Iðnaðarráðuneyti

260/2003

Reglugerð um upplýsingaskyldu seljenda nýrra fólksbifreiða varðandi eldsneytisnotkun og losun koldíoxíðs.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um upplýsingagjöf um eldsneytisnotkun og losun á koldíoxíði við markaðssetningu á nýjum fólksbifreiðum.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Kynningarrit: Allt prentað efni sem er notað við markaðssetningu, í auglýsingar og kynningu á ökutækjum og sem er beint til almennings, s.s. tæknihandbækur, kynningarrit, auglýsingar í dagblöðum, tímaritum og fagtímaritum, ásamt veggspjöldum.

Ný fólksbifreið: Bifreið sem aðallega er ætluð til fólksflutninga og gerð er fyrir 8 farþega eða færri (M1) og hefur ekki áður verið skráð á Íslandi eða erlendis.

Sölustaður: Staður, t.d. bifreiðasýningasalur eða svæði utan dyra, þar sem nýjar fólksbifreiðar eru hafðar til sýnis eða boðnar væntanlegum viðskiptavinum til sölu eða leigu. Þetta tekur til kaupstefna þar sem nýjar fólksbifreiðar eru sýndar almenningi.


3. gr.
Skyldur seljenda og framleiðenda.

Hver sá sem bíður til sölu eða leigu nýjar fólksbifreiðar á sölustað skal festa upplýsingamiða skv. 4. gr. við hverja bifreið eða koma slíkum miða fyrir í grennd við hana.

Hver sá sem bíður til sölu nýjar fólksbifreiðar á sölustað skal koma fyrir veggspjöldum eða sjónvarpsskjám skv. 5. gr. á áberandi stað fyrir hverja tegund nýrra fólksbifreiða.

Hver sá sem bíður til sölu nýjar fólksbifreiðar á sölustað skal án endurgjalds afhenda þeim sem um biður yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs skv. 7. gr.

Framleiðandi eða umboðsmaður hans skal veita söluaðilum nauðsynlegar upplýsingar til að þeir geti uppfyllt skyldur sínar skv. reglugerðinni.


4. gr.
Upplýsingamiði.

Miða með upplýsingum um eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs skal komið fyrir á eða í grennd við hverja nýja fólksbifreið á sölustað.

Upplýsingamiðinn skal vera 297 mm x 210 mm að stærð (A4), og á honum skal eftirfarandi koma fram, sbr. 3. gr. og viðauka I í tilskipun 1999/94/EB:

1. tilvísun til undirtegundar og eldsneytistegundar fólksbifreiðar sem þeir eru festir við;
2. innihalda talnagildi tiltekinnar losunar koldíoxíðs í grömmum á hvern kílómetra (g/km) námunduð við næstu heilu tölu og talnagildi opinberrar eldsneytiseyðslu í lítrum á 100 kílómetra með einum aukastaf;
3. innihalda eftirfarandi texta um möguleika á að fá afhent yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs: ,,Yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs með upplýsingum um allar nýjar tegundir fólksbifreiða fæst án endurgjalds á öllum sölustöðum." og ,,Auk eldsneytisnýtni bifreiðar hafa aksturslag og aðrir þættir almenns eðlis áhrif á eldsneytiseyðslu bifreiðar og losun koldíoxíðs frá henni. Koldíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem stuðlar einna helst að hnattrænni hlýnun."

Eldsneytiseyðsla og losun koldíoxíðs skal ákvörðuð í samræmi við tilskipun 80/1268/EB, sbr. gr. 18.11 (3) í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 915/2000.

Aðrar merkingar, tákn eða áletranir í tengslum við eldsneytiseyðslu eða losun koldíoxíðs á upplýsingamiðum sem samræmast ekki ákvæðum greinarinnar og hætta er á að villi um fyrir hugsanlegum kaupendum nýrra fólksbifreiða eru bannaðar.


5. gr.
Veggspjald.

Fyrir hverja bifreiðategund sem er sýnd eða boðin til sölu á sölustað eða í umboði sölustaðar skal komið fyrir veggspjöldum eða sjónvarpsskjá með lista yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs allra nýrra fólksbifreiða.

Veggspjaldið skal vera 70 cm x 50 cm að stærð og skal a.m.k. innihalda eftirfarandi, sbr. 4. gr. og III. viðauka tilskipunar 1999/94/EB:

1. flokkun undirtegunda eftir eldsneytistegund. Undir hverri eldsneytistegund eru undirtegundir flokkaðar eftir aukinni losun koldíoxíðs og er sú undirtegund sem hefur lægstu eldsneytiseyðslu höfð efst á listanum;
2. fyrir hverja undirtegund skal tilgreina talnagildi eldsneytiseyðslu og losunar koldíoxíðs, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar;
3. innihalda eftirfarandi texta: ,,Yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs með upplýsingum um allar nýjar tegundir fólksbifreiða fæst án endurgjalds á öllum sölustöðum." og ,,Auk eldsneytisnýtni bifreiðar hafa aksturlag og aðrir þættir almenns eðlis áhrif á eldsneytiseyðslu bifreiðar og losun koldíoxíðs frá henni. Koldíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem stuðlar einna helst að hnattrænni hlýnun."

Veggspjaldið skal uppfært a.m.k. á sex mánaða fresti. Milli tveggja uppfærslna skal nýjum bifreiðum bætt neðst á listann.

Veggspjaldinu skal komið fyrir á áberandi stað. Aðrar merkingar, tákn eða áletranir í tengslum við eldsneytiseyðslu eða losun koldíoxíðs á veggspjöldum sem samræmast ekki ákvæðum greinarinnar og hætta er á að villi um fyrir hugsanlegum kaupendum nýrra fólksbifreiða eru bannaðar.


6. gr.
Kynningarrit.

Í öllum kynningarritum sem notuð eru við markaðssetningu á nýjum fólksbifreiðum skulu koma upplýsingar um eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs frá þeirri fólksbifreið sem vísað er til.

Upplýsingarnar skulu vera auðlesnar, auðskildar og jafnáberandi og megnið af upplýsingunum í kynningarritinu.

Í kynningarritum skal veita upplýsingar um eldsneytiseyðslu allra undirtegunda bifreiða sem kynningarefnið nær yfir. Ef fleiri en ein undirtegund er tilgreind eru annaðhvort veittar upplýsingar um eldsneytiseyðslu allra undirtegunda sem eru tilgreindar eða gefinn upp mismunurinn á mestu og minnstu eldsneytiseyðslu. Eldsneytiseyðslan skal gefin upp í lítrum á hverja 100 kílómetra (l/100 km) með einum aukastaf.

Ef kynningarrit á einungis við um tegund, en ekki neina sérstaka undirtegund, er ekki þörf fyrir upplýsingar um eldsneytiseyðslu.

Aðrar merkingar, tákn eða áletranir í tengslum við eldsneytiseyðslu eða losun koldíoxíðs í kynningarritum sem samræmast ekki ákvæðum greinarinnar og hætta er á að villi um fyrir hugsanlegum kaupendum nýrra fólksbifreiða eru bannaðar.


7. gr.
Yfirlit yfir eldsneytisnotkun og losun koldíoxíðs.

Umferðarstofa skal, í samráði við framleiðendur eða umboðsmenn þeirra, að minnsta kosti ár hvert taka saman yfirlit yfir eldsneytisnotkun nýrra fólksbifreiða og losun þeirra á koldíoxíði, sbr. 4. gr. og II. viðauka tilskipunar 1999/94. Yfirlitið skal vera handhægt, fyrirferðarlítið og neytendur eiga að geta fengið það í hendur samkvæmt beiðni og án endurgjalds, bæði hjá Umferðarstofu og á sölustöðum nýrra fólksbifreiða.

Yfirlitið skal að lágmarki innihalda eftirfarandi upplýsingar, sbr. 4. gr. og II. viðauka tilskipunar 1999/94/EB:

1. skrá yfir allar nýjar fólksbifreiðar, sem eru boðnar til sölu á Íslandi ár hvert, flokkaðar eftir tegundum í stafrófsröð. Ef yfirlitið er uppfært oftar en einu sinni á ári skal það innihalda skrá yfir allar nýjar tegundir fólksbifreiða sem eru til á þeim degi sem uppfærða yfirlitið er birt;
2. eldsneytistegund, fyrir hverja nýja undirtegund sem er birt í yfirlitinu, ásamt talnagildi eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs í samræmi við 4. gr.;
3. skrá yfir 10 nýjar tegundir fólksbifreiða sem nýta best eldsneyti, flokkaðar eftir aukningu tiltekinnar losunar koldíoxíðs fyrir hverja eldsneytisgerð. Í skránni skal koma fram undirtegund, talnagildi opinberrar eldsneytiseyðslu og opinberrar tiltekinnar losunar koldíoxíðs;
4. leiðbeiningar til ökumanna um að rétt notkun og reglubundið viðhald ökutækis ásamt aksturslagi, til dæmis að forðast glannaskap, draga úr ökuhraða, vera við því búinn að hemla í tæka tíð, hafa hæfilegt loft í hjólbörðum, takmarka hægagang, forðast að aka með umframþyngd, dragi úr eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs frá fólksbifreiðum þeirra;
5. skýringu á áhrifum af losun gróðurhúsalofttegunda, mögulegum veðurfarsbreytingum og hlutverki fólksbifreiða í því samhengi, auk upplýsinga um eldsneytistegundir, sem neytendum standa til boða, og hvaða afleiðingar þær hafa fyrir umhverfið í ljósi nýjustu vísindarannsókna og lagaákvæða;
6. tilvísun sem varðar markmiðssetningu evrópska efnahagssvæðisins um meðallosun koldíoxíðs frá nýjum fólksbifreiðum og dagsetningu sem gefur til kynna hvenær markmiðinu skuli náð;
7. tilvísun í yfirlit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á netinu yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs sé það fyrir hendi.

Aðrar merkingar, tákn eða áletranir í tengslum við eldsneytiseyðslu eða losun koldíoxíðs á yfirliti, sem samræmast ekki ákvæðum greinarinnar og hætta er á að villi um fyrir hugsanlegum kaupendum nýrra fólksbifreiða eru bannaðar.


8. gr.
Aðlögunartími.

Kynningarrit sem ekki eru í samræmi við 6. gr. og sem prentuð eru fyrir gildistöku reglugerðar þessarar má nota í 6 mánuði frá gildistökunni. Þá má nota slík kynningarrit í 9 mánuði frá gildistöku reglugerðar þessarar ef jafnframt eru lagðar fram upplýsingar í samræmi við 6. gr.


9. gr.
Lagastoð, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. og með hliðsjón af tilskipun 1999/94/EB. Reglugerðin öðlast þegar gildi.


Iðnaðarráðuneytinu, 8. apríl 2003.

F. h. r.
Kristján Skarphéðinsson.
Helgi Bjarnason.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica