Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

238/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna nr. 148 1. mars 2000.

1. gr.

2. mgr. 5. gr. orðist svo:

Hver hlutamiði ber áprentað númer frá 1-80.000, bókstaf flokkaraðar, flokksnúmer frá 1-12, verð miðans, síðasta söludag, dráttardaga og innlausnarfrest vinninga. Á miðann skal prenta eiginhandarundirskrift forstjóra happdrættisins og á honum skal vera undirskrift og eiginhandarstimpill söluumboðsmanns. Draga skal vikulega og eigi sjaldnar en fjórum sinnum í mánuði í hverjum flokki.

2. gr.

7. gr. orðist svo:

Verð hlutamiða í hvorri flokkaröð skal vera 9.600 kr. ef keyptur er miði sem gildir í öllum 12 flokkum happdrættisársins sem er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert.

Verð miða fyrir hvern flokk er 800 kr.

Sé óskað eftir að kaupa hlutamiða eftir að dregið hefur verið í fyrsta flokki happ-drættisins eða síðar skal greiða fyrir hann, auk andvirðis þess flokks sem næst á að draga í, samanlagt verð hlutamiðans í öllum þeim flokkum sem dregið hefur verið í á árinu.

3. gr.

9. gr. orðist svo:

Um vinninga skal dregið á fimmtudögum. Beri fyrsta fimmtudag í mánuði upp á ein-hvern fyrstu þriggja daga mánaðarins gildir hlutamiði mánaðarins á undan í þeim útdrætti. Beri fimmtudag upp á almennan frídag er heimilt að draga næsta virkan dag á undan eða eftir.

Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar greinar ef því þykir ástæða til.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nr. 16 13. apríl 1973, sbr. lög nr. 53 25. maí 1976, lög nr. 24 26. mars 1987 og lög nr. 21 17. apríl 1997, um breyting á þeim lögum, öðlast gildi 20. apríl 2000.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 31. mars 2000.

Sólveig Pétursdóttir.

Björn Friðfinnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica