Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

186/1989

Reglugerð um hitaveitu Akureyrar

I. KAFLI Rekstrarform.

1. gr.

Hitaveita Akureyrar er fyrirtæki, sem Akureyrarbær á og starfrækir sem sjálfstætt fyrirtæki, hér eftir nefnt hitaveitan.

2. gr.

Tilgangur hitaveitunnar er að afla og veita varmaorku um orkuveitusvæði sitt og reka aðra þá starfsemi sem tengist orkuvinnslunni og orkusölunni. Varmaorkunni er miðlað í formi heits vatns.

3. gr.

Orkuveitusvæði hitaveitunnar er lögsagnarumdæmi Akureyrarbæjar og nágrannabyggðar eftir nánara samkomulagi bæjarstjórnar Akureyrar og viðkomandi sveitastjórna og sem ráðherra samþykkir samkvæmt orkulögum.

Hitaveitan hefir einkarétt til dreifingar og sölu varmaorku til notenda á orkuveitusvæði sínu.

4. gr.

Stjórn veitustofnana fer með stjórn Hitaveitu Akureyrar í umboði bæjarstjórnar.

5. gr.

Stjórn veitustofnana er skipuð 5 mönnum og 5 til vara kosnum af bæjarstjórn. Kjörtímabil hennar skal vera sama og bæjarstjórnar. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meirihluti hennar sækir fund. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

6. gr.

Helstu verkefni stjórnar veitustofnana gagnvart Hitaveitu Akureyrar eru:

  1. Að ákveða framkvæmd allra varmaorkumála á orkusvæði hitaveitunnar í samræmi við samþykktir bæjarstjórnar og ákvæði sveitarstjórnarlaga.
  2. Semja gjaldskrá fyrir veituna og leggja hana fyrir bæjarstjórn.
  3. Undirbúa samninga um orkukaup og orkusölu.
  4. Semja fjárhagsáætlanir og leggja fyrir bæjarstjórn.
  5. Gera tillögur um ráðningu fastra starfsmanna hitaveitunnar til bæjarstjórnar.
  6. Gefa bæjarstjórn þær skýrslur sem óskað er eftir.
  7. Semja nánari reglur um einstök framkvæmdaatriði þessarar reglugerðar eftir því sem þörf gerist og leggja fyrir bæjarstjórn.

7. gr.

Bæjarstjórn ræður framkvæmdastjóra hitaveitunnar að fengnum tillögum stjórnar veitustofnana.

Framkvæmdastjóri annast allan daglegan rekstur hennar og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum, sem veitustjórn gefur.

Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til veitunnar eftir þörfum umfram hina föstu starfsmenn.

Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar veitustofnana og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

8. gr.

Hitaveitan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Reikningsár hitaveitunnar er almanaksárið og skulu reikningar hennar fylgja reikningum bæjarsjóðs Akureyrar og vera endurskoðaðir af endurskoðendum þeirra.

Tekjum hitaveitunnar skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði þannig að tryggður sé öruggur rekstur veitunnar svo og til greiðslu afborgana og vaxta af skuldum hennar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin að bæjarstjórn að fengnum tillögum stjórnar veitustofnana.

II. KAFLI Almenn ákvæði.

9. gr.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu sem tengist veitukerfi hitaveitunnar nefnist húseigandi.

Kaupandi varmaorku er sá aðili sem skráður er fyrir mælagrind og ber hann ábyrgð á greiðslum varmaorkugjalda.

10. gr.

Varmaorkan er afhent um veitukerfi hitaveitunnar samkvæmt gildandi reglugerð og gjaldskrá.

Hitaveitunni er heimilt að semja sérstaklega um sölu varmaorku utan almennra söluskilmála. Slíkir samningar skulu háðir samþykki bæjarstjórnar Akureyrar. Hitaveituvatn sem runnið hefur í gegnum hitunarkerfi húss (bakrennsli) er eign

hitaveitunnar. Hitaveitan getur heimilað notkun þess til upphitunar í gróðurhúsum, bílastæðum og öðrum þeim stöðum sem ekki þurfa ákveðið hitastig. Frágangur lagna og búnaður vegna slíkrar notkunar skal vera samkvæmt fyrirmælum hitaveitunnar. Hitaveitan getur afturkallað slík leyfi. Hitaveitunni er heimil gjaldtaka fyrir þessa notkun samkvæmt gjaldskrá.

Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur og/eða annan slíkan búnað við bakrennslið, nema að áður fengnu samþykki hitaveitunnar.

11. gr.

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni orkumiðilsins eru án ábyrgðar hitaveitunnar. Um breytingar sem stafa af öðrum ástæðum, skal hitaveitan tilkynna notendum með hæfilegum fyrirvara.

12. gr.

Kaupendum er óheimil endursala varmaorkunnar án samþykkis hitaveitunnar.

III. KAFLI Veitukerfið.

13. gr.

Hitaveitan lætur leggja og á allar lagnir veitukerfisins, aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss að og með mælagrindum ásamt tilheyrandi búnaði og annast rekstur og viðhald hans.

14. gr.

Húseiganda innan lögsagnarumdæmis Akureyrarbæjar þar sem veitukerfi hitaveitunnar liggur er skylt að láta tengja hús sitt við hitaveituna.

15. gr.

Hitaveitan annast lagningu eigin veitukerfis og tenginu við húsveitu kaupanda. Við slíka framkvæmd skal hitaveitan halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skal hitaveitan færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið. Hitaveitan ákveður staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi á ekki kröfu um sérstaka greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar veitukerfisins.

16. gr.

Hitaveitan kostar lagningu eigin veitukerfis, en húseigandi greiðir stofn- og mælagrindargjald samkvæmt gjaldskrá.

17. gr.

Kostnað við breytingar á húsveitu eða hitunarkerfi húss vegna tengingar við hitaveituna skal húseigandi/kaupandi annast og kosta.

Húseigandi/kaupandi kostar breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi hitaveitunnar.

18. gr.

Hitaveitan hefur rétt til aðgangs að húsnæði því, sem veitukerfi hennar liggur um til viðhalds, eftirlits og breytinga.

Ef inntak hitaveitu og mælagrind eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna.

IV. KAFLI Húsveitur og tenging þeirra við hitaveituna.

19. gr.

Áður en hafist er handa um lögn nýrra hitunarkerfa skal sækja um orkukaupin til hitaveitunnar á þar til gerðum eyðublöðum sem skrifstofa hennar lætur í té. Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að annast. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingareftirliti bæjarins.

Áhleypingu (tengingu) skal sækja um til hitaveitunnar með minnst fjögurra daga fyrirvara.

Engir aðrir en umboðsmenn hitaveitunnar mega hleypa vatni úr kerfi veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu.

Hitaveitunni er heimilt að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg kjallara eða fyrstu hæðar ef húsið er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir mælagrindur og annað tilheyrandi tengingu við veituna. Þar skal vera niðurfall í gólfi og það húsrými vera aðgengilegt starfsmönnum hitaveitu.

20. gr.

Teikningar skulu uppfylla almennar reglur um hönnun heitavatnslaga, lofthitunarkerfa og loftræsikerfa, reglur byggingasamþykktar og byggingaskilmála.

Bæjarstjórn getur falið hitaveitunni umsjón og eftirlit allra mála sem snerta hitalagnir.

21. gr.

Hitaveitan skal hafa aðgang að pípulögnum bæði innanhúss og utan. Húseiganda/ kaupanda er skylt að láta í té upplýsingar um hitun hússins og heitt kranavatn sé þess óskað. Óheimilt er að hylja mælagrind á þann hátt að það valdi erfiðleikum við viðhald og viðgerðir og eigi má setja hillur eða annað ofan við mæli þannig að það hindri eðlilegan aflestur.

Komi í ljós að verk sé eigi framkvæmt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, reglugerð um hitalagnir, eða öðrum reglum er settar kunna að verða, getur hitaveitan stöðvað verkið þar til úr því verður bætt.

Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

22. gr.

Sé húsveita tengd veitukerfi hitaveitunnar í heimildarleysi, getur hitaveitan aftengt húsveituna fyrirvaralaust.

23. gr.

Húseigandi/kaupandi ber ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss sem eru í eigu hitaveitunnar.

Húseiganda/kaupanda ber að tilkynna tafarlaust til hitaveitunnar ef vart verður bilunar í búnaði og tækjum hennar.

Húseigandi/kaupandi greiðir kostnað við viðgerð eða endurnýjun búnaðar sem verður fyrir skemmdum af völdum notanda.

V. KAFLI Skilmálar fyrir orkusölu.

24. gr.

Upphaf og lok samningstíma um orkukaup eru við skráningu tilkynninga hjá hitaveitunni þess efnis.

25. gr.

Skilyrði varmaorkusölunnar er að í gildi sé samþykkt umsókn um tenginu viðeigandi húsveitu við veitukerfi hitaveitunnar. Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða á veitunni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda veitunnar.

Þurfi að takmarka notkun varmaorku um lengri eða skemmri tíma ákveður hitaveitan hvar og hvernig hún skuli takmörkuð. Takmörkunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalds (fast aflgjalds eða mælagjalds).

Stöðvun á rekstri veitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds eða tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er og koma á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem verða má.

26. gr.

Hitaveitan ákveður stærð og gerð mæla sem notaðir eru í mælagrind.

Ef rofið er innsigli á búnaði hitaveitunnar varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

Ef kaupandi óskar að mælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni þar um til hitaveitunnar. Komi í ljós við þá athugun að frávik sé 5% eða minna, er heimilt að gera kaupanda að greiða mælaálestrargjald. Sé frávik meira skal hitaveitan greiða kostnað við prófunina og leiðrétta reikning kaupanda í samræmi við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengra tímabil en tvo mánuði nema kaupandi eða hitaveitan, eftir því sem við á, geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða, þó lengst fjögur ár.

Kaupendur sem hafa hemil eiga ekki rétt á endurgreiðslu á föstu aflgjaldi þótt þeir hafi ekki getað náð því afli sem fasta greiðslan er miðuð við, en hitaveitunni er skylt að leiðrétta skekkju hemilsins svo fljótt sem við verður komið.

Hitaveitunni er ekki skylt að greiða bætur vegna takmörkunar á afhendingu varmaorku eða lækkunar á hitastigi.

27. gr.

Ef gjaldi fyrir varmaorkukaupin er skipt í fastagjald (fast aflgjald eða mælagjald) og orkugjald, skal kaupandi greiða fastagjaldið þrátt fyrir stöðvun á orkuafhendingu vegna vanskila eða annarra vanefnda kaupanda þar til orkukaupsamningur er úr gildi fallinn fyrir uppsögn.

28. gr.

Kaupandi skal greiða hitaveitunni gjald fyrir varmaorkuna samkvæmt gildandi gjaldskrá. Við breytingar á gjaldskrá skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili, sem reikningurinn tekur til.

Hitaveitan má byggja orkureikninga á áætlun um varmaorkunotkun kaupanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun.

Þar til vatnsmælir hefur verið settur upp, eða ef vatnsmælir bilar reiknar hitaveitan varmaorkunotkun (vatnsnotkun) með hliðsjón af hitaþörf hússins. Reikningar sem byggjast á staðreyndri varmaorkunotkun nefnast álestrarreikningur, en reikningar sem byggjast á áætlaðri orkunotkun nefnast áætlunarreikningar.

Raunverulega varmaorkunotkun skal staðreyna eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Þegar varmaorkunotkun hefir verið staðreynd, skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar.

Kaupandi getur þó jafnan gegn greiðslu mælaálestrargjalds krafist aukaálestrar og uppgjörs. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um varmaorkunotkun vegna nýrra forsendna.

Reikninga skal senda kaupanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur. Gjalddagi reikninga er útgáfudagur. Sé reikningur eigi greiddur innan tilgreinds frests er fram kemur á reikningi, reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Einnig skal tilgreina greiðslustað. Útsending varmaorkureikninga skal fara fram eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

29. gr.

Hitaveitan hefur rétt til að stöðva afhendingu varmaorku til húsveitu (mælis) kaupanda, sem greiðir ekki áætlunar- eða álestrarreikning eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari.

Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa að undangenginni skriflegri aðvörun sem sendist kaupanda með fimm daga fyrirvara. Hitaveitan ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar.

Hitaveitan hefur rétt til þess að krefja kaupanda um greiðslu lokunargjalds samkvæmt gjaldskrá hafi komið til stöðvunar orkuafhendingar af ástæðum sem um getur í 1. mgr. Heimilt er hitaveitunni að krefjast greiðslu þessarar áður en orkuafhending er hafin á ný. Þó ekki komi til stöðvunar orkuafhendingar er hitaveitunni heimilt að krefja kaupanda um lokunargjald vegna undirbúnings að stöðvun.

Enginn má af- eða endurtengja hitaveituna nema þeir sem hitaveitan hefir veitt umboð til þess. Sé brotið gegn þessu skal farið með það sem óleyfilega orkunotkun.

Verði uppvíst að varmaorka hafi verið notuð á annan hátt en um er samið, að raskað hafi verið mælitækjum eða tengingum breytt þannig að ekki komi fram öll notkun skal hitaveitan áætla þá varmaorku sem notuð var óleyfilega.

30. gr.

Nú vanrækir húseigandi/kaupandi að vinna verk sem honum ber samkvæmt reglugerð þessari, eða verk er ekki unnið á viðunandi hátt, er hitaveitunni þá heimilt að láta vinna það sem þörf krefur á kostnað hans.

31. gr.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá má innheimta með lögtaki.

32. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.

33. gr.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

34. gr.

Reglugerð þessi, sem samþykkt er af bæjarstjórn Akureyrar, er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967 til að öðlast gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 256, 26. júní 1985 um Hitaveitu Akureyrar.

Iðnaðarráðuneytið, 6. aprí11989.

Jón Sigurðsson.

Páll Flygenring.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.