Fjármálaráðuneyti

679/1998

Reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði

á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir,

hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi tekur til starfsmanna sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti og er markmið hennar að bæta öryggi og heilbrigði þeirra á vinnustöðum.

2. gr.

Hugtök.

Þegar hugtökin _þungaður starfsmaður", _starfsmaður sem hefur nýlega alið barn" og _starfsmaður sem hefur barn á brjósti" eru notuð í reglugerð þessari er átt við starfsmenn sem hafa greint vinnuveitanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

3. gr.

Mat og upplýsingar.

Þegar störf geta haft í för með sér hættu sakir mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða, sbr. skrá í I. viðauka, skal vinnuveitandi eða þjónustuaðili á sviði vinnuverndar og forvarna samkvæmt ósk vinnuveitanda, meta eðli hættunnar fyrir starfsmenn sbr. 2. gr. á hlutaðeigandi vinnustað, umfang hennar og hve lengi hún stendur yfir svo unnt sé að:

 a.            meta áhættu fyrir öryggi og heilbrigði og hugsanleg áhrif á þungaða starfsmenn eða starfsmenn sem hafa barn á brjósti,

 b.        taka ákvörðun um ráðstafanir.

                Vinnuveitandi skal greina starfsmönnum í skilningi 2. gr. og starfsmönnum sem líklegt er að lendi í slíkum aðstæðum á hlutaðeigandi vinnustað og/eða fulltrúum þeirra frá niðurstöðum mats samkvæmt 1. mgr. og öllum ráðstöfunum er snerta öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Leiðbeiningarreglur sem Vinnueftirlit ríkisins gefur út um mat á efnafræðilegum, eðlisfræðilegum og líffræðilegum skaðvöldum og vinnsluaðferðum sem talið er að hafi hættu í för með sér fyrir starfsmenn í skilningi 2. gr. skulu vera til leiðbeiningar við mat samkvæmt 1. mgr.

4. gr.

Aðgerðir í kjölfar matsniðurstaðna.

Leiði niðurstöður mats skv. 1. mgr. 3. gr. í ljós, að öryggi og heilbrigði starfsmanns sem er þungaður eða hefur barn á brjósti í skilningi 2. gr. er í hættu skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmannsins, með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hans.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma, eða ekki er hægt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fela starfsmanninum önnur verkefni. Atvinnurekandi getur leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. Breyting á vinnutíma, vinnuskilyrðum eða verkefnum hefur ekki áhrif á launakjör til lækkunar, sbr. 2. málsl. 6. gr. laga um fæðingarorlof.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að fela starfsmanninum önnur verkefni eða ekki er hægt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal veita honum leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Atvinnurekandi getur leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um veitingu leyfis. Starfsmaður sem sækir um greiðslu skv. 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar í slíku leyfi skal leggja fram vottorð atvinnurekanda um leyfið ásamt rökstuðningi hans fyrir ástæðum þess.

Hlutaðeigandi starfsmaður og/eða Tryggingastofnun ríkisins geta óskað eftir því að Vinnueftirlit ríkisins endurskoði ákvörðun atvinnurekanda um leyfisveitingu. Beiðni um endurskoðun skal liggja fyrir innan 14 daga frá því ákvörðun var formlega tilkynnt.

Ákvæði þessarar greinar gilda að breyttu breytanda um starfsmann sem stundar starf sem bannað er skv. 5. gr. og verður þungaður eða hefur barn á brjósti, sbr. 2. gr.

5. gr.

Tilvik þar sem vinna er bönnuð.

Óheimilt er að skylda þungaða starfsmenn til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg vegna mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. A-lið II. viðauka og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða.

Einnig er óheimilt að skylda starfsmenn sem hafa barn á brjósti til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg sakir mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. B-lið II. viðauka, og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða.

6 gr.

Vinna að næturlagi.

Óheimilt er að skylda starfsmann skv. 1. sbr. 2. gr., til að vinna að næturlagi á meðgöngutíma og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð, enda sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis og heilbrigðis starfsmannsins og hann staðfesti það með læknisvottorði.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnutíma eða ekki er hægt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal veita starfsmanni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Starfsmaður sem sækir um greiðslu í slíku leyfi skv. 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar skal leggja fram vottorð atvinnurekanda um leyfið ásamt rökstuðningi hans fyrir ástæðum þess.

7. gr.

Eftirlit og kæruleiðir.

Vinnueftirlit ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar og annast kynningu hennar.

Um áfrýjun á ákvörðunum og úrskurðum sem byggjast á reglugerðinni gilda ákvæði 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

8. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 73. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 432/1997, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.

Félagsmálaráðuneytinu, 25. nóvember 1998.

Páll Pétursson.

Elín Blöndal.

 

Viðauki I.

                Skrá yfir helstu skaðvalda, vinnuaðferðir og vinnuskilyrði

sem getið er um í 1. mgr. 3. gr.

A.            Skaðvaldar.

1.             Eðlisfræðilegir skaðvaldar, sem teljast vera skaðvaldar sem valda fósturskaða og/eða geta valdið því að legkaka losnar, einkum:               

a)             högg, titringur eða hreyfing;

b)            handleika byrðar sem hafa hættu í för með sér, einkum fyrir hrygg og lendar;

c)             hávaði;

d)            jónandi geislun; sjá reglugerð nr. 356/1986 um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislun og aðrar reglugerðir settar með stoð í lögum nr. 117/1985 um geislavarnir;

e)             ójónandi geislun;

f)             funhiti og brunakuldi;

g)            hreyfingar og stellingar, ferðir milli staða - annaðhvort innan eða utan starfsstöðvar - andleg og líkamleg þreyta og annð líkamlegt álag sem tengist vinnu starfsmanns í skilningi 2. gr. reglugerðarinnar.

2.             Líffræðilegir skaðvaldar.

                Líffræðilegir skaðvaldar samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 554/1996 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum ef vitað er að þeir eða meðferð sem þeir krefjast geti skaðað heilsu þungaðra kvenna og fóstra og þá er ekki að finna í II. viðauka.

3.             Efnafræðilegir skaðvaldar.

                Eftirtaldir efnafræðilegir skaðvaldar þegar vitað er að þeir geti skaðað heilsu þungaðra kvenna og fóstra og þá er ekki að finna í II. viðauka;

a)             efni merkt H 40, H 46 og H 47 samkvæmt reglugerð nr. 236/1990; reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni ásamt síðari breytingum;

b)            efnafræðilegir skaðvaldar í I. viðauka við reglur nr. 621/1995 um krabbameinsvaldandi efni;

c)             kvikasilfur og kvikasilfurssambönd;

d)            mítósuheftandi lyf;

e)             kolmónoxíð;

f)             efnafræðilegir skaðvaldar sem vitað er að hafa skaðleg áhrif gegnum húð.

B.            Vinnuaðferðir.

Vinnuaðferðir í I. viðauka reglna nr. 621/1995 um vinnu með krabbameinsvaldandi efni.

C.            Vinnuskilyrði.

Vinna neðanjarðar í námum.

Viðauki II.

Skrá yfir helstu skaðvalda og vinnuskilyrði sem getið er um í 5. gr.

A.            Þungaðir starfsmenn í skilningi 2. gr.

1.             Skaðvaldar.

a)             Eðlisfræðilegir skaðvaldar.

                Vinna undir miklum þrýstingi, t.d. í þrýstiklefum og við köfun.

b)            Líffræðilegir skaðvaldar.

                Eftirtaldir líffræðilegir skaðvaldar:

                - bogfrymill,

                - veira rauðra hunda

                nema þungaðir starfsmenn séu sannanlega nægilega varðir gegn slíkum áhrifavöldum með ónæmisaðgerð.

c)             Efnafræðilegir skaðvaldar.

                Blý og blýsambönd, ef hætta er á að mannslíkaminn taki þessa skaðvalda upp, sbr. og 5. mgr. 10. gr. reglna nr. 698/1995 um vinnu með blý og blýsölt.

2.             Vinnuskilyrði.

Vinna neðanjarðar í námum.

B.            Starfsmenn með barn á brjósti í skilningi 2. gr.

1.             Skaðvaldar.

a)             Efnafræðilegir skaðvaldar.

                Blý og blýsambönd, ef hætta er á að mannslíkaminn taki þessa áhrifavalda upp, sjá nánar reglur nr. 698/1995 um vinnu með blý og blýsölt.

2.             Vinnnuskilyrði.

Vinna neðanjarðar í námum.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica