Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

226/1992

Reglugerð um málaskrár vegna gjaldþrotaskipta o.fl.

I. KAFLI

Málaskrár.

1. gr.

Við hvern héraðsdómstól skulu haldnar skrár um beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar, beiðnir um heimild til nauðasamningsumleitana, kröfur um gjaldþrotaskipti og ágreiningsmál sem eru rekin skv. 5. þætti laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Í hverri málaskrá um sig skal máli gefið númer úr óslitinni númeraröð innan hvers árs.

2. gr.

Í málaskrá um beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar skal færa þessi atriði eftir því sem getur átt við hverju sinni:

 1. Móttökudag beiðni.

 2. Nafn skuldara, sem æskir heimildar til greiðslustöðvunar, kennitölu og heimilisfang.

 3. Nafn umboðsmanns skuldara og aðstoðarmanns hans við greiðslustöðvun sé um annan að ræða en umboðsmann hans.

 4. Nafn, kennitölu og starfstöð firma á hvers skuldbindingum skuldari ber ótakmarkaða ábyrgð.

 5. Nafn dómara sem fer með mál.

 6. Hvenær úrskurður er kveðinn upp um beiðni, hver niðurstaða hefur þar orðið og hvenær greiðslustöðvun skuldara verður tekin fyrir á ný á dómþingi.

Ef leitað er framlengingar á heimild til greiðslustöðvunar skulu atriði skv. 1., 5. og 6. tölul. 1. mgr. tiltekin um þá málaleitan.

3. gr.

Í málaskrá um beiðnir um heimild til nauðasamningsumleitana skal færa þessi atriði eftir því sem getur átt við hverju sinni:

 1. Móttökudag beiðni.

 2. Nafn skuldara, sem æskir heimildar til nauðasamningsumleitana, kennitölu og heimilisfang.

 3. Nafn umboðsmanns skuldara.

 4. Nafn, kennitölu og starfstöð firma á hvers skuldbindingum skuldari ber ótakmarkaða ábyrgð.

 5. Nafn dómara sem fer með mál.

 6. Hvenær beiðni er tekin fyrst fyrir á dómþingi.

 7. Hvenær úrskurður er kveðinn upp um beiðni og hver niðurstaða hefur þar orðið.

 8. Nafn umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum.

 9. Móttökudag kröfu um staðfestingu nauðasamnings, hvenær hún er tekin fyrir á dómþingi, hvenær úrskurður er kveðinn upp um hana og hver niðurstaða hefur þar orðið.

 10. Hvenær nauðasamningsumleitunum lýkur og hvernig.

4. gr.

Í málaskrá um kröfur um gjaldþrotaskipti skal færa þessi atriði eftir því sem getur átt við hverju sinni:

 1. Móttökudag kröfu.

 2. Nafn skuldara, sem er krafist gjaldþrotaskipta hjá, kennitölu og heimili.

 3. Nafn, kennitölu og starfstöð firma á hvers skuldbindingum skuldari ber ótakmarkaða ábyrgð.

 4. Nafn þess sem krefst gjaldþrotaskipta.

 5. Nafn dómara sem fer með mál.

 6. Hvenær úrskurður er kveðinn upp um kröfu.

 7. Nafn skiptastjóra við gjaldþrotaskiptin.

 8. Hver málalok verða og hvenær.

5. gr.

Í málaskrá um ágreiningsmál skal færa þessi atriði eftir því sem getur átt við hverju sinni:

 1. Móttökudag kröfu um úrlausn ágreinings.

 2. Nafn sóknaraðila, varnaraðila og umboðsmanna þeirra.

 3. Hvaða greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir eða gjaldþrotaskipti málið varðar.

 4. Hvert ágreiningsefnið er.

 5. Nafn dómara sem fer með mál.

 6. Hvernig og hvenær máli lýkur.

6. gr.

Málaskrár skv. 2. - 5. gr. skulu eftir atvikum tölvufærðar. Ef það er gert skulu tekin afrit af þeim ekki sjaldnar en vikulega, enda hafi færslur í þær ekki verið færri en tíu frá því síðasta afrit var tekið.

7. gr.

Upplýsingar verða ekki veittar úr málaskrám nema sá sem leitar eftir þeim hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.

II. KAFLI

Veiting vottorða.

8. gr.

Maður getur leitað eftir vottorði við þann héraðsdómstól, þar sem hann á heimilisvarnarþing, um það hvort krafa hafi komið fram um gjaldþrotaskipti á búi hans. Slíks vottorðs getur félag, stofnun eða samtök einnig leitað.

Í vottorði héraðsdómstóls verður ekki annars getið en þess hvort krafa á hendur hlutaðeiganda um gjaldþrotaskipti hafi komið þar fram og eftir atvikum hver afdrif hennar hafi orðið.

9. gr.

Með sama hætti og skv. 8. gr. má maður, félag, stofnun eða samtök leita vottorðs héraðsdómstóls um að hlutaðeigandi hafi ekki óskað eftir heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana.

III. KAFLI

Gildistaka o.fl.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21 23. mars 1991, öðlast gildi 1. júlí 1992.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 19. júní 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica