Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

196/2022

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 330/2020 um gerð strandsvæðisskipulags.

1. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar:

Orðið "vinnslutillögu" fellur brott.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir orðunum "setja fram" í 4. málsl. 1. mgr. kemur: með nýtingarflokkum, sbr. 11. gr. a,
  2. Á undan orðinu "skipulagstímabil" í 5. málsl. 1. mgr. kemur: og eftir atvikum.

3. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein sem verður 11. gr. a, svohljóðandi:

Nýtingarflokkar strandsvæðisskipulags.

Stefna um nýtingu einstakra hluta eða reita skipulagssvæðis í strandsvæðisskipulagi skal auðkennd með afmörkun skipulagsreita og nýtingarflokkum samkvæmt 3. mgr. Skilgreining reita samkvæmt tilteknum nýtingarflokki felur í sér að aðstæðum til þeirrar nýtingar sem fellur undir nýtingarflokkinn verði viðhaldið.

Um hvern nýtingarflokk eða eftir atvikum einstaka skipulagsreiti skal í strandsvæðisskipulagi setja skipulagsákvæði eftir því sem við á. Sé gert ráð fyrir nýtingu á skipulagsreit sem fellur undir fleiri en einn nýtingarflokk skal sá flokkur tiltekinn sem er ríkjandi en eðli og umfang annarrar nýtingar tilgreint í skipulagsákvæðum um viðkomandi skipulagsreit að teknu tilliti til nýtingar samkvæmt ríkjandi nýtingarflokki.

Nota skal eftirfarandi nýtingarflokka, eftir því sem við á:

  1. Staðbundin nýting.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir staðbundinni nýtingu auðlinda, svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slætti sjávargróðurs. Atvinnuveiðar, ferðaþjónusta, útivist og sambærileg nýting geta farið fram á svæðum fyrir staðbundna nýtingu að teknu tilliti til hagsmuna þeirrar nýtingar sem tilgreind er í 1. málsl.

  2. Almenn nýting.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir ferðaþjónustu og útivist, svo sem skipulögðum ferðum og ferðum á eigin vegum á vélknúnum bátum, seglbátum og kajökum, auk köfunar, brimbrettaiðkunar og nytja til einkanota. Akkerislægi geta verið á svæðum fyrir almenna nýtingu. Sama gildir um atvinnuveiðar. Staðbundin auðlindanýting, svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, efnistaka og ræktun og sláttur sjávargróðurs og sambærileg nýting, getur farið fram á svæðum fyrir almenna nýtingu að teknu tilliti til hagsmuna þeirrar nýtingar sem tilgreind er í 1.-3. málsl. Sama á við um veitulagnir, varp efna í hafið og umferð skipa til og frá höfn.

  3. Umhverfi og náttúra.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir verndun sérkenna viðkomandi svæðis vegna landslags eða náttúrulegs, sögulegs eða menningarlegs gildis, án þess að um formlega friðun sé að ræða. Ferðaþjónusta og útivist geta samrýmst skilgreiningu svæða í þessum nýtingarflokki. Veitulagnir, akkerislægi og sambærileg nýting geta einnig átt við á þessum svæðum, að teknu tilliti til verndarhagsmuna á viðkomandi svæði. Sama á við um atvinnuveiðar.

  4. Siglingar.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir umferð skipa til og frá höfn, svo sem flutningaskipa, skemmtiferðaskipa, bílferja og stærri fiskveiðiskipa. Atvinnuveiðar geta samrýmst skilgreiningu svæða í þessum nýtingarflokki. Einnig umferð vegna ferðaþjónustu og útivistar, svo sem skipulagðra ferða og ferða á eigin vegum á vélknúnum bátum, seglbátum og kajökum, auk köfunar, brimbrettaiðkunar og nytja til einkanota. Veitulagnir og sambærileg nýting getur átt við á svæðum fyrir siglingar, að teknu tilliti til hagsmuna skipaumferðar.

  5. Lagnir og vegir.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir veitulögnum og vegum. Ferðaþjónusta, útivist og umferð skipa geta einnig átt við á þessum svæðum að teknu tilliti til þeirrar nýtingar sem tilgreind er í 1. málsl.

  6. Orkuvinnsla.

    Svæði þar sem gert er ráð fyrir orkuvinnslu og veitulögnum sem henni tengjast. Atvinnuveiðar, umferð skipa, ferðaþjónusta og útivist og sambærileg nýting getur farið fram á svæðum sem skilgreind eru fyrir orkuvinnslu, að teknu tilliti til hagsmuna orkuvinnslu.

4. gr.

Í stað orðanna "lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana" í 12. gr. reglugerðarinnar kemur: lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða og öðlast þegar gildi.

Innviðaráðuneytinu, 1. febrúar 2022.

Sigurður Ingi Jóhannsson
innviðaráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.