Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

269/1993

Reglugerð um sérstaka skráningu bifreiða til notkunar um stundarsakir hér á landi.

1. gr.

Heimilt er að skrá samkvæmt reglum þessum bifreiðir sem inn eru fluttar án greiðslu aðflutningsgjalda/vörugjalds, enda hafi tollyfirvald heimilað þá skráningu, sbr. 7. gr.

Heimild þessi tekur aðeins til ónotaðra bifreiða sem keyptar eru hér á landi og hafa eigi verið skráðar áður hérlendis eða erlendis.

Reglur þessar ná eigi til bifreiða þeirra sem úrlendisréttar njóta.

2. gr.

Rétt til að fá bifreið skráða samkvæmt reglum þessum hefur sá maður sem staddur er hér á landi en hefur haft fasta búsetu erlendis a.m.k. næstliðið eitt ár og ekki jafnframt átt lögheimili hér á landi. Skráning er háð því að eigandi bifreiðarinnar skuldbindi sig til að hlíta eftirtöldum almennum skilyrðum:

a. að hann aki bifreiðinni sjálfur, maki hans eða launaðir starfsmenn hans,

b. að bifreiðin verði ekki lánuð, leigð eða notuð til flutninga gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi,

c. að hann flytji bifreiðina til útlanda þegar hann fer af landi brott, og

d. að hann hlíti þeim nánari reglum sem settar kunna að verða um bifreiðir þessar og eftirlit með þeim.

3. gr.

Skráningartími er einn mánuður. Heimilt er þó að ákveða lengri skráningartíma bifreiðar, eða framlengja hann um allt að þrjá mánuði í senn, þannig að skráningartíminn verði allt að tólf mánuðum alls, enda færi hinn skráði eigandi sönnur á að hann fullnægi eftirtöldum frekari skilyrðum:

a. að hann hafi hvorki launaða atvinnu hér á landi né reki hér atvinnufyrirtæki,

b. að hann hafi ekki tekið sér búsetu hér á landi, og

c. að hann hafi ekki flutt búslóð sína hingað til lands.

Nú eru framangreind skilyrði ekki fyrir hendi og er þá í undantekningartilvikum heimilt að framlengja skráningartíma um þrjá mánuði í senn, þannig að skráningartíminn verði allt að tólf mánuðum alls.

4. gr.

Nú eru skilyrði fyrir skráningu bifreiðar samkvæmt 2. gr. eða framlengingu skráningar samkvæmt 3. gr. rofin eða forsendur skráningar niður fallnar og skal lögreglustjóri þegar í stað taka bifreiðina úr notkun.

5. gr.

Þegar gildistíma skráningar lýkur er notkun bifreiðar óheimil hér á landi, enda hafi venjuleg skráning ekki farið fram.

Nú hefur bifreið ekki verið flutt úr landi fyrir lok gildistíma skráningar og skal hún þá tekin úr notkun.

6. gr.

Nú er bifreið flutt úr landi og er þá heimilt að framlengja gildistíma skráningar, þannig að skráningartíminn verði allt að tólf mánuðum alls.

7. gr.

Bifreiðaskoðun Íslands hf. annast skráningu og framlengingu skráningartíma bifreiða samkvæmt reglum þessum og heldur skrá um þær. Áður en skráning eða framlenging skráningar fer fram skal liggja fyrir yfirlýsing tollyfirvalds um að skilyrði skráningar eða framlengingar, sbr. 2. og 3. gr., séu fyrir hendi.

8. gr.

Á bifreið sem skráð er samkvæmt reglum þessu skulu vera tvö skráningarmerki, að framan og að aftan, 400 x 120 mm að stærð. Skráningarmerkin skulu vera með fjórum hvítum tölustöfum (0001- 9999), 90 mm á hæð, á svörtum grunni. Á hvorri hlið skráningarmerkis skal vera 45 mm lóðrétt rauð rönd. Vinstra megin skal skrá með hvítum tölustöfum röð þess mánaðar og hægra megin tvo síðustu tölustafi þess árs þegar gildistíma skráningar lýkur.

Þegar gildistíma skráningar lýkur skal afhenda Bifreiðaskoðun skráningarmerkin án endurgjalds.

Auk skráningarmerkis skal bifreið búin íslensku þjóðernismerki (ÍS).

9. gr.

Í skráningarskírteini skal tilgreina hvenær gildistíma skráningar lýkur.

10. gr.

Ákvæði reglna þessara gilda með sama hætti um bifhjól. Skráningarmerki skal vera að aftan. Það skal vera 240 x 130 mm að stærð, tölustafir í tveimur röðum og stafahæð 49 mm.

11. gr.

Um skráningu ökutækja samkvæmt reglum þessum gilda að öðru leyti, eftir því sem við á, almenn ákvæði um skráningu ökutækja.

12. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 64. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, og 7. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55 30. mars 1987, öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi reglur um sérstaka skráningu bifreiða til notkunar um stundarsakir hér á landi, nr. 246 5. júní 1975, sbr. reglugerð nr. 453 31. desember 1976.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1. júlí 1993.

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica