Menntamálaráðuneyti

280/1997

Reglugerð um námssamninga og starfsþjálfun. - Brottfallin

1. gr.

            Reglugerð þessi fjallar um gerð námssamninga og starfsþjálfun á vinnustað á vegum skóla eða annarra aðila í löggiltun iðngreinum.

2. gr.

            Um starfsnám í atvinnulífinu skal gera námssamning milli iðnfyrirtækis eða meistara og iðnnema í samræmi við 32. gr. laga um framhaldsskóla og ákvæði reglugerðar þessarar.

            Iðnmenntaskólar fylgjast með að samningar um starfsþjálfun í atvinnulífinu séu gerðir fyrir hönd iðnnema á verknámsbrautum.

3. gr.

            Ekki má taka yngri einstakling en 16 ára á samning sbr. 54. gr. laga nr. 58/1992 sbr. 10. kafla l. nr. 46/1980. Í iðngreinum þar sem vinnuhættir, vinnuskilyrði, vinnutími eða önnur atriði gera slíkt nauðsynlegt getur menntamálaráðherra áskilið hærra aldursmark eða ef önnur lög kveða svo á um. Dagvinnutími iðnnema skal verea hinn sami og sveina í hlutaðeigandi iðngrein samkvæmt kjarasamningi.

            Menntamálaráðherra er heimilt að gera próf af verknámsbraut að skilyrði fyrir því að iðnnámssamningur sé gerður.

4. gr.

            Fulltrúi menntamálaráðherra staðfestir námssamning. Leita skal staðfestingar fulltrúa menntamálaráðherra á námssamningi innan mánaðar frá undirskrift. Afrit af námssamningi skal sent menntamálaráðuneytinu til skráningar.

5. gr.

            Menntamálaráðuneytið leggur til eyðublöð undir námssamninginn og ræður gerð hans. Í námssamning skal skrá upphaf náms, áætluð námslok svo og skóla þar sem nám er stundað. Samningurinn er gerður í fjórriti og skal hvor samningsaðili halda sínu eintaki, fulltrúi menntamálaráðherra einu eintaki og skólinn einu. Honum skal fylgja námsáætlun nemandans staðfest af skóla þar sem nám er stundað.

6. gr.

            Fyrstu 3 mánuði námstíma samkvæmt námssamningi skoðast sem reynslutími. Hvenær sem er á reynslutímanum getur hvor samningsaðili um sig slitið námssamningi án þess að tilgreina ástæður.

7. gr.

            Við gerð námssamnings er heimilt að meta til styttingar á námstíma iðnnema það nám sem hann hefur lokið áður en samningurinn var gerður og fellur inn í iðnnámið. Einnig er heimilt að meta vinnu nema í iðngrein áður en námssamningur var gerður. Komi til styttingar skal liggja fyrir yfirlýsing meistara um vinnutíma og staðfesting lífeyrissjóðs eða skattsjóra um að tilskilin gjöld hafi verið innt af hendi.

            Reglur um styttingu námssamninga skulu tilgreinar í námsskrá viðkomandi iðngreinar.

8. gr.

            Hafi iðnnemi áður stundað nám hjá öðrum meistara í sömu iðngrein, en slitið námssamningi við hann sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr. reglugerðar þessarar, skal sá tími er hann vann hjá honum dragast frá fullum námstíma hjá hinum síðari.

9. gr.

            Menntamálaráðherra veitir einstökum vinnustöðum viðurkenningu til að taka nema í starfsþjálfun eða á námssamning samkvæmt reglum sem settar eru að fengnum tillögum starfsgreinaráðs.

            Starfsgreinaráð getur óskað eftrir því að menntamálaráðherra skipi sérstaka nefnd er fjalli í umboði hans um umsóknir einstakra vinnustaða eða meistara um heimild til að taka nema í starfsþjálfun eða á námssamning og afgreiða þær. Menntamálaráðherra setur nefndunum erindisbréf.

10. gr.

            Óski meistari eða iðnfyrirtæki eftir því að gera námssamning í sérgrein innan löggiltrar iðngreinar getur menntamálaráðherra heimilað staðfestingu slíks samnins ef fyrir liggur álit starfsgreinaráðs iðngreinarinnar um að eðli sérgreinarinnar leyfi sjálfstætt nám og próftöku og ráðið mælir með að slíkt sérnám eigi sér stað.

            Menntamálaráðherra ákveður, að fengnum tillögum starfsgreinaráðs, lengd námstíma.

11. gr.

            Til að meisturum eða iðnfyrirtækjum sé heimilt að taka iðnnema á námssamning skulu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Meistari skal hafa fullgild meistararéttindi samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978 í þeirri iðngrein sem hann hyggst kenna. Á sama hátt skal iðnfyrirtæki hafa meistara í þjónustu sinni með þau réttindi er að framan greinir.
  2. Meistari og/eða iðnfyrirtæki skal hafa með höndum hægilega fjölþætt verkefni í iðn sinni til að geta látið í té fullnægjandi kennslu samkvæmt námsreglum iðngreinarinnar eða að mati starfsgreinaráðs, séu slíkar reglur ekki fyrir hendi.
  3. Meistari og/eða iðnfyrirtæki skal hafa yfir að ráða vinnustað eða verkstæði með fullnægjandi aðstöðu ásamt vélum, tækjum, áhöldum og búnaði sem iðngreinin útheimtir.

12. gr.

            Meistari eða iðnfyrirtæki skuldbindur sig með gerð námssamnings til að veita iðnnema kennslu í iðngreininni og sjá svo um að hann hafi að námstíma loknum hlotið hæfilega þjálfun í öllum störfum er iðngreinin tekur til og hafi tileinkað sér meðferð, hirðingu og beitingu þeirra áhalda og tækja sem notuð eru í iðngreininni.

13. gr.

            Uppfylli meistari eða iðnfyrirtæki, að mati starfsgreinaráðs iðngreinarinnar, ekki lengur ákvæði 11. greinar reglugerðar þessarar þá ber meistara/iðnfyrirtæki að sjá nema fyrir öðrum hæfum lærimeistara í iðninni.

            Ef iðnfyrirtæki eða meistari hefur, að mati starfsgreinaráðs, ekki nægilega fjölþætt verkefni svo að unnt sé að kenna iðnina fullkomlega getur menntamálaráðherra, samkvæmt tillögu starfsgreinaráðs, heimilað frávik þannig að iðnnemi hljóti þjálfun að hluta hjá öðru iðnfyrirtæki eða meistara. Geta skal slíks fráviks í samningi og leggja fram með námssamningi samþykki allra aðila um hvernig þjálfun iðnnema skuli háttað. Hið sama gildir ef í ljós kemur á samningstíma að iðnnemi fær ekki að kynnast öllum verkþáttum iðngreinarinnar.

            Meistari eða iðnfyrirtæki skal þegar tilkynna menntamálaráðherra eða fulltrúa hans meistaraskipti sem skáir þau á samninginn.

14. gr.

            Aðila námssamnings geta slitið honum:

  1. ef iðnnemi vanrækir nám sitt;
  2. ef iðnnemi hefur, að áliti læknis, ekki heilsu til að stunda iðnina;
  3. ef meistari eða iðnfyrirtæki brýtur samningsskyldur sínar;
  4. ef meistari eða iðnfyrirtæki verður gjaldþrota eða hættir að reka iðn sína af öðrum ástæðum.

Ef svo er ástatt sem greinir í stafliðum a og c en mistari eða iðnnemi slíta ekki námssamningi getur fulltrúi menntamálaráðherra slitið samningi að undangenginni rannsókn

            Aðilum er heimilt að slíta námssamningi ef þeir koma sér saman um það. Þegar námssamningi er slitið skal það jafnan tilkynnt fulltrúa menntamálaráðherra.

15. gr.

            Sé námssamningi slitið eftir að þriggja mánaða reynslutími er liðinn skal fulltrúi menntamálaráðherra, sbr. 4. gr., skrá ástæðu samningsslitanna.

            Ágreiningi nema og meistara er kann að rísa vegna sasmningsslita skal vísað til fulltrúa menntamálaráðherra sem kannar málið gaumgæfilega og gerir tillögu til menntamálaráðherra um afgreiðslu þess að fenginni umsögn starfsgreinaráðs iðngreinarinnar.

            Verði endurtekin slit á námssamningum af hálfu meistara eða iðnfyrirtækis eða meistari verði sannanlega uppvís að því að vanrækja kennslu eða brjóta á annan hátt gegn lögum og reglugerðum um framhaldsskóla í veigamiklum atriðum, er menntamálaráðherra heimilt að svipta hlutaðeigandi, tímabundið eða að fullu, rétti til að taka iðnnema á námssamning.

16. gr.

            Menntamálaráðuneytið hefur umsjón með náms- og starfsþjálfunarsamningum en getur falið öðrum aðila að sjá um gerð þeirra og annast eftirlit vegna gerðra námssamninga. Samningur skal gerður um slíka umsýslum með námssamningum.

            Menntamálaráðherra heldur skrá um gerða námssamninga.

17. gr.

            Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæði 32. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi nr. 560/1995 með áorðnum breytingum og reglugerð nr. 111/1996.

Menntamálaráðuneytinu, 17. apríl 1997.

Björn Bjarnason

Stefán Baldursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica