umhverfi allt skal vera til fyrirmyndar hvað snertir uppbyggingu og umgengni.

 

5. gr.

                Inntökuskilyrði eru:

a:             að umsækjandi hafi lokið 2 - 4 önnum í framhaldsskóla og náð fullnægjandi árangri í nánar skilgreindum áföngum í námsvísi eða aflað sér á annan hátt jafngildrar undirbúningsþekkingar.

b:             að umsækjandi hafi unnið a.m.k. þrjá mánuði við alhliða garðyrkjustörf (reynslutíma, sbr 8. gr.).

                Áður en nemendur hefja bóknám við skólann skulu þeir auk reynslutímans hafa lokið hluta af dagbókarskyldu verknámi (fjórum mánuðum á blómaskreytinga- og markaðssviði, en níu mánuðum á öðrum sviðum).

                Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla, vottorð um verklegt nám og ósk um samþykki verknámsstaðar.

                Skriflegar umsóknir um skólavist eru afgreiddar jafnóðum og þær berast.

 

6. gr.

                Frá einstökum inntökuskilyrðum má veita undanþágu, ef sérstakar ástæður mæla með því. Skólastjóri, yfirkennari og viðkomandi fagdeildarstjóri/aðalkennari fjalla um undanþágur.      Heimilt er að halda undirbúningsnámskeið fyrir þá nemendur, sem hafa ekki fullnægjandi bóklegan undirbúning, svo og fyrir þá nemendur sem að mati skólans hafa ekki hlotið nægjanlega góða einkunn í einni námsgrein eða fleiri á aðgangsprófum, sbr. a-lið 5.gr., til þess að teljast hafa nægan undirbúning til að stunda nám við skólann.

 

7. gr.

                Kennsluvikur á önn skulu vera 13, þar af skal heimilt að verja einni viku til frávika frá hefðbundinni stundarskrá. Auk þess er heimilt að verja allt að tveimur vikum til prófa á hverri önn. Á blómaskreytingabraut er heimilt að skipta á próftíma og jafn löngum verknámstíma, ef slíkt þykir henta vegna verknáms. Ein námseining í bóknámi er 26 kennslustundir og ein námseining í dagbókarskyldu verknámi er 40 vinnustundir.

                Þar til annað verður ákveðið, skal aðeins taka inn nýja nemendur í bóknámsdeild skólans annað hvert ár.

 

8. gr.

                Til að ljúka garðyrkjunámi þarf nemandi auk bóknáms að hafa lokið 17 mánaða verknámi (blómaskreytingabraut 14 mánaða) án leyfa, þar af eru þrír mánuðir reynslutími (ósérhæft verknám), en fjórtán mánuðir (blómaskreytingabraut 11 mánuðir) skulu vera sérhæfðir við þá braut sem nemandi stundar nám á.

                Heimilt er að hluti af verknáminu fari fram á viðurkenndum verknámsstöðum erlendis, enda sé fylgt reglum skólans um verknám.

                Skólastjóri, í samráði við viðkomandi fagdeildarstjóra, setur nánari reglur um framkvæmd verknáms sem landbúnaðarráðuneytið staðfestir.

 

9. gr.

                Starfandi garðyrkjubændum skal gert mögulegt að sækja tíma í einstökum námsgreinum eftir því sem aðstæður leyfa. Óski þeir að taka próf í viðkomandi námsgreinum skulu þeir skila verkefnum eftir sömu reglum og aðrir nemendur og sækja tíma eftir nánara samkomulagi.

                Heimilt er að gefa þeim nemendum sem hyggja á háskólanám í garðyrkju, þar sem ákveðnar kröfur eru gerðar um lágmarksundirbúning í garðyrkjuskóla, kost á því að sitja í skólanum og stunda þar nauðsynlegt undirbúningsnám, þó þannig að þeir nemendur er hyggja á reglulegt garðyrkjunám hafi forgang að skólavist.

 

10. gr.

                Heimilt er að kenna ýmsar greinar, t.d. blómaskreytingar, garðagróður, landmælingar, véla- og verkfærafræði o.fl., í allt að hálfan mánuð á ári utan hins venjulega skólatíma, og telst sá tími til verknáms.

 

II. KAFLI

Stjórnun og starfslið.

11. gr.

                Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn Garðyrkjuskóla ríkisins og heyrir öll starfsemi skólans undir landbúnaðarráðuneytið.

                Landbúnaðarráðherra skipar skólanefnd við Garðyrkjuskóla ríkisins til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja þrír menn sem ráðherra skipar án tilnefningar. Einn fulltrúi tilnefndur af kennurum skólans og einn fulltrúi tilnefndur af nemendafélagi skólans hafa seturétt á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt þegar fjallað er um mál er snerta námsefni, kennslutilhögun og dvöl nemenda á skólastaðnum. Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Aðrir starfsmenn skólans skulu kallaðir til þegar fjallað er um mál er snerta þeirra verksvið. Skólastjóri situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt.

 

12. gr.

                Skólanefnd mótar stefnu skólans og áherslur í starfi. Hún hefur á hendi skipulagsmál á skólastaðnum, forgangsraðar framkvæmdum í samráði við skólastjóra og hefur yfirumsjón með þeim. Skólastjóri gerir í samvinnu við skólanefnd starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára og skal hún hljóta samþykki landbúnaðarráðherra. Áætlunina skal endurskoða árlega. Skólastjóri gerir í upphafi hvers árs fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og skal hún lögð fyrir skólanefnd til samþykktar. Skólastjóri gerir skólanefnd reglulega grein fyrir rekstrarstöðu skólans.

                Skólastjóri og skólanefnd ákveða upphæð innritunargjalda sem nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo og efnisgjöld og pappírsgjöld. Nemendasjóðsgjöld ákvarðast af nemendafélagi skólans. Upphæð gjalda er háð samþykki landbúnaðarráðherra.

                Laun skólanefndar skulu ákveðin af landbúnaðarráðherra og greiðast af starfsfé skólans.

                Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um störf og verksvið skólanefndar.

 

13. gr.

                Skólastjóri veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegu starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög og reglugerð, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun, hefur umsjón með framkvæmdum, reikningshaldi skólans og kennslu. Skólastjóri gerir landbúnaðarráðuneytinu grein fyrir rekstrarstöðu skólans a.m.k. tvisvar á ári, þ.e.a.s. í mars og september.

                Skólaráð skal vera skólastjóra til ráðuneytis við stjórn skólans. Skólastjóri er oddviti skólaráðs, sem auk hans skal skipað yfirkennara, tveimur fulltrúum fastráðinna kennara og tveimur fulltrúum nemenda, kjörnum af nemendaráði. Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti

 

14. gr.

                Kennarafundi skal halda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á hverju skólaári. Skylt er skólastjóra að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða helmingur fastra kennara skólans óska þess. Á kennarafundum skal fjalla um stefnumörkun í starfi skólans, um námsskipan, kennsluhætti, þar með talið námsmat, og aðra starfsemi. Skólastjóri boðar til kennarafunda og stýrir þeim.

 

15. gr.

                Í skólanum skal starfa nemendaráð sem skipað er einum fulltrúa af hverri námsbraut skólans. Nemendaráð er fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra og skal vera skólastjóra til ráðuneytis um mál er varða nemendur. Nemendaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun. Nánar skal kveða á um störf nemendaráðs í námsvísi.

 

16. gr.

                Landbúnaðarráðherra skipar skólastjóra til fimm ára í senn, að fenginni tillögu skólanefndar. Kennari sem skipaður er skólastjóri skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir starfi skólastjóra.

                Skólastjóri ræður kennara (sérfræðinga) að höfðu samráði við skólanefnd. Skólastjóri ræður annað starfsfólk. Kennarar skólans skulu hafa háskólapróf, garðyrkjutæknapróf eða hliðstæða menntun. Umsækjendur, sem auk tilskilins fagnáms hafa lagt stund á uppeldis- og kennslufræði í námi sínu, skulu að öðru jöfnu ganga fyrir um kennslustörf.

                Ráða má kennara í starf yfirkennara. Hann skal, í samráði við skólastjóra, sjá um gerð stundaskrár og önnur þau atriði er varða framkvæmd kennslunnar og dvöl nemenda á skólastaðnum.

                Á hverri námsbraut skal vera fagdeildarstjóri. Fagdeildarstjóri hefur umsjón með verknámi nemenda ásamt skólastjóra og yfirkennara.

                Landbúnaðarráðherra setur skólastjóra, yfirkennara, kennurum og öðrum starfsmönnum skólans erindisbréf.

 

17. gr.

                Starfsmenn skólans skulu vera nemendum til leiðsagnar utan kennslustunda, eftir því sem aðstæður leyfa, og gegna öllum störfum sínum í þágu skólans af alúð og samviskusemi.

                Störf fastráðinna kennara skiptast milli kennslu, stjórnunar og ritstarfa svo og rannsókna og ráðgjafar sbr. 20. gr. Nú hefur fastráðinn kennari ekki fullt starf við þessi verkefni og ber honum þá að vinna önnur störf í þágu stofnunarinnar í samráði við skólastjóra.

                Á sama hátt ber kennurum að vinna að ofangreindum störfum þótt skóla sé slitið, þar til þeir hafa leyst af hendi vinnuskyldu sína.

                Heimilt er að kalla saman þriggja manna matsnefnd á störfum kennara við skólann. Nefndina skipi skólastjóri, fulltrúi tilnefndur af kennurum og fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins. Nefnd þessi meti störf kennara við skólann til vinnustunda.

                Nánar skal kveða á um störf kennara í starfslýsingu.

 

18. gr.

                Við skólann skal rækja heilsuvernd. Viðkomandi heilsugæslulæknir hefur umsjón með þessari starfsemi, í samráði við skólastjóra.

                Nemendum skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita skólastjóri, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á.

 

19. gr.

                Skólaráð setur skóla- og heimavistarreglur. Brot á þeim getur varðað brottvísun úr skóla.

                Setja skal sérstakar skólasóknarreglur og reglur um skil á verkefnum og skulu þær hljóta samþykki landbúnaðarráðuneytisins.

 

III. KAFLI

Rannsóknir, tilraunir og leiðbeiningar.

20. gr.

                Við skólann skulu gerðar ýmsar tilraunir og rannsóknir með ræktun garðjurta, bæði við almenn skilyrði og í gróðurhúsum undir faglegri umsjón Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

                Skólanefnd ákveður áherslur í rannsóknum og tilraunum að fengnum tillögum Fagráðs í garðyrkju og skólastjóra, í samráði við fagdeildarstjóra einstakra námsbrauta.

                Tilraunastjóri, sem skólanefnd ræður að höfðu samráði við skólastjóra og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, stýrir tilraunastarfinu og hefur umsjón með daglegri framkvæmd þess. Nánar skal kveðið á um störf og verksvið tilraunastjóra í starfslýsingu sem landbúnaðarráðherra setur. Garðyrkjuskólinn leggur til aðstöðu fyrir rannsóknir og tilraunir á skólastaðnum samkvæmt nánari ákvörðun skólanefndar í samráði við skólastjóra.

                Heimilt er skólanefnd, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, að gera samkomulag við Bændasamtök Íslands um að garðyrkjuráðunautar samtakanna fái starfsaðstöðu við skólann. Einnig er skólanefnd heimilt, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, að gera samkomulag við Samband garðyrkjubænda og önnur félagasamtök garðyrkjunnar um að þau fái aðstöðu fyrir starfsemi sína á skólastaðnum.

                Heimilt er, samkvæmt sérstöku samkomulagi við Bændasamtök Íslands, að garðyrkjuráðunautar sinni kennslu við skólann sem hluta af vinnuskyldu sinni.

 

IV. KAFLI

Námsefni, bóknám og verknám.

21. gr.

                Í bóknámsdeild skólans skal kennslan fara fram með fyrirlestrum, úrlausn verkefna, æfingum, námsferðum og athugunum, eftir nánari ákvörðun kennara og skólastjóra.

 

22. gr.

                Námsgreinum við skólann skal skipt í almennan kjarna, sviðskjarna og sérgreinar. Námsgreinar sem eru sameiginlegar námssviðum eða námsbrautum skulu kenndar viðkomandi nemendum sameiginlega eftir því sem við verður komið.

                Í námsskrá fyrir bóklega námið skal vera námsgreinayfirlit, áfangalýsingar og kennsluyfirlit.

                Kennslu á einstökum námsbrautum skal hagað samkvæmt námsgreinayfirliti, sem landbúnaðarráðuneytið staðfestir að fengnum tillögum skólastjóra og skólanefndar. Kennslu í einstökum námsgreinum skal hagað samkvæmt áfangalýsingum, sem landbúnaðarráðuneytið staðfestir að fengnum tillögum skólastjóra og skólanefndar.

                Kennarar semja kennsluyfirlit, sem kveður nánar á um kennslu í einstökum námsgreinum, sem skólastjóri staðfestir.

 

23. gr.

                Í verklegu námi skal leggja áherslu á, að nemendur læri sem flest störf tengd viðkomandi námsbraut og fái sem bestan skilning á þeim störfum, sem unnin eru. Verklegu námi hjá vinnuveitanda/skrúðgarðyrkjumeistara skal hagað í samræmi við starfsskrá (námsskrá í verknámi), sem landbúnaðarráðuneytið staðfestir. Í starfsskránni skal vera yfirlit yfir alla helstu verkþætti sem nemandinn þarf að vinna við.

 

24. gr.

                Til þess að nemendur hafi sem best not af verknáminu og fái æfingu í sjálfstæðri hugsun og starfi skulu þeir færa vinnudagbók.

                Vinnuvika í verknámi er 40 vinnustundir. Vinnuveitandi og nemandi staðfesta að rétt sé fært í dagbókina og framvísa henni til skólans. Einkunn skal gefa fyrir vinnudagbók.

                Kennarar og skólastjóri setja nánari reglur um færslu og skil vinnudagbóka.

 

25. gr.

                Nemendur skulu skila plöntusafni samkvæmt nánari reglum sem kennarar og skólastjóri setja.

 

26. gr.

                Nemendur skulu í lok vorannar á fyrra vetri velja sér aðalverkefni. Verkefni þetta skal vinna eftir nánari reglum, sem skólastjóri og fagdeildarstjórar setja.

 

27. gr.

                Heimilt er að taka upp kennslu í nýjum námsgreinum og bjóða upp á val, ef hægt er að koma því við.

                Heimilt er, með samþykki landbúnaðarráðherra, að taka upp kennslu á nýjum námsbrautum.

 

28. gr.

                Fræðslunefndir skulu vera starfandi fyrir hverja námsbraut, og skulu þær vera skipaðar sem hér segir:

Á blómaskreytingabraut:

                Einn fulltrúi tilnefndur af skólanum, einn af Félagi garðyrkjumanna, einn af Sambandi garðyrkjubænda, einn af Félagi blómaverslana og einn af Félagi blómaskreytingafræðinga.

Á garðplöntubraut:

                Einn fulltrúi tilnefndur af skólanum, einn af Félagi garðyrkjumanna, einn af Félagi garðplöntuframleiðenda og einn af Bændasamtökum Íslands.

Á skrúðgarðyrkjubraut:

                Einn fulltrúi tilnefndur af skólanum, einn af Félagi garðyrkjumanna, einn af Félagi skrúðgarðyrkjumeistara, einn af Félagi landslagsarkitekta og einn af Sambandi sveitarfélaga. Fræðslunefnd í skrúðgarðyrkju er jafnframt fagnefnd í skrúðgarðyrkju fyrir fræðslunefnd bygginga- og tréiðngreina samkvæmt lögum um framhaldsskóla.

Á umhverfisbraut:

                Einn fulltrúi tilnefndur af skólanum, einn af Félagi garðyrkjumanna, einn af Náttúruvernd ríkisins, einn af Landgræðslu ríkisins, einn af Skógrækt ríkisins, einn af Sambandi sveitarfélaga og einn af Félagi landslagsarkitekta.

Á ylræktar- og útimatjurtabraut:

                Einn fulltrúi tilnefndur af skólanum, einn af Félagi garðyrkjumanna, einn af Sambandi garðyrkjubænda og einn af Bændasamtökum Íslands.

                Skólanefnd óskar eftir tilnefningum í fræðslunefndir til fjögurra ára í senn.

                Skólastjóri tilnefnir fulltrúa skólans. Tilnefna skal aðalmann og varamann. Fulltrúi skólans sér um að boða hverja fræðslunefnd til funda og stýrir fundum. Fræðslunefndir gera tillögur um námsskrá og skipulag og tilhögun bóknáms og verknáms. Fræðslunefndir fundi minnst einu sinni á önn og hitti nemendur a.m.k. tvisvar á námstímanum. Hver tilnefningaraðili ber kostnað af sínum fulltrúa.

 

V. KAFLI

Endurmenntun og framhaldsnám.

29. gr.

                Skólinn annast framkvæmd endurmenntunar á vegum fagaðila garðyrkjunnar samkvæmt nánara samkomulagi.

                Heimilt er að halda önnur endurmenntunarnámskeið við skólann samkvæmt nánari ákvörðun skólastjóra og skólanefndar.

                Endurmenntunarnefndir sem tilnefndar eru með sama hætti og fræðslunefndir, sbr. 28. gr., gera tillögur um val námsefnis og tilhögun endurmenntunarnámskeiða. Endurmenntunarstjóri sér um að boða nefndirnar til starfa.

                Heimilt er einnig að halda önnur námskeið við skólann, þegar aðstæður leyfa, t.d. í heimilisgarðrækt, matreiðslu grænmetis og blómaskreytingum. Ennfremur má halda námskeið sem starfsmenn skólans annast utan skólastofnunarinnar.

 

30. gr.

                Heimilt er að starfrækja framhaldsnámskeið, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, sem jafnframt ákveður, að fengnum tillögum skólastjóra, til hvaða námsgreina kennslan skuli taka og um kennslutilhögun og námsmat.

                Um próf, einkunnagjöf og annað, sem ekki er tekið fram sérstaklega, gilda að öðru leyti ákvæði þessarar reglugerðar eftir því sem við á.

                Skilyrði til þátttöku á framhaldsnámskeiði er að hafa lokið sveinsprófi eða burtfararprófi í viðkomandi starfsgrein garðyrkjunnar. Undanþágur má veita ef sérstakar ástæður mæla með því.

 

31. gr.

                Heimilt er með samþykki landbúnaðarráherra að koma á framhaldsnámi í garðyrkju, garðyrkjutæknanámi, sbr. meistaranám í skrúðgarðyrkju. Einkum skal leggja áherslu á kennslu í hagfræði, garðyrkju- og umhverfistækni, ræktunarskipulagningu og verkstjórn.

                Inntökuskilyrði eru, auk lokaprófs frá garðyrkjuskóla, að viðkomandi hafi lokið a.m.k. 4 önnum í framhaldsskóla. Kveða skal á um inntökuskilyrði, námstíma, námsefni og námsmat í reglum sem landbúnaðarráðherra setur.

 

VI. KAFLI.

Próf og einkunnir.

32. gr.

                Kennarar prófa hver í sinni námsgrein og ákveða í samráði við skólastjóra, hvort úrlausnarefni skuli vera skriflegt, munnlegt eða hvort tveggja.

                Heimilt er að láta taka lokapróf í ákveðnum áföngum í hverri námsgrein, hvenær sem er á kennslutímabilinu.

 

33. gr.

                Við námsmat skal notaður einkunnastigi með tölunum 0 - 10.

                Í verknámi skal gefa einkunn fyrir dagbók og aðra verknámsþætti, eftir nánari ákvörðun fagdeildarstjóra og skólastjóra.

                Við meðaltalsreikninga skal nota vægi á einkunnir, ef fjöldi kennslustunda eða vinnustunda að baki prófa, verkefna eða verknáms, er mismunandi.

                Einkunnir fyrir verkefni og æfingar sem gerðar eru á námstímabilinu mega gilda sem hluti af lokaeinkunn eftir ákvörðun kennara og skólastjóra hverju sinni.

 

34. gr.

                Við skrifleg próf skal ætla nemendum eina til þrjár klukkustundir til úrlausnar verkefna, eftir nánari ákvörðun kennara og skólastjóra.

                Við skriflegt próf má nota þau gögn ein, sem kennari og skólastjóri leyfa. Noti nemandi óleyfileg hjálpargögn, veiti eða þiggi hjálp, hefur hann fyrirgert rétti sínum til prófs í það sinn og telst hann fallinn á annarprófi. Skal minna nemendur á þetta ákvæði áður en próf hefjast.

                Geti nemandi ekki komið í próf eða lokið því vegna veikinda, skal hann tilkynna það áður en próf hefst, eða svo fljótt sem auðið er og skila læknisvottorði.

 

35. gr.

                Til þess að standast próf í námsgrein þarf einkunnina 5, hið lægsta. Þar sem einkunn í námsgrein er meðaltal tveggja eða fleiri áfangaprófa og verkefna, ræður meðaltalið því, hvort nemandi hafi staðist prófið.

                Annareinkunn er vegið meðaltal lokaeinkunna allra námsáfanga á hverri önn. Annareinkunn skal reiknast með einum aukastaf.

 

36. gr.

                Standist nemandi ekki próf í einstökum námsgreinum, skal honum heimilt að þreyta próf að nýju í þeim greinum, sem hann hefur ekki náð tilskilinni einkunn í, enda séu þær ekki fleiri en tvær.

                Námsefni til endurtekningarprófs tekur til allra áfanga í greininni á viðkomandi önn, óháð einkunn á einstökum áfangaprófum. Verkefni sem gilda sem hluti af einkunn skal endurvinna í slíkum tilfellum, ef einkunn fyrir það er undir 5. Skólastjóri ákveður í samráði við kennara skilafrest á endurunnum verkefnum.

                Sjúkrapróf skal halda strax að loknum reglulegum annarprófum og endurtekin próf svo fljótt sem við verður komið og ávallt áður en næsta önn hefst.

                Fyrri einkunnir í viðkomandi greinum falla úr gildi þegar nemandi skráir sig í endurtekningarpróf.

                Standist nemandi ekki endurtekningarpróf eða fái einkunnina 0, telst hann fallinn á annarprófi og fær þá ekki heimild til að hefja nám á næstu önn. Óski hann eftir að halda áfram námi, skal hann sækja um skólavist að nýju.

 

37. gr.

                Hafi nemandi lokið námsáfanga er sýnir jafn mikla eða meiri kunnáttu í einni eða fleiri námsgreinum en krafist er við skólann, er heimilt að veita honum undanþágu frá að sækja tíma og taka próf í viðkomandi námsgreinum, enda leggi hann fram staðfestingu á kunnáttu sinni.

 

38. gr.

                Við próf dæma hlutaðeigandi sérfræðingar og kennarar úrlausnir nemenda.

                Eftir afhendingu einkunna skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara. Ef fram kemur skekkja í einkunnagjöf, skal slíkt leiðrétt.

                Komi upp ágreiningur milli kennara og nemanda um mat úrlausnar, skal skólastjóri kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina. Úrskurður prófdómara skal gilda. Frestur nemenda til að skjóta ágreiningi til skólastjóra skal vera þrír dagar frá prófsýningardegi.

                Skólastjóri getur óskað eftir því að landbúnaðarráðuneytið skipi prófdómara í einstökum námsgreinum, munnlegum prófum, verklegum greinum og aðalverkefni, eða til aðstoðar við lausn alvarlegra ágreiningsefna, sem upp kunna að koma milli nemenda og kennara.

                Skólanum er ekki skylt að varðveita skriflegar úrlausnir nemanda eftir að frestur til athugasemda er liðinn og athugasemdir hafa verið afgreiddar.

 

39. gr.

                Að loknu bóklegu námi skal afhenda nemendum prófskírteini með árituðum prófseinkunnum fyrir hverja námsgrein á hverri önn og einkunnum fyrir aðalverkefni og plöntusafn. Bóknámseinkunn (aðaleinkunn) er vegið meðaltal allra ofangreindra einkunna.

                Einnig skal skrá á prófskírteinið skólasókn nemandans samkvæmt skólasóknarreglum.

                Að loknu verknámi skal afhenda nemanda skírteini, sem á er skráð yfirlit yfir verknám hans, hvar hann stundaði það, hve lengi, einkunnir fyrir vinnudagbók og aðrar einkunnir sem tengjast því, samkvæmt starfsskrá hverju sinni.

                Enginn nemandi hefur lokið burtfararprófi fyrr en hann hefur lokið bæði bóklegu og verklegu námi.

 

40. gr.

                Þeir einir, sem lokið hafa námi frá Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi, eða hliðstæðu námi frá garðyrkjuskólum erlendis, hafa rétt til þess að bera starfsheitið garðyrkjufræðingur.

 

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

41. gr.

                Við skólann skal starfrækja fræðilegt kennslugagna- og bókasafn varðandi garðyrkju- og umhverfismál.

 

42. gr.

                Skólinn gefur út fræðslurit þar sem birtar eru tilraunaniðurstöður, ýmsar fræðilegar greinar og annað efni sem tengt er garðyrkju- og umhverfismálum.

                Í fræðsluritinu skal einnig komið á framfæri efni úr bókasafni skólans eða öðrum gagnasöfnum, sem komið getur að gagni fyrir íslenska garðyrkju og umhverfismál.

                Áskrifendur greiða árgjald, sem ákvarðast af skólanefnd og skólastjóra, en að öðru leyti er kostnaður greiddur af rekstrarfé skólans.

 

43. gr.

                Skólinn gefur reglulega út skýrslu um starfsemi sína samkvæmt nánari ákvörðun skólastjóra og skólanefndar.

 

44. gr.

                Nemendur í verklegum æfingum við skólann skulu ekki fá greidd laun, en kostnað við náms- og kynnisferðir í garðyrkjustöðvar og stofnanir greiðir skólinn.

                Nemendum í verknámi skal greiða laun samkvæmt gildandi kjarasamningum.

 

45. gr.

                Greiði skólinn kostnað vegna erlendra sérfræðinga, sem koma á hans vegum, skal leita eftir heimild landbúnaðarráðuneytisins hverju sinni.

 

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um Garðyrkjuskóla ríkisins nr. 91 23. júní 1936, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð fyrir Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi nr. 423 8. nóvember 1985.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 30. desember 1996.

 

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica