Leita
Hreinsa Um leit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

187/2005

Reglugerð um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eingreiðslu örorkubóta til slysatryggðra einstaklinga samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.


2. gr.
Orkutap.

Ef orkutap er minna en 50% er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilda lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglugerð þessari.

Örorkubætur greiðast ekki ef orkutapið er metið minna en 10%. Hafi hinn slasaði hlotið örorku vegna tveggja eða fleiri slysa sem bótaskyld eru samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga er heimilt að greiða bætur ef samanlögð örorka vegna slysanna er 10% eða meiri. Sé samanlögð örorka 50% eða meiri greiðist örorkulífeyrir samkvæmt ákvæðum 1.-4. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.


3. gr.
Tímabil.

Bætur reiknast fyrir tímabilið frá því greiðslu dagpeninga lýkur, eða samkvæmt nánari tilgreiningu í örorkumati, og fram til 67 ára aldurs hins slasaða. Hafi slys ekki verið tilkynnt innan tilkynningarfrests og réttur til dagpeninga er fyrndur skal miða upphaf bóta við þann tíma þegar greiðslu dagpeninga hefði verið lokið ef slys hefði verið tilkynnt innan frests.


4. gr.
Reiknireglur.

Við núvirðisútreikning eingreiðslu samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skal miða við dánartíðni áranna 1996-2000 og 4,5% vexti á ári. Miða skal við tryggingaaldur hins slasaða (aldur í heilum árum). Við útreikning vaxta skulu taldir 30 dagar í hverjum mánuði og 360 dagar í ári. Vextir skulu höfuðstólsfærðir á tólf mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.


5. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Reglugerðin gildir um slys sem eiga sér stað 1. janúar 2005 eða síðar. Frá gildistöku þessarar reglugerðar falla brott reglur nr. 551/2002 um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 4. febrúar 2005.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica