Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

188/1991

Reglugerð um Einkaleyfastofu.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Einkaleyfastofan er ríkisstofnun undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Vernd þeirra réttinda er stofnunin fjallar um tekur til íslenskrar lögsögu. Stofnunin hefur aðsetur í Reykjavík.

2. gr.

Hlutverk Einkaleyfastofu er einkum:

  1. að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
  2. að veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði.
  3. að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

3. gr.

Tekjur stofnunarinnar eru gjöld samkvæmt ákvæðum reglugerða sem settar eru á grundvelli laga um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og önnur hliðstæð þjónustugjöld.

4. gr.

Iðnaðarráðherra skipar forstjóra Einkaleyfastofu og er hann jafnframt vörumerkjaskrárritari.

Forstjóri stýrir stofnuninni, ræður starfslið og ber ábyrgð á fjárreiðum hennar.

5. gr.

Stofnunin gefur m.a. út:

  1. rit fyrir lögboðnar birtingar og tilkynningar varðandi vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar,
  2. framlagðar einkaleyfisumsóknir og skráð einkaleyfi,
  3. ársyfirlit um skráð hugverkaréttindi og breytingar á þeim,
  4. leiðbeiningar um frágang umsókna á hverju verndarsviði.

Stofnunin gerir ársyfirlit til Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) varðandi hugverkaréttindi á sviði iðnaðar.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. og 69. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi og 12. og 46. gr. laga nr. 47/1968 um vörumerki, sbr. lög nr. 31/1984.

Reglugerðin öðlast gildi 1. júlí 1991.

Iðnaðarráðuneytið, 24. apríl 1991.

Jón Sigurðsson.

Björn Friðfinnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.