Félagsmálaráðuneyti

286/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 553/2004, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum.

1. gr.

B-liður 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Öryggi og heilbrigði í öryggisblöðum, sbr. gildandi reglugerð um öryggisblöð.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar:

a. Í stað orðanna "gera neyðaráætlun" í d-lið kemur: gera almennar ráðstafanir.

b. Orðið "varasamra" í f-lið fellur brott.

3. gr.

3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Atvinnurekandi skal upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að varasöm efni og efnavörur geti valdið mengun og grípa þegar í stað til allra nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að ráða bót á ástandinu.

4. gr.

Í stað 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Atvinnurekandi skal sjá til þess að öryggisblöð, sbr. gildandi reglugerð um öryggisblöð, séu til staðar á vinnustað.

Atvinnurekandi skal veita starfsmönnum eða fulltrúum þeirra aðgang að þeim upplýsingum sem vísað er til í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr.

Við 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi:

Þar á meðal skal atvinnurekandi kanna hvort unnt sé að færa starfsmanninn til í starfi þannig að hann eigi ekki á hættu að verða fyrir frekari mengun. Þá skal atvinnurekandi sjá til þess að starfsmenn njóti áframhaldandi heilsuverndar og heilsufar annarra starfsmanna sem unnið hafa við sömu aðstæður og starfsmaður skv. 1. mgr. verði endurmetið. Í slíkum tilvikum getur sá er annast heilsuverndina eða annar hæfur sérfræðingur lagt til að þeir starfsmenn skuli eiga kost á heilsufarsskoðun.

6. gr.

Í stað orðanna "tæknilegu ráðstafanir" í f-lið 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar kemur: ráðstafanir er varða tækni og skipulag.

7. gr.

II. Viðauki orðast svo:

II. VIÐAUKI

Bönn.

Framleiðsla, gerð eða notkun á vinnustað á þeim efnum er koma fram hér á eftir og störf sem tengjast notkun þeirra er óheimil. Bannið gildir ekki ef þau er að finna í öðru efni eða eru hluti úrgangs, enda sé styrkur einstakra varasamra efna fyrir neðan styrkleikamörkin sem tilgreind eru.

a) Efni:

EINECS-nr. (1)

CAS-nr. (2)

Heiti áhrifavalds

Styrkleikamörk fyrir undanþágu

202-080-4

91-59-8

2-naftýlamín og sölt þess

0,1 % w/w

202-177-1

92-67-1

4-amínódífenýl og sölt þess

0,1% w/w

201-199-1

98-87-5

bensidin og sölt þess

0,1% w/w

202-204-7

92-93-3

4-nítródífenýl

0,1% w/w

(1) EINECS: European Inventory of Existing Commercial Chemical Substances (Evrópuskrá yfir markaðssett efni).

(2) CAS: Chemical Abstracts Service.

b) Störf:

Engin.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 14., 18., 38., 40., 47., 50., 51. gr., 65. gr. a, 66. og 67. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, til innleiðingar á tilskipun nr. 98/24/EB, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/1999, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 27. mars 2006.

Jón Kristjánsson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica