Iðnaðarráðuneyti

261/2003

Reglugerð fyrir Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs.

1. gr.

Hitaveita Öxarfjarðarhéraðs hf. er einkafélag í eigu Öxarfjarðarhrepps, Kelduneshrepps, einstaklinga og annarra aðila. Félagið hefur sjálfstæðan fjárhag.


2. gr.

Starfssvæði Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs er byggð í Öxarfirði frá Kópaskeri í norðri og suður fyrir skólahverfið í Lundi og Skinnastað að undanskildum eftirtöldum lögbýlum sem eru utan starfssvæðis hitaveitunnar: Efri-Hólar, Þverá, Sandfellshagi 1 og 2, Leifsstaðir, Gilhagi 1 og 2, Gilsbakki, Hafrafellstunga 1 og 2, Kinn, Smjörhóll, Bjarnastaðir, Austara-Land, Sigtún, Vestara-Land 1, 2 og 3, Vestara-Land 4 (Birkiland), Skógar og Skógar 1, 2 og 3.


3. gr.

Hlutverk Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs hf. er að afla, flytja og dreifa heitu vatni á starfssvæði sínu, samkvæmt gjaldskrá sem stjórn hennar setur að höfðu samráði við sveitarstjórn og iðnaðarráðherra staðfestir.


4. gr.

Hitaveita Öxarfjarðarhéraðs hefur einkaleyfi til dreifingar og sölu á heitu vatni á starfssvæði sínu skv. 2. gr., að fengnu framsali einkaleyfis frá Öxarfjarðarhreppi.


5. gr.

Öllu hitaveituvatni skal varmaskipt nema sérstaklega sé um annað samið og ákveður hitaveitan staðalbúnað í tengigrindur. Sá búnaður svo og öll hönnun lagna, ofnakerfa og annars búnaðar skal við það miðuð að frárennslishiti vatnsins sé ekki hærri en 30°C.


6. gr.

Afrennslisvatn er eign kaupanda og er honum heimilt að nýta það að eigin ósk svo fremi að ekki valdi skaða á frárennslislögnum eða öðru tjóni. Úrtak í heitan pott eða til að frostverja snjóbræðslukerfi skal vera milli hemils/mælis og varmaskiptis. Einstefnuloki skal vera á úrtakinu og skal honum skipt út eftir því sem hitaveitan telur þörf á. Til þess að minnka hættu á tæringu og slysum skal hiti á neysluvatni ekki vera hærri en 60°C og stýrast af til þess hæfum loka.


7. gr.

Áður en hús tengist hitaveitunni skal umsókn um tengingu vera undirrituð af húseiganda. Þar skal koma fram stærð hússins, væntanleg orkuþörf, óskir um sérbúnað eða sérsamninga og nafn verktaka sem setur tengigrindina upp.


8. gr.

Eftir tengingu húss við hitaveituna telst tengigrind frá inntaksloka vera eign húseiganda og á ábyrgð hans. Hann skal annast viðhald og umhirðu á öllum hlutum hennar nema hemli og/eða mæli. Starfsmenn hitaveitu skulu ávallt hafa greiðan aðgang að tengigrind til eftirlits og álestrar. Niðurfall eða afrennsli skal vera við inntak hitaveitu.


9. gr.

Áður en sala orku til húseiganda hefst, skulu hitaveitan og húseigandi gera með sér skriflegan orkusölusamning þar sem fram koma réttindi og skyldur beggja aðila.


10. gr.

Þar sem tilefni er til eða samningar gerðir um sérbúnað í tengigrindum eða sérstakir orkusölusamningar gerðir skulu þeir vera skriflegir, undirritaðir af báðum aðilum og skal mynd af tengibúnaði fylgja.


11. gr.

Hitaveitan skal leitast við að tryggja jöfnuð notenda með því að auka rennsli til þeirra sem eru á enda langra heimtauga. Að fenginni reynslu af rekstrinum skal gera skriflega samninga um þetta atriði. Meðalhiti á vatni á Kópaskeri skal hafður til viðmiðunar.


12. gr.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna rekstrartruflana er verða á hitaveitunni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda hitaveitunnar.


13. gr.

Endursala á heitu vatni er óheimil án samþykkis hitaveitunnar.


14. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.


15. gr.

Reglugerð þessi, sem samþykkt er af sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps, er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967 til að öðlast gildi þegar í stað og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Iðnaðarráðuneytinu, 24. mars 2003.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica