Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

271/2014

Reglugerð um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra.

I. KAFLI Hönnuðir.

1. gr. Starfsábyrgðartrygging hönnuða.

Hönnuði, einstaklingi eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar, sem leggur uppdrætti fyrir útgefanda byggingarleyfis skv. ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar, er skylt að hafa í gildi fullnægjandi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hönnuðar.

Ábyrgðartrygging skal tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að leggja fram ábyrgð sem veitt er af viðskiptabanka eða sparisjóði eða annars konar tryggingu sem veitir sambærilega vernd að mati ráðherra. Ákvæði reglugerðar þessarar um ábyrgðartryggingu hönnuða gilda þá einnig um slíka ábyrgð eða tryggingu sem hönnuður leggur fram í stað ábyrgðartryggingar.

Hönnuður skal áður en hann leggur uppdrætti fyrir útgefanda byggingarleyfis leggja fram hjá honum staðfestingu þess, er tryggingu veitir, að viðkomandi hönnuður hafi fullnægjandi tryggingu.

2. gr. Vátryggingarfjárhæðir.

Ábyrgðartrygging hönnuðar skal nema minnst 13.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Einstakt tjónsatvik í skilningi þessarar greinar er allt fjárhagstjón sem verður við ákveðna byggingarleyfisskylda framkvæmd vegna gáleysis í störfum hönnuðar. Heildarvátryggingarfjárhæð innan hvers tólf mánaða tímabils skal nema minnst 39.000.000 kr. Fjárhæðir þessar skulu miðast við byggingarvísitölu í janúar 2014, 596,3 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni.

Þegar hönnuður tekur að sér mjög umfangsmikla hönnun þar sem líkur eru á því að vátryggingarfjárhæð dugi ekki til greiðslu bóta vegna hugsanlegs bótaskylds fjárhagstjóns, sbr. 1. mgr. 1. gr., getur útgefandi byggingarleyfis að höfðu samráði við Mannvirkjastofnun krafist frekari trygginga vegna þess verks. Ábyrgðartrygging í slíkum tilvikum skal að hámarki nema 5% af áætluðum byggingarkostnaði viðkomandi framkvæmdar vegna hvers einstaks tjónsatviks. Ákvæði þessi gilda jafnt hvort sem um nýbyggingu er að ræða eða breytingar á eldra mannvirki.

3. gr. Brottfall vátryggingar.

Falli ábyrgðartrygging hönnuðar úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingartaka og Mannvirkjastofnun þegar í stað. Enda þótt vátryggingin sé fallin úr gildi ber félagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á sérhverju tjóni sem verður þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingin féll úr gildi nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið keypt. Hafi vátryggingin fallið úr gildi áður en Mannvirkjastofnun fær tilkynningu skv. þessari grein helst ábyrgð félagsins í fjórar vikur frá móttöku tilkynningarinnar.

Mannvirkjastofnun skráir brottfall vátryggingar hönnuðar í gagnasafn stofnunarinnar og sér einnig til þess að viðkomandi byggingarfulltrúum berist tilkynning um brottfall vátryggingarinnar.

Hafi hönnuður ekki lengur fullnægjandi tryggingu er honum ekki heimilt að leggja uppdrætti fyrir byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun vegna byggingarleyfisumsóknar.

4. gr. Sameiginleg ábyrgð.

Þar sem tveir eða fleiri hönnuðir starfa með sameiginlega starfsstofu og bera óskipta bótaábyrgð á störfum hvors/hvers annars, geta þeir fullnægt vátryggingarskyldu sinni með því að leggja fram sameiginlega tryggingu, enda komi nöfn þeirra beggja/allra fram í tryggingarskjali. Sé starfsstofan rekin í formi félags með takmarkaðri ábyrgð, s.s. hlutafélags eða einkahlutafélags, þarf jafnframt að leggja fram hjá útgefanda byggingarleyfis yfirlýsingu hönnuðanna þess efnis að þeir beri óskipta ábyrgð á störfum hvors/hvers annars. Skulu þá vátryggingarfjárhæðir skv. 2. gr. hækka um a.m.k. 10% fyrir hvern hönnuð umfram einn.

II. KAFLI Byggingarstjórar.

5. gr. Starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra.

Byggingarstjóra er skylt að hafa í gildi fullnægjandi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans, sbr. ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar.

Fyrirtækjum og stofnunum sem bera í eigin nafni ábyrgð sem byggingarstjórar við mannvirkjagerð, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga um mannvirki, er einnig skylt að hafa í gildi fullnægjandi ábyrgðartryggingu samkvæmt kafla þessum, vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi við byggingarstjórn mannvirkis. Við töku slíkrar ábyrgðartryggingar skal tilgreina í vátryggingarskírteini starfsmann viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar með starfsleyfi Mannvirkjastofnunar sem skal starfa sem byggingarstjóri viðkomandi mannvirkis.

Ábyrgðartrygging skal tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að leggja fram ábyrgð sem veitt er af viðskiptabanka eða sparisjóði eða annars konar tryggingu sem veitir sambærilega vernd að mati ráðherra. Ákvæði reglugerðar þessarar um ábyrgðartryggingu byggingarstjóra gilda þá einnig um slíka ábyrgð eða tryggingu sem byggingarstjóri leggur fram í stað ábyrgðartryggingar.

Byggingarstjóri skal áður en hann tekur að sér byggingarstjórn tiltekins mannvirkis leggja fram hjá viðkomandi útgefanda byggingarleyfis staðfestingu þess er tryggingu veitir að hann hafi fullnægjandi tryggingu. Byggingarstjóra er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu þar til lokaúttektarvottorð vegna mannvirkisins í heild sinni hefur verið gefið út eða byggingarstjóri hefur tilkynnt útgefanda byggingarleyfis á sannanlegan hátt að hann sé hættur umsjón með mannvirkjagerðinni. Við byggingarstjóraskipti færist skyldan til að hafa í gildi ábyrgðartryggingu yfir á nýjan byggingarstjóra sem hefur umsjón með mannvirkjagerðinni.

6. gr. Vátryggingarfjárhæðir.

Ábyrgðartrygging byggingarstjóra skal nema minnst 13.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks og skal fjárhæðin miðast við byggingarvísitölu í janúar 2014, 596,3 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni. Einstakt tjónsatvik í skilningi þessarar greinar er allt fjárhagstjón sem verður við ákveðna byggingarleyfisskylda framkvæmd vegna gáleysis í störfum byggingarstjóra. Tilgreina skal í vátryggingarskírteini nafn starfsmanns með leyfi sem byggingarstjóri sem annast skal umsjón með mannvirkjagerðinni.

Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að taka ábyrgðartryggingu byggingarstjóra vegna allra þeirra byggingarleyfisskyldra framkvæmda sem byggingarstjórinn hefur umsjón með. Ábyrgðartryggingin skal nema minnst 13.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarvátryggingarfjárhæð innan hvers tólf mánaða tímabils skal nema minnst 39.000.000 kr. Fjárhæðir þessar skulu miðast við byggingarvísitölu í janúar 2014, 596,3 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni.

Þegar byggingarstjóri tekur að sér byggingarstjórn mjög umfangsmikilla byggingarframkvæmda þar sem líkur eru á því að vátryggingarfjárhæð dugi ekki til greiðslu bóta vegna hugsanlegs bótaskylds fjárhagstjóns, sbr. 1. mgr. 5. gr., getur byggingarfulltrúi, að höfðu samráði við Mannvirkjastofnun, krafist frekari trygginga vegna þess verks. Ábyrgðartrygging í slíkum tilvikum skal að hámarki nema 5% af áætluðum byggingarkostnaði viðkomandi framkvæmdar vegna hvers einstaks tjónsatviks. Ákvæði þessi gilda jafnt hvort sem um nýbyggingu er að ræða eða breytingar á eldra mannvirki.

7. gr. Brottfall vátryggingar.

Falli ábyrgðartrygging byggingarstjóra úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingartaka og Mannvirkjastofnun þegar í stað. Enda þótt vátryggingin sé fallin úr gildi ber félagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á sérhverju tjóni sem verður þar til sex vikur eru liðnar frá því að vátryggingin féll úr gildi nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið keypt. Hafi vátryggingin fallið úr gildi áður en Mannvirkjastofnun fær tilkynningu skv. þessari grein helst ábyrgð félagsins í sex vikur frá móttöku tilkynningarinnar.

Mannvirkjastofnun skráir brottfall vátryggingar byggingarstjóra í gagnasafn stofnunarinnar og sér einnig til þess að viðkomandi byggingarfulltrúum berist tilkynning um brottfall vátryggingarinnar.

Hafi starfandi byggingarstjóri ekki lengur fullnægjandi tryggingu samkvæmt framangreindu er honum skylt að segja sig frá verki þegar í stað. Fer um skipti á byggingarstjórum eftir ákvæðum byggingarreglugerðar.

Í kjölfar tilkynningar vátryggingafélags um brottfall ábyrgðartryggingar byggingarstjóra getur félagið óskað eftir því við útgefanda byggingarleyfis að gerð verði úttekt á stöðu viðkomandi framkvæmda. Útgefanda byggingarleyfis ber að verða við slíkri beiðni í samræmi við ákvæði laga um mannvirki.

III. KAFLI Sameiginleg ákvæði.

8. gr. Eigin áhætta og endurkröfuréttur.

Heimilt er að áskilja eigin áhættu vátryggingartaka í vátryggingarskilmálum, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi þess er tryggingu veitir.

Tilhögun eigin áhættu skal getið í vátryggingarskilmálum, eða skilmálum annarrar tryggingar. Um hana og tilgreiningu hennar fer að öðru leyti samkvæmt þeim reglum sem gilda um vátryggingarsamninga.

Sá sem veitt hefur vátryggingu og greitt bætur eignast endurkröfurétt á hendur hinum vátryggða ef hann hefur valdið tjóninu af stórkostlegu gáleysi. Sá sem veitt hefur samsvarandi tryggingu í stað vátryggingar, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 5. gr., og greitt hefur bætur, á einnig endurkröfurétt á hendur þeim sem hann veitti trygginguna ef sá aðili hefur valdið tjóninu af stórkostlegu gáleysi.

9. gr. Kynning vátryggingarskilmála.

Skilmálar vegna trygginga hönnuða og byggingarstjóra skulu kynntir umhverfis- og auðlindaráðuneyti áður en þeir eru boðnir viðkomandi aðilum. Sé um vátryggingu að ræða skulu skilmálarnir jafnframt kynntir Fjármálaeftirliti.

10. gr. Fyrning.

Um fyrningu ábyrgðar vátryggingafélags vegna ábyrgðartryggingar skv. reglugerð þessari fer skv. ákvæðum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 5. mgr. 23. gr., 8. mgr. 29. gr. og 5. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og öðlast gildi 1. júní 2014. Frá sama tíma falla úr gildi ákvæði 26. og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með síðari breytingum, sbr. 3. málsl. 17.1.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

Trygging sem hönnuður eða byggingarstjóri hefur í gildi við gildistöku reglugerðar þessarar má halda gildi sínu til loka vátryggingartímabils viðkomandi vátryggingarsamnings. Við endurnýjun eða framlengingu tryggingarinnar skulu skilmálar hennar vera í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Skulu hönnuðir og byggingarstjórar afhenda útgefanda byggingarleyfis skilríki því til staðfestingar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. mars 2014.

F. h. r.

Hugi Ólafsson.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.