Fjármálaráðuneyti

545/1990

Reglugerð um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda, vöntunar eða endursölu til útlanda o. fl. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda,

vöntunar eða endursölu til útlanda o.fl.

I. KAFLI

Endursending vöru o.fl.

1. gr.

Tollstjóra er heimilt að falla frá innheimtu aðflutningsgjalda af ótollafgreiddri vöru sem er í vörslu farmflytjanda og ekki hefur verið vitjað, viðtakandi hefur ekki fundist að eða neitað hefur verið um viðtöku á og endursend er til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands. Sama á við um vöru sem sett hefur verið í tollvörugeymslu og endursend er til útlanda af sömu ástæðum.

Skilyrði niðurfellingar aðflutningsgjalda samkvæmt þessari grein eru:

1. Lögð sé fram hjá viðkomandi tollstjóra skrifleg beiðni á þar til gerðu eyðublaði um tollskoðun þeirrar vöru sem beiðni um endursendingu lýtur að. Nauðsynleg tollskjöl skulu fylgja beiðninni, hafi þau ekki þegar verið afhent.


2. Ef skráður viðtakandi vöru annast sjálfur um endursendingu hennar, skal hann setja fullnægjandi tryggingu fyrir aðflutningsgjöldum. Í stað fjártryggingar er tollstjóra heimilt að veita viðtöku skuldaviðurkenningu vegna gjaldanna, nemi þau a.m.k. 30.000 kr. eða 380 SDR (sérstök dráttarréttindi), enda fylgi sjálfsskuldarábyrgð banka eða sparisjóðs á greiðslu skuldar, vaxta og dráttarvaxta, verði vanefndir af hálfu skuldara. Skuldaviður­kenning skal vera með gjalddaga ekki síðar en einum mánuði eftir fyrirhugaðan endurútflutning vörunnar og ábyrgð banka eða sparisjóðs skal gilda a.m.k. einum mánuði fram yfir gjalddaga.

Ekki skal krafist fjártryggingar ef fyrir hönd viðtakanda vöru er annast um endursendingu af hálfu farmflytjanda vörunnar, enda hefur hann vöruna í sinni vörslu eða mun annast flutning hennar til útlanda. Sama á við sé varan geymd í tollvörugeymslu og sá annast um endursendingu sem tollvörugeymsluna rekur. Jafnframt skal flutnings­miðlurum heimilt að annast um endursendingu án þess að setja sérstaka tryggingu hverju sinni ef þeir hafa sett í samráði við tollstjóra heildartryggingu sem ætlað er að standa tiltekið tímabil.

3. Tollgæslan staðfesti skriflega skoðun vöru og umbúða og að varan hafi reynst vera í samræmi við framkomnar upplýsingar. Ef varan er eigi þegar að skoðun lokinni flutt um borð í flutningsfar skal hún innsigluð ef ástæða þykir til að hafa hana undir innsigli þar til útflutningur á sér stað.

4. Farmflytjandi staðfesti skriflega útflutning vörunnar og skal fylgja afrit útflutningsfarm­skírteinis.

5. Lagt sé fram afrit útflutningsskýrslu ef þörf er á að mati tollstjóra.

6. Framvísað sé skriflegri beiðni hins erlenda seljanda um endursendingu vörunnar eða, eftir atvikum, staðfestingu hans á því að hann muni veita vörunni viðtöku. Niðurfelling aðflutningsgjalda samkvæmt þessari grein er jafnframt bundin því skilyrði

að framangreind staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá brottför útflutningsfars. Hafi verið sett trygging samkvæmt 2. tl. 2. mgr. skal hún þá gerð upp. Séu gjöldin ekki afhent tollstjóra innan frestsins má taka trygginguna upp í ógreidd aðflutnings­gjöld eða stöðva tollafgreiðslu á öðrum vörum til viðkomandi þar til skil eru gerð. Hafi verið komið fram gagnvart tollstjóra af hálfu farmflytjanda, tollvörugeymslu eða flutningsmiðlara vegna tollmeðferðar vöru samkvæmt þessari grein og framangreindum staðfestingargögnum er ekki skilað innan tilskilins frests getur tollstjóri krafið þá aðila um greiðslu vangreiddra aðflutningsgjalda.

 

2. gr.

Tollstjóra er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af tollafgreiddri vöru sem send er aftur til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands enda sé varan ónotuð og að öðru leyti sé fullnægt þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 1., 3., 4., 5., og 6. tl. 1. gr.

Endurgreiðsla aðflutningsgjalda samkvæmt þessari grein er jafnframt bundin því skilyrði að tilskilin staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá brottför útflutnings­fars.

 

3. gr.

Ákvæði 1. og 2. gr. skulu gilda, eftir því sem við getur átt, þegar vara hefur verið send ranglega til landsins og hún er endursend viðkomandi.

 

4. gr.

Tollstjóra er heimilt að lækka, falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af ónotaðri vöru sem reynist haldin galla og send er aftur til útlanda eða fargað er undir tolleftirliti, enda sé lögð fram staðfesting hins erlenda seljanda á því að hann annað hvort taki vöruna aftur vegna gallans eða hann af sömu ástæðu óski eftir förgun hennar í stað endursendingar. Ákvæði þessarar greinar geta bæði tekið til vörusendingar sem er gölluð í heild eða að hluta.

Í stað þess að fallast á beiðni um förgun vöru samkvæmt 1. mgr. getur tollstjóri sett það skilyrði fyrir niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda að varan verði afhent ríkis­sjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar.

Við tollmeðferð vöru samkvæmt þessari grein skal fullnægt skilyrðum 1. - 2. gr. eftir því sem við getur átt.

 

5. gr.

Tollstjóra er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af vélum og vélahlutum sem reynast haldin göllum, þrátt fyrir að gallar hafi ekki komið í ljós fyrr en við notkun, enda séu þeir þess eðlis að ekki hafi fyrr verið unnt að ganga úr skugga um þá. Að öðru leyti skulu gilda ákvæði 4. gr. um tollmeðferð samkvæmt þessari grein eftir því sem við getur átt.

 

6. gr.

Auk skilyrða sem sett eru í þessum kafla um endursendingar vöru til útlanda skal, eftir því sem við getur átt, fullnægt almennum skilyrðum um útflutning vöru samkvæmt ákvæðum tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum.

 

II. KAFLI

Um eyðileggingu, rýrnun og skemmdir.

7. gr.

Tollstjóra er heimilt að lækka, falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, í vörslu tollyfirvalda, í vörugeymslu farmflytjanda, í tollvörugeymslu eða í flutningi á milli viður­kenndra geymslustaða ótollafgreidds varnings.

Skilyrði tollmeðferðar samkvæmt 1. mgr. er að vöru sé framvísað fyrir tollgæslunni og gerð sé grein fyrir eyðileggingu, rýrnun eða skemmdum áður en hún er flutt úr nefndum geymslum. Sé um að ræða vöru sem verulegum vandkvæðum er bundið að skoða í framangreindum geymslum má skoðun fara fram annars staðar að höfðu samráði við tollgæsluna, enda sé varan flutt þangað undir tolleftirliti eða tollinnsigli.

Verði tjónsatvik á meðan vara er í flutningi á milli viðurkenndra geymslustaða skal þegar tilkynna það til tollgæslu og skulu nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til varnar því að ástandi vöru verði breytt.

Sé fallið frá innheimtu aðflutningsgjalda eða þau endurgreidd vegna algerrar eyðilegg­ingar vöru skal henni fargað undir tolleftirliti eða, ef tollstjóri kveður svo á, skal hún afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar.

 

8. gr.

Beiðni um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt 7. gr. skal fylgja skýrsla tollgæslunnar um skoðun vörunnar svo og matsgerð vátryggjanda eða umboðsmanns hans ef um hana er að ræða eða tjónsmat frá viðurkenndum aðila ef vara er óvátryggð.

 

III. KAFLI

Um vöntun í vörusendingu.

9. gr.

Tollstjóra er heimilt að lækka, falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld ef fram kemur vöntun í vörusendingu í heild eða að hluta enda sé fullnægt eftirtöldum skilyrðum:

1. Ef vöruvöntun er sýnileg við affermingu flutningsfars, þ.e. annað hvort hafi vörusending ekki komið fram við affermingu eða þá hafi verið sjáanlegt af ytri umbúðum að um vöntun hafi verið að ræða, skal sýnt fram á að farmflytjandi hafi afhent tollstjóra skrá um vöntunina innan 16 daga frá komu flutningsfars vöru til landsins. Hafi vara verið flutt undir innsigli tollgæslunnar á milli viðurkenndra geymslustaða má taka tillit til vöntunar þó fresturinn sé liðinn, enda hafi varan verið sett undir innsigli innan nefndra tímamarka. Skal vöntun þá staðreynd í viðurvist tollstarfsmanns þegar innsigli er rofið.

2. Sé vöntun ekki sýnileg við affermingu flutningsfars vöru má taka hana til greina án tillits til frests samkvæmt 1. tl. þessarar greinar. Skal þá sýnt fram á með fullnægjandi gögnum að mati tollstjóra að um vöntun í sendingu hafi verið að ræða enda þótt hennar hafi ekki orðið vart við affermingu. Þannig getur tollstjóri t.d. tekið til greina skriflega staðfestingu sendanda vöru eða vátryggingafélags á því að hún hafi horfið erlendis enda fylgi kreditreikningur eða staðfesting banka eða sparisjóðs á lækkun eða niðurfellingu hinnar erlendu kröfu.

 

10. gr.

Hafi aðflutningsgjöld verið greidd af vörusendingu sem koma átti til landsins í tilteknu farmskrárnúmeri og heimild verið veitt til afhendingar hennar frá farmflytjanda, en síðar komið í ljós samkvæmt ferðauppgjöri að hana hafi vantað í viðkomandi flutningsfar, skal farmflytjanda heimilt þegar hún kemur til landsins að afhenda hana án þess að tollafgreiðsla sé tekin upp að nýju. Heimild til afhendingar er bundin því skilyrði að tollgæslunni sé gerð grein fyrir vöntuninni á eyðublaði fyrir sérstaka tollafgreiðslu, E8, m.a. sendingarnúmeri og farmskrárnúmeri í raunverulegu flutningsfari. Jafnframt skal framvísa afriti greiðslukvittunar vegna upphaflegrar tollafgreiðslu og öðrum tollskjölum ef þörf er á að mati tollstjóra.

Sérstök tollafgreiðsla samkvæmt þessari grein er bundin því skilyrði að engar breytingar hafi orðið á aðflutningsgjöldum frá upphaflegum tollafgreiðsludegi til afhendingardags.

 

IV. KAFLI

Um endursölu vöru til útlanda, í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu, á frísvæði eða varnarsvæði.

11. gr.

Tollstjóra er heimilt að falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er til útlanda.

Tollmeðferð vöru samkvæmt þessari grein er bundin því skilyrði að sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að varan hafi verið seld til útlanda, auk þess sem fullnægt sé skilyrðum 1. - 2. gr. eftir því sem við getur átt. Frestur til að leggja fram beiðni um tollmeðferðina og nauðsynleg staðfestingargögn skal þó vera 6 mánuðir frá brottför útflutn­ingsfars.

 

12. gr.

Tollstjóra er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er í tollfrjálsa verslun hér á landi, í tollfrjálsa forðageymslu skipaútgerðar eða flugfélags, á frísvæði eða á varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, enda sé fullnægt eftirtöld­um skilyrðum:

1. Varan sé ónotuð.

2. Framvísað sé sölureikningi með áritaðri staðfestingu tollgæslunnar á því að vara samkvæmt reikningnum hafi verið flutt til aðila sem grein þessi tekur til.

3. Framvísað sé afriti greiðslukvittunar aðflutningsgjalda vörunnar og ef þörf er á að mati tollstjóra afritum annarra tollskjala varðandi vöruna.

Endurgreiðsla aðflutningsgjalda samkvæmt þessari grein er jafnframt bundin því skilyrði að beiðni um tollmeðferðina og nauðsynleg staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá því að sú vara, sem beiðni lýtur að, var afhent kaupanda.


 

13. gr.

Hvers konar aðvinnsla vöru hér á landi fyrir endursölu er óheimil, að undanskilinni umpökkun og skiptingu einstakra vörusendinga.

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

14. gr.

Ef óskað er tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari skal lögð fram aðflutningsskýrsla hjá viðkomandi tollstjóra þar sem fram komi beiðni um lækkun, niðurfellingu eða endur­greiðslu aðflutningsgjalda. Beiðnin skal gefin til kynna með því að vísa í reit 14 í aðflutnings­skýrslunni til viðkomandi greinar og númers reglugerðarinnar. Að öðru leyti skal gæta fyrirmæla einstakra greina reglugerðarinnar um framlagningu fylgiskjala, eftir því sem við á.

 

15. gr.

Tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari skal fara fram innan eins árs frá komu flutningsfars vöru til landsins. Hafi vara verið sett í almenna tollvörugeymslu skal fresturinn þó vera jafnlangur leyfilegum geymslutíma vöru þar.

Þrátt fyrir að frestur samkvæmt 1. mgr. sé liðinn og uppboðsaðgerðir til lúkningar aðflutningsgjöldum séu hafnar getur tollstjóri fallist á beiðni um tollmeðferð samkvæmt reglugerðinni ef sérstakar ástæður mæla með því, enda séu uppboðsaðgerðirnar því eigi til fyrirstöðu og viðkomandi greiði allan áfallinn kostnað, þ.m.t. uppboðskostnað.

 

16. gr.

Þegar aðflutningsgjöld eru endurgreidd samkvæmt reglugerð þessari skal þó ekki endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem skattskyldir aðilar samkvæmt ákvæðum laga nr. 59/ 1988, um virðisaukaskatt, hafa greitt við innflutning þeirrar vöru sem beiðni lýtur að. Við uppgjör á virðisaukaskatti skal innskattur af innfluttri vöru dreginn frá útskatti samkvæmt þeim lögum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

Tollstjóra er þó heimilt að endurgreiða öðrum aðilum en um ræðir í 1. mgr. þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna innflutnings viðkomandi vöru.

 

17. gr.

Hafi vara fengið tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari, en síðan verið flutt til landsins að nýju eða ný vara verið send í hennar stað, ber að taka þá vöru til tollmeðferðar með venjulegum hætti.

 

18. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 6., 112., 113., sbr. 148. gr., tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, til að öðlast gildi þegar í stað.

Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 463/1984, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna endursendingar, eyðileggingar, skemmda, rýrnunar eða vöntunar á innfluttum vörum, með áorðnum breytingum, og reglugerð nr. 471/1984, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem endurseldar eru til útlanda, með áorðnum breytingum.

 

Fjármálaráðuneytið, 19. desember 1990.

F. h. r.

Magnús Pétursson.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica