Umhverfisráðuneyti

229/1993

Reglugerð um Náttúrufræðistofnun Íslands.

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi fjallar um Náttúrufræðistofnun Íslands, hlutverk hennar og verkefni, skipulag setra, hlutverk og verksvið stjórnar, forstjóra, forstöðumanna og annarra starfsmanna. Ráðherra umhverfismála fer með þau málefni sem reglugerðin tekur til.

Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands.

2. gr.

Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins. Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:

a. Að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands.

b. Að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn í vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru.

c. Að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m. a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda.

d. Að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings.

e. Að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna.

f. Að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla í samvinnu við embætti veiðistjóra.

g. Að sjá um fuglamerkingar og hefur Náttúrufræðistofnun ein heimild til að láta merkja villta fugla á Islandi.

h. Að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum og lýsa meginþáttum í starfsemi stofnunarinnar í árlegri skýrslu.

Stofnunin getur tekið að sér tímabundin umhverfisverkefni fyrir sveitarstjórnir, stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga, sbr. e-lið, gegn sérstakri greiðslu enda verði þess gætt að slík starfsemi raski ekki um of meginstarfi hennar samkvæmt. 1. mgr.

Skipulag setra.

3. gr.

Setur Náttúrufræðistofnunar skulu ekki vera deildaskipt, en stuðlað skal að eðlilegri fagskiptingu innan hvers seturs í dýrafræði-, grasafræði- og jarðfræðisvið, m.a. með starfslýsingum.

Í starfslýsingum skal m. a. kveða á um ábyrgð einstakra starfsmanna, verkefni þeirra og umsjónarskyldu.

Jafnframt skal þess þó gætt að verkaskipting sé milli setra og skal skilgreina hana í skipuriti stofnunarinnar.

Hlutverk stjórnar.

4. gr.

Umhverfisráðherra skipar Náttúrufræðistofnun Íslands stjórn til fjögurra ára í senn og fer hún með yfirstjórn stofnunarinnar.

Stjórnin fer yfir fjárlagatillögur ásamt forstjóra, að fengnum tillögum forstöðumanna setra, og gerir tillögur til ráðherra um fjárveitingar og skiptingu fjár.

Stjórnin fjallar um og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir til eins árs og til næstu þriggja ára í upphafi hvers árs og fylgist með að þeim sé framfylgt.

Stjórnin markar almenna rannsóknarstefnu til lengri tíma, fer yfir verkefnaáætlanir og samræmir rannsóknir innan stofnunarinnar.

Stjórnin tryggir tengsl við náttúrustofur, gætir samráðs við stofnanir og stuðlar að sem bestu samstarfi við aðrar rannsóknarstofnanir innanlands sem utan.

5. gr.

Stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands heldur að jafnaði 4-6 fundi á ári. Stjórnin boðar árlega til fundar með starfsmönnum stofnunarinnar og forstöðumönnum náttúrustofa, þar sem starfsemin er samræmd og greint frá niðurstöðum rannsókna. Greina skal frá starfsemi einstakra fagsviða á þessum fundum, kynna niðurstöður rannsókna, leggja drög að rannsóknarstefnu til framtíðar og samræma rannsóknarstarfsemi setra. Samráðsfundi þessa skal einnig nota til að koma á framfæri tillögum til úrbóta er varða starfsemi stofnunarinnar og einstakra setra.

6. gr.

Áætla skal sérstaklega kostnað fyrir ár hvert vegna starfa stjórnar og forstjóra og skal sá kostnaður borinn af skrifstofu forstjóra.

Hlutverk og starfsskyldur forstjóra.

7. gr.

Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar.

Forstjóri situr stjórnarfundi án atkvæðisréttar. Hann starfar í umboði stjórnar og er í senn framkvæmdastjóri hennar og Náttúrufræðistofnunar í heild. Forstjóri kemur fram út á við fyrir hönd stofnunarinnar í heild, annast samhæfingu milli setra og léttir stjórnunarstörfum af forstöðumönnum þeirra.

Forstjóri hefur eftirlit með fjárhagi setra og ráðstöfun fjár fyrir hönd stjórnar. Hann sér um fjármálaleg samskipti við ráðuneyti, hefur umsjón með ráðningarsamningum og gerir rekstraráætlanir í samráði við forstöðumenn og fylgist með að eftir þeim sé farið. Forstjóri hefur einnig umsjón með samningagerð vegna stærri umhverfisverkefna sem stofnunin tekur að sér gegn sérstakri greiðslu.

8. gr.

Forstjóri vinnur ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar í samráði við stjórn og starfsmenn stofnunarinnar.

Forstjóri skal samræma sýningar- og kynningarstarfsemi stofnunarinnar í samráði við forstöðumenn setra.

9. gr.

Aðsetur forstjóra skal fyrst um sinn vera í Reykjavík. Starf hans tengist ekki einu setri öðru fremur.

Hlutverk og starfsskyldur forstöðumanna.

10. gr.

Ráðherra skipar forstöðumenn setra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstöðumenn skulu vera náttúrufræðingar á einhverju því sviði sem samræmist rannsóknarstefnu stofnunarinnar. Þeir skulu hafa lokið háskólaprófi eða vera að öðru leyti viðurkenndir fræðimenn á sínu sérsviði.

11. gr.

Forstöðumenn annast daglegan rekstur setra, hafa með höndum faglega yfirstjórn þeirra og vinna að gerð starfs- og fjárlagaáætlana með forstjóra. Forstöðumenn skipuleggja og samræma störf innan setra og gera tillögur að starfslýsingu fyrir starfsmenn þeirra.

Forstöðumenn bera ábyrgð á rekstri og fjárreiðum setra gagnvart forstjóra, gera rekstraráætlun fyrir hvert ár í samráði við forstjóra, árita reikninga setra, árita vinnuskýrslur starfsmanna og sjá um að samþykktum starfs- og rekstraráætlunum sé framfylgt.

Forstöðumaður boðar reglulega og eigi sjaldnar en árlega til funda með starfsmönnum seturs þar sem rætt er um verkefnaval, stöðu rannsókna og áfallinn og áætlaðan kostnað við einstök verkefni. Á slíkum fundum skal einnig fjalla um tillögur forstöðumanns og forstjóra að starfs- og fjárlagaáætlun áður en þær eru lagðar fyrir stjórn.

Forstöðumaður skal stunda rannsóknir að svo miklu leyti sem starf hans leyfir það.

Starfsskyldur sérfræðinga.

12. gr.

Sérfræðingar eru fastráðnir af ráðherra að fengnum tillögum stjórnar.

Sérfræðingar skulu hafa lokið háskólaprófi eða vera að öðru leyti viðurkenndir fræðimenn á sínu sérsviði.

Umsækjendur um starf sérfræðings skulu láta fylgja umsókn sinni ítarlega skýrslu um vísindastörf þau sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil og störf. Stjórn skal láta fylgja tillögu sinni til ráðherra rökstutt álit um það hvort af vísindagildi

rita umsækjenda og rannsóknum svo og námsferli þeirra og störfum megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna starfinu. Stjórn hefur heimild til að fela öðrum aðila að dæma um hæfi umsækjanda enda hafi viðkomandi lokið háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði eða vera að öðru leyti viðurkenndur sérfræðingur á því sviði.

Sérfræðingar sem ráðnir eru til stofnunarinnar til skamms tíma og eru ekki fastráðnir í stöðu af ráðherra skulu undanþegnir ákvæðum þessarar greinar.

13. gr.

Sérfræðingar vinna að rannsóknum á sínu sérsviði og öðrum verkefnum í samræmi við starfslýsingu og þá forgangsröðun verkefna sem ákveðin er.

Stefnt skal að því að til lengri tíma litið verji sérfræðingar ekki minna en helmingi starfstíma síns til grunnrannsókna nema annað sé tekið fram í starfslýsingu.

Sérfræðingur ber ábyrgð á skilum vinnu sinnar, niðurstöðum rannsókna, skýrslum og greinum gagnvart forstöðumanni seturs.

Gildistaka o. fl.

14. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3., 7., 12. og 16. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Um atriði sem varða skipulag og starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og ekki er fjallað um í reglugerð þessari vísast til I. kafla laganna.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytið, 7. júní 1993.

Eiður Guðnason.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica