Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

83/1991

Reglugerð um greiðslur fyrir sjúkratryggða vegna lýtalækninga - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslur fyrir sjúkratryggða vegna lýtalækninga.

1. gr.

Sjúkratryggingar greiða kostnað samkvæmt almannatryggingalögum vegna lýtaskurðlækninga, annarra en fegrunarskurðlækninga, innan og utan sjúkrahúsa. Með lýtalækningum er átt við:

a) skurðaðgerðir til að nema brott útvortis æxli, góð- og illkynja

b) meðferð hverskonar sára, þ.á m. brunasára

c) lagfæringar eða nýgerð líkamshluta eftir áverka eða skurðaðgerðir

d) aðgerðir á meðfæddum lýtum, s.s. skörðum og hverskonar öðrum lýtum í andliti og á höfði, og nýgerð vegna meðfæddrar vöntunar á útlimum

e) bráðar aðgerðir eftir slys, sérlega í andliti eða á útlimum

f) aðgerðir vegna sjúkdóma á yfirborði líkamans, annarra en æxla, sem lýtum valda

g) smásjárskurðlækningar til vefjaflutnings

h) vefjaþenslu.

2. gr.

Sjúkratryggingar greiða ekki fyrir fegrunarskurðlækningar, hvorki innan eða utan sjúkrahúss, nema í undantekningartilvikum (sjá 3. gr.).

Til fegrunarskurðaðgerða teljast:

a) strekking á andlitshúð, s.k. andlitslyfting

b) lagfæringar á augnlokum vegna húðfellinga eða augnpoka

c) brjóstastækkun

d) brjóstalyfting í fegrunarskini

e) hárflutningur eða hárígræðsla vegna skalla

f) fitusogun, nema til að tæma fituæxli

g) efnaesting til að slétta hrukkur

h) strekking á magahúð í fegrunarskini

i) aðgerðir á andlitsbeinum til að lagfæra minniháttar útlitsafbrigði

j) aðgerðir til að lagfæra minniháttar útlitsafbrigði á nefi

k) aðgerðir á útstæðum eyrum eftir 16 ára aldur.

3. gr.

Heimilt er í undantekningartilvikum að greiða fyrir fegrunarskurðaðgerðir. Umsóknir skulu studdar vottorðum sérfræðinga. Eigi að framkvæma aðgerð utan sjúkrahúss, skal senda umsókn til tryggingayfirlæknis, sem leggur hana til ákvörðunar fyrir nefnd sem ráðherra skipar. Á sjúkrahúsi skal yfirlæknir ásamt viðkomandi sérfræðingi meta þörfina fyrir slíka aðgerð.

4. gr.

Þó fegrunarskurðaðgerðir séu undanþegnar greiðslum frá almannatryggingum, gildir sama um þær og aðrar lækningar, að öðrum en þeim, sem hafa tilskilin réttindi og menntun er óheimilt að framkvæma þær.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 81. gr. sbr. 41. og b. staflið 1. mgr. 43. gr. laga um almannatryggingar nr. 67/1971 með síðari breytingum og öðlast gildi 1. mars 1991.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 22. febrúar 1991.

Guðmundur Bjarnason.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica