Iðnaðarráðuneyti

377/1999

Reglugerð um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndargerðar á Íslandi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

1. gr.

Almennt.

Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi, sbr. 5. gr. þessarar reglugerðar og 5. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

2. gr

Skilyrði endurgreiðslu.

Til að eiga kost á endurgreiðslu skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

1. Einungis félag um framleiðslu kvikmyndar hér á landi getur óskað endurgreiðslu.

2. Sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun liggi fyrir.

3. Lágmarksframleiðslukostnaður kvikmyndar sé 80 milljónir króna.

4. Framleiðslu kvikmyndar hér á landi sé lokið innan þriggja ára frá því að beiðni um

endurgreiðslu er móttekin.

5. Efni kvikmyndar má ekki stríða gegn ákvæðum laga nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og

bann við ofbeldismyndum, og 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3. gr.

Umsókn.

Umsókn um endurgreiðslu ber að senda iðnaðarráðuneytinu á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókn skal fylgja:

1. Staðfesting á að sérstakt hlutafélag hafi verið stofnað um framleiðslu myndar hér á landi.

2. Sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun auk staðfestingar fjármögnunaraðila.

3. Upplýsingar um efni myndar, s.s. handrit.

4. Upplýsingar um tökustaði.

Allar breytingar á áætluðum framleiðslukostnaði eftir að framleiðsla hefst skulu tilkynntar iðnaðarráðuneyti án tafar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. getur umsækjandi um endurgreiðslu dregið það að ganga formlega frá stofnun sérstaks félags um framleiðslu myndar hér á landi þangað til að fyrir liggur fyrirheit nefndar skv. 4. gr. um að mæla með endurgreiðslu. Verði afgreiðsla nefndarinnar jákvæð skal umsækjandi hafa þrjá mánuði til þess að ganga frá formlegri stofnun félags. Hafi félag ekki verið skráð innan þess tímafrests skal litið svo á að umsækjandi hafi dregið umsókn sína til baka.

4. gr.

Afgreiðsla umsókna.

Iðnaðarráðherra skipar þriggja manna nefnd sem í eiga sæti fulltrúar fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra. Fulltrúi iðnaðarráðherra er formaður nefndarinnar.

Hlutverk nefndarinnar er að yfirfara umsóknir. Telji nefndin að umsókn fullnægi öllum skilyrðum veitir hún fyrirheit um endurgreiðslu. Nefndin fjallar jafnframt um beiðnir um endurgreiðslu eftir að framleiðslu kvikmyndar lýkur.

Við afgreiðslu umsókna getur nefndin leitað álits þriðja aðila.

5. gr.

Framleiðslukostnaður.

Framleiðslukostnaður telst allur sá kostnaður sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt og fellur til hér á landi.

Þó er einungis heimilt að endurgreiða hlutfall af þeim framleiðslukostnaði sem til fellur hér á landi, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1999. Greiðsla félagsins vegna framleiðslukostnaður verður því að ganga til aðila sem er skattskyldur skv. 1. eða 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða til opinbers aðila.

6. gr.

Ákvörðun endurgreiðslu.

Þegar framleiðslu kvikmyndar er lokið skal umsækjandi senda iðnaðarráðuneyti bréflega tilkynningu um það með beiðni um endurgreiðslu ásamt sundurliðuðu kostnaðaruppgjöri, svo og efnahags- og rekstrarreikningi, sem hvoru tveggja skulu hafa verið endurskoðuð af löggiltum endurskoðanda. Í kostnaðaruppgjöri skal sá kostnaður sem féll til hér á landi vera sérgreindur.

Nefndinni er heimilt að óska eftir frekari gögnum til skýringar á kostnaðaruppgjöri, s.s. bókhaldi félagsins. Sé kostnaðaruppgjör og fylgigögn þess ófullnægjandi skal beiðni um endurgreiðslu hafnað.

Iðnaðarráðherra ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari að fenginni tillögu nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr.

7. gr.

Endurgreiðsla.

Áður en endurgreiðsla fer endanlega fram skal félaginu slitið. Færa skal ákvarðaða endurgreiðslu til tekna og efnahags- og rekstrarreikningur endanlega færður upp. Að því loknu og þegar félaginu hefur verið slitið greiðir ríkisféhirðir stjórnarformanni félagsins ákvarðaða endurgreiðslu að teknu tilliti til áfallinna skuldbindinga.

8. gr.

Endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari skal færð sem tekjur í bókhaldi félagsins en ekki koma til lækkunar á gjaldfærðum kostnaði.

9. gr.

Gildistökuákvæði.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 8. gr. laga nr. 43/1999 og öðlast þegar gildi.

Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari og lögum nr. 43/1999 gilda ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög.

Iðnaðarráðuneytinu, 25. maí 1999.

Finnur Ingólfsson.

Þórður Friðjónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica