REGLUGERÐ
um einkennisbúninga og búnað tollvarða.
1. gr.
Klæðaburður tollvarða.
Tollverðir skulu ganga í einkennisfatnaði við störf sín samkvæmt reglugerð þessari og ávallt vera snyrtilegir til fara. Fatnaði, sem þeim er lagður til samkvæmt reglugerð þessari, ber þeim að halda vel við og sjá um að hann sé hreinn og snyrtilegur. Tollstjórar og aðrir yfirmenn skulu fylgjast með klæðaburði tollvarða, og ber þeim að sjá til þess að klæðaburður sé í samræmi við gildandi reglur. Þess skal jafnan gætt að samræmi sé í klæðaburði þegar tveir eða fleiri tollverðir eru saman að störfum.
Með samþykki tollyfirvalds er tollverði heimilt að vera án einkennisjakka og -húfu við akstur, störf innan tollstöðvar eða önnur sérstök tækifæri.
2. gr.
Gerð einkennisfatnaðar.
Einkennisfatnaður tollvarða skal vera svo sem hér segir:
1. Húfa skal vera úr hvítu efni með 5 cm breiðri uppistandandi gjörð, 5 cm breiðri reisn, kringlóttum hvítum flötum kolli, gljáleðursskyggni og hökuól sem fest sé á gjörðina með tveimur litlum einkennishnöppum. Á gjörð skal vera gylltur borði, 10 mm breiður, og á honum að framan ofið hringmerki (kokarde) í íslensku fánalitunum, sbr. þó A-lið 1. mgr. 4. gr. Á reisn að framan og niður á gjörðina skal vera á 5 cm háum skjaldlaga grunni úr svörtu klæði merki úr gylltum málmi sem þannig skal gert: Bókstafurinn T, 4 cm hár og skjaldarmerki Íslands, 2,5 cm hátt, fellt yfir legg stafsins.
2. Kuldahúfa skal vera úr hlýju svörtu prjónuðu ullarefni, fóðruð að innan með vindheldu vatnsfælnu efni (tex) og skal tollmerki fest framan á hana, sbr. 1. tölul. i.f.
3. Jakki I skal vera úr svörtu klæðisefni, tvíhnepptur og með venjulegum kraga, sem skal vera 8 cm þar sem hann er breiðastur og skal kraginn vera sléttur og óstunginn. Á jakkanum skulu vera tveir hliðarvasar með loki og einn brjóstvasi að utan en tveir vasar að innan. Á jakkanum skulu vera tvær raðir stórra gylltra einkennishnappa, fjórir í hvorri röð, og skal jakkinn hnepptur á þrjá þeirra. Á ermum skulu vera minni einkennishnappar, þrír á hvorri.
4. Vesti skal vera úr sama efni og jakki I með fjórum vösum, hneppt með einfaldri röð hinna minni einkennishnappa, 6 að tölu. Það skal vera slétt og óstungið. Axlastykki skulu vera þannig að hægt sé að fella þau undir axlarsprota á skyrtu.
5. Buxur skulu vera úr sama efni og jakki I, síðar, án uppábrota, með fjórum vösum. Pils skulu vera úr sama efni.
6. Jakki II (blússa) skal vera úr svörtu vindþéttu og vatnsfælnu efni (tex) af vandaðri gerð og skal hann ná vel niður fyrir mitti. Jakkinn skal lokast að framan með sterkum rennilás og stykki falla yfir rennilásinn og hneppast með 4 stórum einkennishnöppum. Jakkinn skal vera með kraga, tveimur ytri brjóstvösum með litlum einkennishnappi og tveimur innri vösum. Jakkinn skal vera fóðraður með stroff í ermum og leðurbryddingar fremst á ermum.
Axlarsprotar, klæddir sama efni og er í jakkanum skulu saumaðir við axlarbrún, en hnepptir á tölu nær kraga eða festir með smellu.
Endurskinsborði, 2,5 cm breiður, skal vera neðst á jakkanum á milli fellinga að aftan og undir vösum að framan. Einnig skal vera endurskinsborði neðan við kraga,
2,5 x 4 cm breiður. Fremst á ermunum skulu vera endurskinsborðar, 1,5 cm breiðir.
7. Skyrta skal vera hvít með venjulegum kraga og á hana saumaðir axlarsprotar með tilheyrandi einkennismerkjum. Á skyrtunni skulu vera tveir brjóstvasar með loki sem hneppist með litlum einkennishnappi. Armmerki skal vera á vinstri ermi 7 cm neðan við axlarsaum.
8. Peysa skal vera svört með V-hálsmáli og notuð undir jakka eða yfirhöfn. Á vinstri ermi hennar skal vera armmerki 7 cm neðan við axlarsaum.
9. Kuldaúlpa skal vera úr svörtu vindþéttu og vatnsfælnu efni (tex) af vandaðri gerð, og aðeins síðari en einkennisjakki I. Úlpan skal lokast að framan með sterkum rennilás niður í mitti og stykki falla yfir rennilásinn og hneppist með 6 stórum einkennishnöppum eða -smellum. Snúra skal vera um mitti innan á úlpunni og smellt teygjubelti í fóðri til að herpa hana saman. Hún skal vera með hettu sem fella má inn í kragann og útskiptanlegu sjálfstæðu fóðri úr hlýju efni af viðurkenndri tegund. Utan á úlpunni skulu vera tveir brjóstvasar með loki, sem á sé einn lítill einkennishnappur, og tveir hliðarvasar með loki, sem á sé einn stór einkennishnappur eða -smella, en lokist með rennilás.
Axlarsprotar, klæddir sama efni og er í úlpunni, skulu saumaðir við axlarbrúnir og festir nær kraga með lítilli tölu eða smellu. Með úlpunni skal fást laus hetta, sem festist við úlpuna með smellum.
Endurskinsborði, 2,5 cm breiður, skal koma neðst á fald úlpunnar og ennfremur 1,5 cm breiður borði fremst á ermar, og skulu borðarnir ná allan hringinn.
Buxur við kuldaúlpu skulu vera úr sama efni og kuldaúlpan. Þær skulu vera með axlaböndum útskiptanlegu sjálfstæðu fóðri, og ná upp á brjóst og bak. Endurskinsborðar, 2 cm breiðir, fylgi báðum hliðarsaumum alla leið.
Einkennishnappar tollvarða skulu vera kringlóttir, gylltir með upphleyptum bókstafnum T og íslenska fánann felldan yfir legg bókstafsins. Hnapparnir skulu vera af tveimur stærðum, þeir stærri 24 mm í þvermál og þeir minni 16 mm í þvermál.
Annar einkennisfatnaður tollvarða skal vera:
1. Tollverðir skulu vera í svörtum sokkum ef þeir eru í lágum skóm.
2. Götuskór og kuldaskór skulu vera svartir.
3. Derhúfa úr svörtu efni, lokuð að aftan, með merki sömu gerðar og armmerkið en hlutfallslega helmingi minna.
4. Hálsbindi skulu vera svört.
5. Treflar skulu vera svartir.
6. Hanskar skulu vera svartir.
Tollvörðum, sem gegna eftirlitsstörfum á stöðum sem eru sérlega óhreinlegir eða þar sem slysahætta er, skal séð fyrir viðeigandi öryggis- og hlífðarfatnaði. Ríkistollstjóri skal setja um úthlutunina nánari reglur og kveða þar á um auðkenni og merkingar fatnaðarins.
3. gr.
Stöðueinkenni tollvarða.
Stöðueinkenni tollvarða skulu vera sem hér segir:
A. Einkennishúfa:
Á húfugjörð deildarstjóra og yfirtollvarða skulu vera tveir gylltir 10 mm borðar. Á húfum aðaldeildarstjóra skal til viðbótar vera ísaumaður gylltur laufborði á skyggninu, 5 cm breiður.
B. Stöðueinkenni á jakkaermum jakka I:
1. Á jakka deildarstjóra skal vera einn 10 mm breiður gylltur borði á hvorri jakkaermi ofan við ermahnappa og ná milli ermasauma.
2. Á jakka aðaldeildarstjóra skulu vera tveir 10 mm breiðir gylltir borðar á hvorri jakkaermi ofan við ermahnappa, með 5 mm millibili og ná milli ermasauma.
C. Stöðueinkenni á axlarsprotum jakka I, jakka II, úlpu og skyrtu:
Stoppaðar smeygjur með einkennum skulu dregnar upp á axlarsprota á einkennisfatnaði tollvarða. Einkennin eru gylltir borðar saumaðir á smeygjurnar að ofanverðu, á hvorum jaðri, ytri jaðri (nær axlarbrún) og innri jaðri (nær hálsmáli). Borðarnir skulu vera 3 mm og 6 mm á breidd. Einkenni skulu vera sem hér segir:
1. Tollvörður: Einn 3 mm borði á hvorum jaðri.
2. Tollfulltrúi: Einn 3 mm borði á ytri jaðri og einn 6 mm á innri jaðri.
3. Yfirtollvörður: Einn 3 mm borði á ytri jaðri og tveir 6 mm á innri jaðri.
4. Deildarstjóri: Einn 3 mm borði á ytri jaðri og tveir 6 mm á innri jaðri og á milli þeirra ein gyllt fimm arma stjarna.
5. Aðaldeildarstjóri: Tveir 3 mm borðar á ytri jaðri og tveir 6 mm á innri jaðri og á milli þeirra tvær fimm arma stjörnur.
D. Stöðueinkenni á jakkaboðungi á jakka I:
Boðungamerki skal vera gyllt T stansað úr gylltum málmi, u.þ.b. 2 cm að stærð. Boðungamerkið skal borið af yfirtollvörðum, deildarstjórum og aðaldeildarstjórum.
E. Armmerki á jakka II, kuldaúlpu og skyrtu:
Armmerki skal vera skjaldlaga úr svörtu klæðisefni 7,5 cm á lengd og 6 cm á breidd. Tollmerkið skal vera ísaumað gyllt T með íslenska fánanum á miðjum legg. Yst á merkinu allan hringinn skal vera ísaumuð gyllt rönd. Fyrir ofan merkið skal vera ísaumað með gylltu nafnið Tollgæslan.
Stöðueinkenni tollvarða skulu vera eins og fram kemur í fylgiskjali I.
4. gr.
Úthlutun og meðferð einkennisfatnaðar.
Tollverðir í fullu starfi skulu fá afhentan ókeypis einkennisfatnað samkvæmt úthlutunartöflu í fylgiskjali II. Þó skulu tollverðir sem eru að hefja störf fá afhenta eina samstæðu einkennisfatnaðar sem um ræðir í fylgiskjali II. Ríkistollstjóri getur takmarkað úthlutun einkennisfatnaðar við tiltekinn einkennisfatnað þegar um tímabundna ráðningu tollgæslumanns er að ræða t.d. vegna sumarafleysinga.
Úthlutun til tollvarðar, sem fær fæðingarorlof, fellur niður þar til fæðingarorlofi lýkur. Tollvörður skal samkvæmt ákvörðun tollstjóra eiga þess kost að fá skokk og síðbuxur, sérsaumað, sér að kostnaðarlausu meðan hún gegnir störfum sínum á meðgöngutíma.
Tollverðir skulu klæðast einkennisfatnaði við störf sín. Tollstjóri eða ríkistollstjóri geta þó að ósk tollvarðar fallið frá kröfu um að hann klæðist búningi. Meðan sú ákvörðun gildir fellur úthlutun einkennisfatnaðar niður. Tollstjóri getur ákveðið að starfsmenn þessir skuli í staðinn hafa í sínum vörslum tollmerki, sbr. 5. gr., eða bera í barmi skilríki með mynd, nafni og stöðuheiti viðkomandi. Ríkistollstjóri ákveður gerð tollmerkja og skilríkja og reglur sem um þau skulu gilda.
Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar greiða hlutaðeigandi tollverðir sjálfir. Þeir skulu þó fá greiddar tvær fatahreinsanir á ári vegna einkennisfatnaðar. Meiriháttar viðgerðir og tjón á fatnaði er heimilt að bæta tollgæslumönnum.
Þegar tollgæslumaður lætur af störfum, skal hann skila þeim einkennisfatnaði sem hann hefur fengið síðast afhentan. Ennfremur skal hann skila húfum, búnaði, einkennum og tollskírteini hafi hann fengið slíkt skírteini. Einkennisfatnað, sem tollvörður hefur fengið afhentan, og hann hefur notað í meira en tvö ár, skal telja eign hans að þeim tíma liðnum en skila skal hann öllum einkennum og tollskírteini. Tollgæslumönnum er óheimilt að nota eða afhenda fatnaðinn, búnað, einkenni eða tollskilríki utan tollgæslustarfsins.
Ríkistollstjóri skal útvega einkennisfatnað og annan búnað handa tollgæslumönnum í öllum tollumdæmum og hafa almennt eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Halda skal skrá yfir afhenta einkennisbúninga, merki og skilríki, og skulu tollgæslumenn gæta þess að þau lendi ekki í höndum óviðkomandi. Einkennisfatnaður og hreinsun hans skal á hverjum tíma keyptur hjá þeim sem Ríkiskaup eða ríkistollstjóri vísar á.
5. gr.
Tollmerki og tollskilríki.
Tollmerki Íslands er einkennismerki sem ber skjaldarmerki ríkisins og áletrunina ,,Tollmerki Íslands''.
Ríkistollstjóri ákveður hvaða tollstarfsmenn skuli hafa sérstök tollskilríki. Skilríkin skulu undirrituð af ríkistollstjóra. Þau skulu vera í leðurveski þar sem fram komi nafn, staða og ljósmynd af viðkomandi tollverði. Veski þessi skulu þannig útbúin að í öðrum vasa þeirra skal fest Tollmerki Íslands en í hinn skal unnt að smeygja korti með nafni og mynd viðkomandi tollstarfsmanns.
6. gr.
Gildistökuákvæði.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 188/1983, um sama efni. Gera skal nauðsynlegar breytingar á jakka I sem úthlutað hefur verið fyrir gildistöku reglugerðar þessarar til þess að samræmis gæti í stöðueinkennum, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar.
Fjármálaráðuneytinu, 13. febrúar 1997.
F. h. r.
Magnús Pétursson.
Bergþór Magnússon.
Fylgiskjal I
Stöðueinkenni tollvarða:
(sjá tillögu á bls. 7)
Fylgiskjal þetta er í Gutenberg
Fylgiskjal II
Úthlutun einkennisfatnaðar:
1. |
Jakki I |
|
einn þriðja hvert ár |
|
|
|
|
2. |
Jakki II |
|
einn jakki tvisvar í röð á þriggja ára fresti |
||||
3. |
Kuldaúlpa og buxur |
|
ein fjórða hvert ár |
|
|
|
|
4. |
Buxur |
|
þrjár á ári |
|
|
|
|
5. |
Vesti |
|
eitt fjórða hvert ár |
|
|
|
|
6. |
Peysa |
|
ein annað hvert ár |
|
|
|
|
7. |
Skyrta |
|
fernar á ári |
|
|
|
|
8. |
Hálsbindi |
|
eitt á ári |
|
|
|
|
9. |
Einkennishúfa ásamt aukakolli |
|
ein þriðja hvert ár |
|
|
|
|
10. |
Kuldahúfa |
|
ein fjórða hvert ár |
|
|
|
|
11. |
Götuskór |
|
einir á hverju ári |
|
|
|
|
12. |
Kuldaskór |
|
einir á hverju ári |
|
|
|
|
13. |
Trefill |
|
einn þriðja hvert ár |
|
|
|
|
14. |
Leðurhanskar |
|
einir á ári |
|
|
|
|
15. |
Sokkar |
|
fern pör á ári |
|
|
|
|
16. |
Derhúfa |
|
ein tvisvar í röð á þriggja ára fresti |
Eftirfarandi tafla skýrir enn frekar hvernig úthlutunin verður í framkvæmd. *Hafa ber í huga að sé merkt við með stjörnu, þá er verið að úthluta viðkomandi fatnaði í fyrsta sinn árið 1997.
Úthlutunarár: |
1997 |
1998 |
1999 |
2000 |
2001 |
2002 |
2003 |
2004 |
|
1. |
Jakki I |
|
|
1 |
|
|
1 |
|
|
2. |
Jakki II |
1* |
1 |
|
1 |
1 |
|
1 |
1 |
3. |
Kuldaúlpa og buxur |
1* |
|
|
|
1 |
|
|
|
4. |
Buxur |
3 |
3 |
3 |
3 |
3 |
3 |
3 |
3 |
5. |
Vesti |
1 |
|
|
1 |
|
|
1 |
|
6. |
Peysa |
1* |
|
1 |
|
1 |
|
1 |
|
7. |
Skyrta |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
8. |
Hálsbindi |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
9. |
Einkennishúfa ásamt aukakolli |
|
|
1 |
|
|
1 |
|
|
10. |
Kuldahúfa |
1 |
|
|
|
1 |
|
|
|
11. |
Götuskór |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
12. |
Kuldaskór |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
13. |
Trefill |
1* |
|
|
1 |
|
|
1 |
|
14. |
Leðurhanskar |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
1 |
15. |
Sokkar |
4* |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
4 |
16. |
Derhúfa |
1 |
1 |
|
1 |
1 |
|
1 |
1 |