Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

25/1955

Reglugerð um Gæsluvistarhælið að Gunnarsholti - Brottfallin

R E G L U G E R Ð

fyrir Gæzluvistarhælið að Gunnarsholti.

1. gr.

Nafn stofnunarinnar er Gæzluhælið að Gunnarsholti.

2. gr.

Tilgangur stofnunarinnar er að taka til vista og gæzlu ofdrykkjumenn, er lokið hafa dvöl á Kleppsspítala eða á væntanlegu drykkjumannahæli, og sjá þeim fyrir góðri aðbúð og hollum athöfnum þeim til styrktar, á meðan þeir eru að breyta um viðhorf til áfengisneyzlu.

3. gr.

Tekjur stofnunarinnar verða: Daggjöld vistmanna, annar væntanlegur ágóði af rekstri, styrkir frá gæzluvistarsjóði og fleirum, gjafir, áheit og annað, er til fellur.

4. gr.

Ráðsmaður hefur á hendi daglega stjórn og rekstur stofnunarinnar í samráði við lækni hennar um allt, er varðar aðbúnað vistmanna og skipti við þá.

Stjórnarnefnd Ríkisspítalanna annast fjárreiður og reikningshald stofnunarinnar.

5. gr.

Stofnunin gerir sér far um að sjá vistmönnum fyrir starfi við hvers eins hæfi, og er til þess ætlazt, að þeir vinni minnst þrjár stundir hvern virkan dag. Laun þeirra skulu ákveðin kr. 10.00 á klukkustund fyrstu þrjá mánuði vistartímans, kr. 11.00 næstu þrjá og kr. 12.00 upp frá því. Þ:riggja stunda vinnulaun ganga upp í hluta sjúklings í greiðslu daggjalda. Læknir stofnunarinnar ákveður, hver starfi hæfir vistamanni og hve margar stundir hann skuli vinna á degi hverjum.

6. gr.

Sérhver vistmaður er skyldur að hegða sér vel og hlíta í hvívetna heimilireglum stofnunarinnar. Vistmenn mega ekki fara frá hælinu nema í fylgd með ráðsmanni eða starfsmönnum stofnunarinnar samkvæmt fyrirmælum ráðsmanns. Aldrei mega vistmenn sækja dansleiki eða aðrar skemmtanir, þar sem ætla má að vín verði haft um hönd.

Læknir stofnunarinnar getur veitt þeim vistmönnum, sem dvalizt hafa þrjá mánuði eða lengur á hælinu, fjarvistarleyfi í 2 - 3 daga í senn, enda telji hann að treysta megi þeim til að fara vel með slík leyfi.

Allir vistmenn skulu vera viðstaddir til viðtals við lækni stofnunarinnar, þegar hann kemur á staðinn.

7. gr.

Nú veikist vistmaður af langvinnum sjúkdómi eða reynist af öðrum ástæðum ekki fær um að stunda minnst þriggja klukkustunda vinnu á dag, og skal þá leitazt við að koma honum á aðra viðeigandi heilbrigðisstofnun til lækninga, svo fremi ekki reynist unnt að ráða bót á sjúkdóminum á staðnum að dómi læknis stofnunarinnar. Slíkur sjúklingur á síðar að fengnum bata og vinnuhæfni forgangsrétt að vist á hælinu að nýju.

8. gr.

Tímalengd hælisvistarinnar fer eftir úrskurði læknis stofnunarinnar innan þeirra marka, sem leiðir af ákvæðum 10. gr. laga 55/1949, en gert er ráð fyrir minnst hálfs til eins árs dvöl. Skulu vistmenn brottskráðir til reynslu í hálft ár áður en þeir verða að fullu brottskráðir.

Byrji vistmaður að neyta áfengis að nýju, gefst honum að jafnaði kostur á vist aftur.

Áfengisvarnaráð skipar ármenn (social Workers) fyrir hælið eftir þörfum, og skulu þeir starfa fyrir og aðstoða vistmenn innan heimilis og utan. Áður en vistmaður er brottskráður til reynslu, skal hælið eða ármenn þess ávallt leitast við að útvega honum starf og dvalarstað, er telja má vera við hans hæfi, ef hann hverfur ekki að ákveðnu heimili og atvinnugrein.

9. gr.

Reglugerð þess, sem sett er samkvæmt lögum nr. 55 25. maí 1949, sbr. lög nr. 91 29. des. 1953, um breyting á þeim lögum, öðlast þegar gildi.

Í heilbrigðismálaráðuneytinu, 17. febrúar 1955.

Ingólfur Jónsson.

_______________

Gústav A. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica