Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

546/1995

Reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. - Brottfallin

Reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum.

1. gr.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja að þjónusta við aldraða í þjónustu- og hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum og sjúkrahúsum sé sambærileg og í samræmi við 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra. Til að ná því markmiði skal árlega meta heilsufar og aðbúnað einstaklinga sem dveljast á stofnunum sem falla undir 18. gr. laganna. Matið skal byggt á RAI-mælingum (raunverulegum aðbúnaði íbúa).

RAI-mælingar eru byggðar á:

  1. Gagnasafni um heilsufar og hjúkrunarþörf á öldrunarstofnun (sbr. MDS-Minimum Data Set).
  2. Matslyklum (RAPS-Resident Asessment Protocol).
  3. Álagsflokkunarkerfi (RUGs III-Resource Utilizations Groups).

2. gr.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar sérstaka nefnd, RAI-matsnefndina, sem skal hafa umsjón með RAI-mati og annast kennslu og þjálfun í notkun RAI-mælitækisins á öldrunarstofnunum. Í nefndinni skulu eiga sæti öldrunarlæknir, félagsráðgjafi, þrír hjúkrunarfræðingar og fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis sem jafnframt er formaður.

3. gr.

Hjúkrunarfræðingur annast, í samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir, RAI-mat á hverri öldrunarstofnun að undangenginni þjálfun.

Markmið með matinu eru:

·  Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð hins aldraða.

·  Að afla upplýsinga um þarfir og umönnun hins aldraða.

·  Að afla samræmdra upplýsinga um þarfir öldrunarstofnana sem reglugerð þessi tekur til.

·  Að tryggja hámarks gæði þjónustu og sem besta nýtingu fjármagns.

4. gr.

RAI-mat skal fara fram við upphaf dvalar einstaklings á öldunarstofnun og reglulega eftir það eftir nánari ákvörðun RAI-nefndarinnar, þó ekki sjaldnar en árlega.

Niðurstöður RAI-nefndarinnar skulu sendar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti þar sem þær skulu varðveittar á tölvutæku formi.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 30. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, öðlast gildi 1. janúar 1996.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 13. október 1995.
Ingibjörg Pálmadóttir.
Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica