Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

246/2002

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 218/2002 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. - Brottfallin

246/2002

REGLUGERÐ
um (1.) breytingu á reglugerð nr. 218/2002 um hlutdeild sjúkratryggðra
í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

1. gr.

9. gr. orðast svo:

9. gr.
Greiðslur fyrir læknisvottorð.

Fyrir læknisvottorð á eyðublöðum Tryggingastofnunar ríkisins vegna almannatrygginga eða bóta félagslegrar aðstoðar skulu sjúkratryggðir greiða sem hér segir:

a. Ekkert gjald fyrir örorkuvottorð vegna lífeyristrygginga (A og B), örorkuvottorð vegna slysatrygginga (A), vottorð vegna fjárhagslegrar aðstoðar við fötluð og sjúk börn eða vottorð vegna endurhæfingarlífeyris.
b. Kr. 350 fyrir framhaldsvottorð vegna slysatrygginga.
c. Kr. 700 fyrir læknisvottorð vegna slysatrygginga (áverkavottorð), vegna beiðni um þjálfun, vegna öflunar hjálpartækja, vegna lengingar fæðingarorlofs, vegna hreyfihömlunar (bensínstyrkur), vegna heimahjúkrunar, vegna umsóknar um lyfjaskírteini, vegna vistunar sjúklings erlendis (siglinganefnd), sjúkradagpeningavottorð eða skýrslu vegna ferðakostnaðar innanlands.
d. Kr. 800 fyrir læknisvottorð vegna umsóknar um styrk til kaupa á bifreið fyrir fatlaða.

Fyrir önnur læknisvottorð en tilgreind eru í 1. mgr. skal innheimta gjöld sem hér segir:

a. Kr. 700 fyrir vottorð um fjarvistir nemenda úr skólum og vegna sjúkranudds.
b Kr. 1.200 fyrir vottorð um fjarvistir til atvinnurekenda, ónæmisaðgerðir og alþjóðaónæmisskírteini, heilsufar nemenda til skóla, leikskóla og sumarbúða, undanþágu til bílbeltanotkunar og vegna veitingar ökuleyfis og dagmóðurstarfa.
c. Kr. 1.700 fyrir vottorð vegna bóta úr slysa- og sjúkrasjóðum (framhaldsvottorð), andláts (dánarvottorð), umsókna um félagslegar íbúðir, fóstureyðingar, ófrjósemisaðgerðar og til skattyfirvalda.
d. Kr. 2.500 fyrir vottorð vegna bóta úr slysa- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga (frumvottorð), byssuleyfis, dvalar, starfa eða skóla erlendis, sjálfræðissviptingar og um heilsufar eða vinnufærni vegna umhverfis eða atvinnu, þ.m.t. vegna atvinnuréttinda.
e. Fyrir vottorð til lögmanna og tryggingafélaga vegna sjúkdóma eða slysa, tryggingafélaga og lífeyrissjóða vegna líftrygginga eða umsókna um örorkubætur (frumvottorð), lögreglu, sýslumanna og vegna dvalar- og/eða atvinnuleyfa hér á landi skal miða við hversu langan tíma það tekur lækni að gera vottorðið og skal greiða kr. 2.500 fyrir hverjar byrjaðar 20 mínútur.

Gjöld fyrir vottorð skv. 1. og 2. mgr. skulu renna til heilbrigðisstofnunar.


2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 36. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 20. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 22. mars 2002.

Jón Kristjánsson.
Ragnheiður Haraldsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica