Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Breytingareglugerð

202/2020

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis.

1. gr.

Heiti reglugerðarinnar breytist og verður: Reglugerð um innflutning gæludýra, annarra en hunda og katta, og hundasæðis.

2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar verði svohljóðandi:

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd merkingu sem hér segir:

a) Innflutningsleyfi er leyfi Matvælastofnunar til innflutnings á gæludýri eða hundasæði.
b) Heilbrigðis- og upprunavottorð er vottorð sem staðfestir heilbrigði og uppruna viðkomandi gæludýrs eða hundasæðis. Einungis skal nota gilt eyðublað útgefið af Matvælastofnun.
c) Gæludýr sem þessi reglugerð tekur til eru kanínur, naggrísir, hamstrar, stökkmýs, degu, búrfuglar, skrautfiskar og vatnadýr.
d) Lönd án hundaæðis eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma. Í viðauka I reglugerðar um innflutning hunda og katta er að finna lista yfir lönd án hundaæðis.
e) Lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma. Í viðauka I reglugerðar um innflutning hunda og katta er að finna lista yfir lönd þar sem hundaæði er haldið í skefjum.
f) Innflutningsstaður er flugvöllur sem samþykktur hefur verið af Matvælastofnun til móttöku gæludýra.
g) Móttökustöð gæludýra er aðstaða á innflutningsstað á vegum Matvælastofnunar þar sem innflutningseftirlit fer fram.
h) Upprunaland er fæðingarland dýrs.
i) Opinber dýralæknir er dýralæknir sem er starfsmaður dýralæknayfirvalda í hverju landi eða starfar með fulltingi dýralæknayfirvalda.
í) Sæðisgjafi er hundur sem sæði er tekið úr og fryst í útflutningslandi í þeim tilgangi að flytja það til Íslands.
j) Gild bólusetning er bólusetning þar sem sæðisgjafi hefur hlotið viðeigandi grunnbólusetningu og henni viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.

3. gr.

Í stað orðsins "landbúnaðarráðherra" í 1. mgr. 3. gr. kemur: Matvælastofnunar.

Í stað orðsins "landbúnaðarráðuneytisins" í 2. mgr. 3. gr. og 34. gr. kemur: Matvælastofnunar.

Í stað orðanna "landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir setja" í 3. mgr. 3. gr. kemur: Matvælastofnun setur.

Í stað orðanna "Innflutningur á gæludýrum og hundasæði" í 3. gr. reglugerðarinnar kemur: Innflutningur gæludýra, annarra en hunda og katta, og hundasæðis.

Í stað orðsins "yfirdýralæknir" í 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. kemur í sams konar beygingarmynd: Matvælastofnun.

4. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Skilyrði til innflutnings hunda og katta koma fram í reglugerð um innflutning hunda og katta.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. 5. gr. verði svohljóðandi: Gæludýrum og hundasæði sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs.
  2. 3. mgr. 5. gr. verði svohljóðandi: Vottorðið skal vera rétt útfyllt og gefið út af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu. Vottorðið gildir í 10 sólarhringa frá útgáfudegi.
  3. 4. mgr. 5. gr. verði svohljóðandi: Vottorðinu skulu fylgja rannsóknarniðurstöður sýna sem krafist er skv. 14. gr.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. 6. gr. verði svohljóðandi: Fimm til tíu sólarhringum fyrir áætlaðan komudag gæludýra eða hundasæðis til landsins skal innflytjandi senda Matvælastofnun öll tilskilin vottorð til umsagnar og samþykktar með rafrænum hætti.
  2. 2. mgr. 6. gr. verði svohljóðandi: Berist tilskilin gögn Matvælastofnun síðar en 5 sólarhringum fyrir áætlaðan komudag er stofnuninni heimilt að synja innflutningi dýrs.

7. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Innflutningsstaður.

Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr til Íslands um innflutningsstað. Innflutningseftirlit getur þó farið fram á öðru tilgreindu svæði en móttökustöð gæludýra. Á móttökustöð gæludýra skal vera tímabundin aðstaða til vistunar dýra sem hafa innflutningsleyfi. Aðstaðan skal vera fullnægjandi hvað varðar smitvarnir og dýravelferð, sbr. reglugerð um velferð gæludýra. Þess skal sérstaklega gætt að dýr sleppi ekki út úr aðstöðunni. Matvælastofnun setur nánari verklagsreglur um umgengni og umönnun dýra í móttökustöð gæludýra.

8. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Innflutningseftirlit.

Opinber dýralæknir skoðar gæludýr við komu til landsins á innflutningsstað og sannreynir að þau sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og að öll tilskilin vottorð fylgi.

Við innflutning á djúpfrystu hundasæði skal opinber dýralæknir sannreyna auðkenni sendingar og að öll tilskilin vottorð fylgi.

9. gr.

II. kafli reglugerðarinnar fellur brott í heild sinni.

10. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. reglugerðarinnar:

  1. 2. tl. 3. mgr. 14. gr. verði svohljóðandi:
    Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. 3. tl. 3. mgr. 14. gr. verði svohljóðandi:
    Umráðamaður sæðisgjafa: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  3. Í stað b-, c- og d-liða 8. tl. 3. mgr. 14. gr. kemur eftirfarandi:

    b) Bólusetningar:
    i. Bólusetning og mótefnamæling gegn hundaæði (rabies):
    1. Sæðisgjafi sem dvalið hefur í landi án hundaæðis a.m.k. síðustu 6 mánuði fyrir sæðistöku skal hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði (sjá 4. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta og viðauka I sömu reglugerðar). Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mótefni skulu mælast jafnt og/eða hærri en 0,5 a.e./ml. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
    2. Sæðisgjafi sem dvalið hefur í landi þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum a.m.k. síðustu 6 mánuði fyrir sæðistöku skal hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði (sjá 4. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta og viðauka I sömu reglugerðar). Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mótefni skulu mælast jafnt og/eða hærri en 0,5 a.e./ml. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 90 dögum eftir mótefnamælingu. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
    ii. Bólusetning gegn hundainflúensu (e. canine influenza virus):
    Sæðisgjafi frá áhættusvæðum (sjá viðauka I með reglugerð um innflutning hunda og katta) skal hafa gilda bólusetningu gegn viðeigandi stofnum hundainflúensu. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
    iii. Bólusetning gegn leptóspírusýkingu (e. leptospirosis):
    Sæðisgjafi skal hafa gilda bólusetningu gegn leptóspírusýkingu. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
    iv. Bólusetning gegn hundafári (e. canine distemper):
    Sæðisgjafi skal hafa gilda bólusetningu gegn hundafári. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
    c) Rannsóknir:
    i. Blóðrannsókn vegna brúsellósu (Brucella canis):
    Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir sæðistöku vegna innflutnings skal taka blóðsýni úr sæðisgjafa og það rannsakað m.t.t. Brucella canis með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
    ii. Rannsókn vegna Leishmaniosis (Leishmania spp.):
    Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir sæðistöku vegna innflutnings skal taka sýni (blóð- eða vefjasýni) úr sæðisgjafa og það rannsakað m.t.t. Leishmania spp. með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
    d) Náttúruleg pörun: Óheimilt er að nota sæðisgjafa í náttúrulega pörun síðustu tvo mánuðina fyrir sæðistöku vegna innflutnings.
  4. Við 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður:

    9) Dvalarland sæðisgjafa.

11. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. reglugerðarinnar:

  1. b-liður 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
    Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. Við 18. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Innflutningur skrautfiska og vatnadýra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal uppfylla skilyrði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1251/2008.

12. gr.

19. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Skrautfiskum og vatnadýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

13. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. reglugerðarinnar:

  1. b-liður 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
    Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. Við 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður:

    f) Auðkenni dýrs: Kanínur skulu örmerktar.

14. gr.

21. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Nagdýrum og kanínum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

15. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. reglugerðarinnar:

  1. b-liður 2. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
    Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. Við 2. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður:

    g) Auðkenni búrfugls: Stærri fuglar skulu örmerktir eða bera fótahring með auðkennisnúmeri.

16. gr.

23. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Búrfuglum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

17. gr.

VII. kafli reglugerðarinnar fellur brott í heild sinni.

18. gr.

34. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 14. gr. reglugerðar þessarar undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því. Ákvarðanir um slíkar undanþágur skulu tilkynntar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eftir því sem ástæða er til.

19. gr.

35. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Matvælastofnun innheimtir gjald vegna útgáfu leyfa og eftirlits á innflutningsstað og í einangrun. Gjaldtaka fer eftir gjaldskrá Matvælastofnunar hverju sinni.

20. gr.

Í stað orðanna "opinberra mála nr. 19/1991" í 2. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar kemur: sakamála, nr. 88/2008.

21. gr.

Á eftir 36. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein sem orðast svo:

Matvælastofnun ber að setja sér málsmeðferðarreglur við mat samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar auk annarra ákvæða hennar sem varða töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana.

22. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. mars 2020.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.