Fjármálaráðuneyti

247/1999

Reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað tollgæslunnar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um einkennisbúninga, merki og búnað tollgæslunnar.

1. gr.

Klæðaburður.

Tollverðir skulu ganga í einkennisbúningum við störf sín. Tollvörðum er heimilt að vera án einkennisjakka og einkennishúfu við störf innandyra og við akstur tollbifreiða. Jafnframt er tollvörðum heimilt að vera án einkennisjakka við störf utandyra á góðviðrisdögum. Þegar tollverðir sinna sérstökum skammtímaverkefnum, mega þeir, í samráði við tollstjóra, vera óeinkennisklæddir.

Einkennisklæddur tollvörður skal ganga með einkennishúfu utanhúss. Tollverðir, sem kenna við Tollskóla ríkisins, skulu vera einkennisklæddir við kennslu.

Ríkistollstjóri og tollstjórar geta ákveðið að tollverðir séu óeinkennisklæddir við störf, enda sinni þeir þannig verkefnum, að ekki sé talið nauðsynlegt eða æskilegt að þeir klæðist einkennisfatnaði. Þeir skulu koma einkennisklæddir til starfa þegar ríkistollstjóri eða tollstjóri ákveða.

Í heiðursverði skulu tollverðir klæðast einkennisfötum 1, hvítri skyrtu, hvítum hönskum og svörtum einkennisskóm. Heimilt er að klæðast regnfrakkanum sem yfirhöfn.

2. gr.

Einkennisföt 1.

Einkennishúfa 1 skal vera með 5 cm breiðri uppistandandi gjörð, 6 cm reisn að framan og 4 cm að aftan, kringlóttum hvítum kolli, svörtu gljáleðursskyggni og 14 mm hökuól, sem fest sé á gjörðina með tveimur litlum einkennishnöppum. Á gjörð skal vera gylltur borði, 10 mm breiður og á honum að framan ofið hringmerki (kokarde) í íslensku fánalitunum. Á reisn að framan og niður á gjörðina skal vera á 5 cm háum skjaldlaga grunni úr svörtu klæði tollmerki úr gylltum málmi sem þannig skal gert: Bókstafurinn T, 4 cm hár og skjaldarmerki Íslands, 2,5 cm hátt, fellt yfir legg stafsins. Einkennishúfa 1 skal borin með jakka 1 og regnfrakka.

Jakki 1 skal vera úr svörtu efni með útáliggjandi hornum og kraga, tvíhnepptur með fjórum einkennishnöppum af stærri gerð og axlarsprotum úr mjúku plastefni. Lengd axlarsprota skal vera 14 til 15 cm, breidd við ermasaum 5 cm en 4 cm við kraga. Sá endi sprotans sem er nær kraga skal sniðinn í odd. Axlarsprotar skulu klæddir sama efni og er í jakkanum, vera með gylltum borðum og festir með einkennishnappi. Á hvorri ermi, fremst meðfram ermasaumi, skulu vera 3 einkennishnappar af minni gerð, sá neðsti 2,5 til 3 cm frá brún. Jakkinn skal vera með tveimur innri vösum með loki og brjóstvasa vinstra megin. Þar sem það á við skal neðsti einkennisborði á jakkaermum vera 8 cm frá brún.

Buxur 1 skulu vera úr sama efni og jakki 1, fóðraðar með lipru, slitsterku fóðri. Þær skulu vera síðar, án uppábrota, með tveimur skáliggjandi hliðarvösum og tveimur vösum að aftan. Við buxurnar skal nota svart leðurbelti með einfaldri sylgju eða svört axlabönd.

Regnfrakki skal vera úr vatnsvörðu, svörtu öndunarefni, heilfóðraður með fóðri sem hentar ytra byrðinu. Saumar skulu límdir að innan. Brjóstvasi skal vera vinstra megin í fóðri. Frakkinn skal vera einhnepptur að framan upp í háls með 5 stórum einkennishnöppum og einföldum kraga með standi. Fyrir neðan mitti á framstykkjum skulu vera innanliggjandi vasar með loki sem sitji þvert á framstykkjum. Ermar skulu vera ísettar tvísaumsermar. Á öxlum skulu vera sprotar, 4,5 cm breiðir og 14 til 15 cm á lengd, klæddir sama efni og er í frakkanum, saumaðir við axlarbrún og festir niður með litlum einkennishnappi nær kraga. Smeygar með tilheyrandi stöðueinkennum skulu dregnir upp á sprotana.

3. gr.

Einkennisföt 2.

Einkennishúfa 2 skal vera úr svörtu, sterku efni með hörðu deri, klæddu sama efni. Hún skal fóðruð með hentugu efni. Framstykki húfunnar skal vera úr stífu efni og á því einkennismerki fyrir miðju. Á mörkum ders og framstykkis skal vera borði, festur til hliðar við framstykkið með litlum einkennishnöppum. Innan í húfunni skulu vera eyrnahlífar sem hægt sé að taka niður. Þær skulu vera úr mjúku, hlýju efni, sem sé bryddað með teygju þannig að þær falli vel yfir eyrun.

Við einkennisföt 2 skal eftir aðstæðum nota einkennishúfu 2 eða 3. Tollstjóri getur heimilað við ákveðnar aðstæður að notuð sé einkennishúfa 1 með einkennisfötum 2.

Jakki 2 skal vera úr svörtu, vatnsvörðu efni af vandaðri gerð og skal hann ná vel niður fyrir mitti. Hann skal lokast að framan með sterkum rennilás sem vindhlíf fellur yfir og er hneppt með 4 stórum einkennishnöppum. Jakkinn skal vera með kraga með standi og skulu standurinn og undirkraginn hafa ástungið límfóður. Á framstykkjum jakkans skulu vera tveir brjóstvasar með fellingu og loki sem hneppist með lítilli einkennissmellu. Vasi fyrir handtalstöð skal vera innanliggjandi með loki er lokist með riflás. Ermabrúnir skulu vera bryddaðar með leðri. Innan í ermum skulu vera vindhlífar úr ytrabyrði, saumaðar við fóður og prjónað stroff framan á vindhlíf.

Á báðum öxlum skulu vera axlarsprotar úr sama efni og er í jakkanum, 4,5 cm breiðir og 14 til 15 cm langir, sniðnir í odd, smelltir upp á öxl með einkennissmellu af minni gerð. Smeygar með tilheyrandi stöðueinkennum skulu dregnir upp á sprotana. Á miðjum streng skal vera endurskinsborði, 5 cm breiður og 30 til 35 cm langur að aftan og 5 cm breiður og 20 til 24 cm langur hvorum megin að framan. Á ermum skal vera 5 cm breiður endurskinsborði allan hringinn, 8 cm frá brún. Endurskinsborða á ermum skal sleppt þegar gylltir borðar koma á ermar sem stöðueinkenni. Á baki jakkans skal standa orðið TOLLGÆSLAN, stafir af stafagerðinni Arial, 5 cm á hæð, gerðir úr endurskini. Armmerki skulu vera á báðum ermum.

Buxur 2 skulu vera úr svörtu, slitsterku efni sem líkustu efni í jakka 2. Þær skulu vera síðar, án uppábrota með tveimur skáliggjandi hliðarvösum við streng og tveimur vösum að aftan. Á skálmum skal vera vasi með fellingu og renningi sem saumaður er hornrétt á hliðarsaum. Við buxurnar skal nota svart leðurbelti með einfaldri sylgju eða svört axlabönd.

4. gr.

Einkennisföt 3.

Einkennishúfa 3 (kuldahúfa) skal vera úr svörtu, vönduðu efni. Framan á húfunni skal vera einkennismerki fyrir miðju.

Við einkennisföt 3 skal eftir aðstæðum nota einkennishúfu 2 eða 3, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. Tollstjóri getur heimilað við ákveðnar aðstæður að notuð sé einkennishúfa 1 með einkennisfötum 3.

Jakki 3 skal vera úr svörtu, vatnsvörðu öndunarefni og fóðraður með öndunarneti í bol, ermum og hettu. Sídd hans skal vera sem nemur 1/2 líkamshæð mælt í miðju baki frá hálsmáli. Að framan skal hann lokast með tveggja sleða rennilás og tvöföldum vindlista sem lokist með riflás. Á vindlista skulu vera 5 einkennissmellur. Jakkinn skal opnast á báðum hliðum að neðan og lokast með rennilás og riflás. Á jakkanum skal vera fóðruð hetta sem hægt sé að brjóta inn í kraga sem staðið geti uppréttur að hálsi. Hann skal vera með talstöðvarvasa í fóðri vinstra megin, í brjósthæð. Á framstykkjum skulu vera tveir brjóstvasar með fellingu og loki sem lokist með riflás og einkennissmellu. Tveir stórir vasar skulu vera neðan mittis með loki sem festist í hliðarsaum. Opi vasanna skal lokað með rennilás en lokin fest niður með riflás á hornum og einkennissmellu. Ermar skulu dregnar saman neðst með 5 cm ermalíningu sem hafi teygju í helmingnum og riflás á spæl. Endurskinsborði, 5 cm breiður, skal vera neðst á fram- og afturstykki og ná á milli vindlista. Jafnbreiður endurskinsborði skal einnig vera framan á ermum og ná allan hringinn, 8 cm frá efri brún teygju. Endurskinsborðum á ermum skal sleppa þegar gylltir borðar koma á þær sem stöðueinkenni. Axlarsprotar, 4,5 cm breiðir, 14 til 15 cm langir og sniðnir í odd, skulu saumaðir við axlarbrún og festir upp á öxl með einkennissmellu. Á baki jakkans skal standa orðið TOLLGÆSLAN, stafir af stafagerðinni Arial, 5 cm á hæð, gerðir úr endurskini. Armmerki skulu vera á báðum ermum. Undir jakka 3 skal nota flísjakka.

Buxur 3 skulu vera úr sama efni og jakki 3 með styrktarefni á skálmum og hnjám, ná vel upp fyrir mitti að framan og vera með mittisteygju á streng að aftan. Sérstaklega skal sniðið fyrir hnjám með tveimur stykkjum úr sérstyrktu efni. Sama efni skal nota til styrkingar innanfótar á skálmum. Buxurnar skulu vera opnanlegar alla leið á hliðum og lokast með tveggja sleða rennilás með vindhlíf yfir sem lokist með riflás og svörtum smellum. Axlabönd úr teygju skulu tengjast á framstykkjum þannig að afturstykkið sé laust. Buxurnar skulu fóðraðar með öndunarneti niður að snjóhlífum en með ytra byrði þar fyrir neðan. Smeygar fyrir tækjabelti skulu sitja fyrir neðan mittislínu. Tveir endurskinsborðar, 5 cm breiðir með 5 cm bili á milli, skulu vera á skálmum, 20 cm frá brún. Undir buxur 3 skal nota flísbuxur.

5. gr.

Annar einkennisfatnaður og búnaður.

Skyrta skal vera hvít úr lipru, slitsterku efni sem er auðvelt í umhirðu. Hún skal vera með hefðbundnum skyrtukraga, hálf- eða heilerma eftir óskum notanda.

Á báðum öxlum skulu vera samlitir axlarsprotar, 4,5 cm breiðir og 14 til 15 cm langir, sniðnir í odd við kraga og hnepptir nær kraga með tölu. Smeygar með stöðueinkennum skulu dregnir upp á sprotana. Á skyrtu skulu vera tveir brjóstvasar með loki sem hneppist með einkennishnappi en að öðru leyti skulu tölur vera hvítar. Armmerki skulu vera á báðum ermum, 7 cm neðan við axlarsaum. Ef notaðir eru lausir ermahnappar skulu þeir vera einkennishnappar með tollmerkinu.

Ofan við hægri skyrtuvasa, fyrir miðju hans, skal sauma svartan borða, 3 cm á hæð og 12 cm á breidd, þar sem á standi ísaumað með gylltum þræði orðið TOLLGÆSLAN, stafir af stafagerðinni Arial, 11 mm á hæð.

Peysa skal vera prjónuð úr svörtu garni. Á öxlum skulu vera axlarsprotar úr vefnaði, 4,5 cm breiðir og 14 til 15 cm langir, sniðnir í odd, saumaðir við axlarbrún og festir niður með riflás og einkennishnappi eða smellu nær kraga. Stykki úr svörtu, ofnu efni skal koma yfir axlir og ná jafnlangt að aftan og framan. Ofarlega á peysu hægra megin skal sauma svartan borða, 3 cm á hæð og 12 cm á breidd, þar sem á standi ísaumað með gylltum þræði orðið TOLLGÆSLAN, stafir af stafagerðinni Arial, 11 mm á hæð. Smeygar með ísaumuðum stöðueinkennum skulu dregnir upp á sprotana. Á báðum ermum peysunnar skal vera armmerki, 7 cm neðan við axlarsaum.

Hálsbindi skal vera úr svörtu taui með föstum hnút og fest með teygju eða klemmu. Einungis má nota bindisnælu sem úthlutað er með einkennisfatnaði og ber tollmerkið. Bindisnæla skal borin á miðju bindi.

Samfestingur skal vera úr slitsterku, svörtu efni. Á báðum öxlum skulu vera axlarsprotar úr sama efni og samfestingurinn, 4,5 cm á breidd og 15 cm á lengd, sniðnir í odd. Þeir skulu festir niður með einkennissmellu af minni gerð nær öxl. Bolur skal vera með herðastykki og hreyfivíddarföllum í baki sem koma undir herðastykki. Buxur komi sléttar á bol með 4 cm renningi á milli. Rennilás með millistykki skal vera á utanverðum skálmum þannig að víkka megi skálmar neðst. Svartar smellur skulu vera neðst á skálmum til styrktar rennilás. Framan á bol skulu vera tveir brjóstvasar. Aftan á buxum skulu vera tveir vasar, stungnir utan á, með loki sem lokist með riflás. Á báðum hliðum skálmanna, hornrétt á hliðarsauma, skulu sitja vasar með loki sem lokast með riflás. Á hægri ermi fyrir neðan armmerki skal vera vasi, stunginn utan á, með loki sem lokist með riflás á hornum og smellist niður með einkennissmellu af minni gerð. Á samfestingnum skal vera hefðbundinn blússukragi án milliefnis. Að framan lokist samfestingurinn með tveggja sleða rennilás sem hægt sé að opna bæði að ofan og neðan. Rennilásinn skal ganga upp að kraga og vera hulinn efni. Endurskinsborðar, 5 cm breiðir, skulu vera allan hringinn á skálmum, 20 cm frá brún. Á ermum skulu vera jafnbreiðir endurskinsborðar allan hringinn, 8 cm frá brún. Á þeim skulu einnig vera armmerki, 7 cm neðan við axlarsaum. Þvert yfir bak skal standa orðið TOLLGÆSLAN með stafagerðinni Arial, gert úr endurskinsstöfum, 5 cm á hæð.

Strokkur skal vera úr hlýju, slitsterku, svörtu bandi eða sambærilegu flísefni. Hann má bera innan klæða með öðrum fatnaði en jakka 1.

Hvítir hanskar skulu vera úr lipru, hvítu næloni eða bómull, sem auðvelt er að hirða og skulu þeir ná vel upp á úlnlið. Þeir skulu notaðir með jakka 1 og regnfrakka.

Svartir hanskar skulu vera vandaðir og slitsterkir úr svörtu, mjúku leðri, fóðraðir og ná vel upp á úlnlið.

Endurskinsvesti skal vera úr pólyester- teygjuefni. Efnið skal vera neonrautt með svörtum bryddingum úr samsvarandi efni. Framan á vestið, vinstra megin, skal vera áprentað með svörtu letri orðið TOLLGÆSLAN með stafagerðinni Arial, hæð leturs 2,5 cm. Á baki fyrir miðju skal einnig vera áprentað orðið TOLLGÆSLAN með sama letri, hæð 5 cm og fyrir neðan á ensku CUSTOMS, hæð leturs 4 cm. Endurskinsborðar, 5 cm breiðir, skulu vera allan hringinn neðan við handveg og jafnbreiðir borðar yfir báðar axlir, sem nái niður að þverborða bæði að aftan og framan. Riflásar skulu vera samlitir vestinu. Vestið skal að jafnaði nota úti við þegar skuggsýnt er og slæmt skyggni.

Sokkar skulu prjónaðir úr lipru, slitsterku, svörtu bandi.

Götuskór skulu vera lágir, svartir leðurskór, reimaðir að framan með meðalgrófmynstruðum sóla úr slitsterku efni og með púðum og styrkingum til mikillar notkunar. Þeir skulu vera fóðraðir að innan með leðri. Allur frágangur skal vera vandaður.

Kuldaskór skulu vera úr svörtu, vatnsheldu efni með grófmynstruðum sóla úr slitsterku efni og saumar vatnsheldir, fóðraðir með mjúku slitsterku fóðri, reimaðir að framan og ná upp fyrir ökkla. Allur frágangur skal vera vandaður.

Tækjabelti og tilheyrandi hulstur skulu vera úr svörtu, vönduðu leðri. Um tækjabúnað setur ríkistollstjóri nánari reglur sem taki mið af þörfum tollvarða í starfi.

Tollstjóri getur látið tollvörðum í té, eftir því sem hann telur þörf á, öryggishjálma, sloppa, samfestinga, vettlinga og gúmmístígvél.

6. gr.

Stöðueinkenni.

Ríkistollstjóri: Axlarsprotar á jakka 1 skulu vera úr gylltu mynstruðu efni og á þeim fjórar tollstjörnur úr gylltum málmi sem myndaðar skulu úr stjörnu, 18 mm í þvermál, með táknmynd af auga í miðju. Á hvoru kragahorni á jakka 1 skal vera gyllt skjaldarmerki Íslands úr málmi. Á smeygum sem gerðir skulu úr gylltum, ómynstruðum vefnaði skulu þessi stöðueinkenni ísaumuð með svörtum tvinna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera fjórir borðar, 20 mm breiðir með 5 mm bili á milli. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól úr mynstruðu efni, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig 13,5 ¥ 2 cm sem komi saman á miðju skyggni. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera fjórir mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Tollstjórinn í Reykjavík: Axlarsprotar á jakka 1 skulu vera úr gylltu mynstruðu efni og á þeim þrjár tollstjörnur, sbr. 1. mgr. Á hvoru kragahorni á jakka 1 skal vera gyllt skjaldarmerki Íslands úr málmi. Á smeygum sem gerðir skulu úr gylltum, ómynstruðum vefnaði skulu þessi stöðueinkenni ísaumuð með svörtum tvinna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera þrír borðar, 20 mm breiðir með 5 mm bili á milli. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól úr mynstruðu efni, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 ¥ 2 cm, sem komi saman á miðju skyggni. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera þrír mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Aðaldeildarstjóri: Á axlarsprotum jakka 1 skulu vera á milli gylltu borðanna þrjár fimmarma stjörnur. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju þrjár fimmarma stjörnur, ísaumaðar með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera þrír borðar, 10 mm breiðir. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Ofan á skyggninu skulu ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, 7 ¥ 1,8 cm. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera þrír mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Deildarstjóri: Á axlarsprotum jakka 1 skulu vera á milli gylltu borðanna tvær fimmarma stjörnur. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju tvær fimmarma stjörnur, ísaumaðar með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera tveir borðar, 10 mm breiðir. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Fyrir ofan skyggnisól á einkennishúfu 1 skulu vera tveir mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Yfirtollvörður: Á axlarsprotum jakka 1 skal vera á milli gylltu borðanna ein fimmarma stjarna. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju ein fimmarma stjarna, ísaumað með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skal vera einn borði, 10 mm breiður.

Sérhæfður tollvörður: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

Tollfulltrúi og tollvörður er lokið hefur tollskóla: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skal vera þversum ein einkennisrönd, 6 mm og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær axlarbrún og önnur, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

Tollvörður sem ekki hefur lokið skóla: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skal vera þversum ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær axlarbrún og önnur, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

7. gr.

Einkennisnúmer tollvarða.

Allir tollverðir skulu bera fjögurra stafa númer á einkennisbúningi sínum, öðrum en einkennisfötum 1, sem helst óbreytt á meðan þeir eru í starfi. Ríkistollstjóri annast úthlutun númeranna og gefur árlega út skrá yfir tollverði. Fyrstu tveir stafir númersins ráðist af byrjunarári tollvarðar en tveir þeir síðari segi til um röðun þeirra sem ráðnir eru á sama ári. Ef tveir eða fleiri byrja á sama tíma skal sá sem eldri er fá lægra númer.

Númerin skulu vera ísaumuð gylltum þræði á borða úr svörtu efni sem sé 25 ¥ 47 mm. Tölustafir númera skulu gerðir með stafagerðinni Arial og vera 12 mm á hæð og 37 mm á lengd (4 tölustafir). Einkennisnúmer á skyrtu skal staðsett ofan við vinstri brjóstvasa fyrir miðju hans en á jakka 2 og 3 skal það staðsett efst á miðju vasaloki vinstra brjóstvasa.

Aldrei má úthluta tollverði númeri sem annar maður hefur borið. Á þetta jafnt við um alla tollverði hvernig sem ráðningarform þeirra hefur verið.

8. gr.

Tollmerki o.fl.

Tollmerkið skal myndað úr bókstafnum T og skjaldarmerki Íslands, fellt yfir legg stafsins. Í tollskilríki skal vera tollmerki Íslands. Ríkistollstjóri ákveður hvaða tollstarfsmenn skuli hafa sérstök tollskilríki og geti þannig sýnt fram á að þeir fari með tollgæsluvald. Tollskilríkin skulu undirrituð af ríkistollstjóra. Ríkistollstjóri ákveður gerð tollskilríkja og setur nánari reglur um notkun þeirra.

Einkennishnappar tollvarða skulu vera hringlaga, gylltir með upphleyptu tollmerki. Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 16 mm, en hin stærri 24 mm í þvermál. Festing hnappanna skal vera með tvennum hætti, annars vegar með lykkju til að sauma þá fasta og hins vegar með smellu. Hnappa á einkennishúfu 1 og 2 skal festa með spennum, sem sveigðar séu til hliðanna innan í húfunum.

Armmerki skal vera skjaldlaga, bogadregið að neðan, úr svörtu klæðisefni. Á því skal vera tollmerkið, ísaumað með gylltu T og skjaldarmerki Íslands yfir legg stafsins í litum. Utan um tollmerkið skal vera 1 mm breið rönd. Yst á armmerkinu, allan hringinn, skulu vera ísaumaðar tvær einkennisrendur úr gylltum þræði með 8 mm bili á milli, sú innri 1 mm að breidd en sú ytri 2 mm. Milli innri og ytri randar, fyrir ofan tollmerkið, skal vera ísaumað með gylltum þræði orðið TOLLGÆSLAN með stafagerðinni Arial, 7 mm á hæð, en orðið CUSTOMS með sama letri í boganum fyrir neðan.

Húfumerki á húfu 2 skal vera að lögun eins og armmerkið með tollmerkinu og einni 2 mm rönd utan um það.

9. gr.

Úthlutun einkennisfatnaðar.

Þegar tollvörður er ráðinn í fast starf skal hann fá afhentan eftirtalinn einkennisfatnað á fyrsta starfsári: Eina einkennishúfu 1 ásamt auka húfukolli, einn jakka 1 og fernar einkennisbuxur 1 eða 2, fimm einkennisskyrtur, eitt hálsbindi, tvær einkennispeysur, eina einkennishúfu 2 og eina einkennishúfu 3, einn jakka 2, eitt belti, eina lága skó, eina kuldaskó, einn strokk, eina leðurhanska, eina nælon- eða bómullarhanska og ferna sokka. Stöðueinkenni og annar búnaður skal fylgja fatnaðinum í samræmi við reglugerð og endurnýjast eftir þörfum að mati viðkomandi tollstjóra hverju sinni. Tollstjóri úthlutar jakka 3 og buxum 3 ásamt flísfatnaði eftir þörfum tollvarða í starfi. Um úthlutun einkennisfatnaðar fer að öðru leyti samkvæmt fylgiskjali I.

Tollstjóri getur takmarkað úthlutun einkennisfatnaðar við tiltekinn einkennisfatnað þegar um tímabundna ráðningu tollgæslumanns er að ræða, t.d. vegna sumarafleysinga.

Úthlutun til tollvarðar, sem fær fæðingarorlof, fellur niður þar til því lýkur. Konur skulu samkvæmt ákvörðun tollstjóra eiga þess kost að fá skokk og síðbuxur, sérsaumað sér að kostnaðarlausu, meðan þær gegna störfum sínum sem tollverðir á meðgöngutíma.

Ríkistollstjóri eða tollstjóri geta að ósk tollvarðar fallið frá kröfu um að hann klæðist búningi. Meðan sú ákvörðun gildir fellur úthlutun einkennisfatnaðar niður.

Ríkistollstjóri og tollstjórinn í Reykjavík skulu fá einkennisfatnað samkvæmt reglugerð þessari, eftir því sem þurfa þykir. Þeim er ekki skylt að klæðast einkennisbúningi við dagleg störf en skulu að jafnaði klæðast einkennisbúningi við opinber eða hátíðleg tækifæri, sérstakar móttökur o.þ.h.

Ríkistollstjóri skal annast framkvæmd reglugerðar þessarar, m.a. sjá um að gert sé snið af einkennisfatnaði ásamt verklýsingu og getur hann ákveðið frávik frá efnisnotkun og lýsingu á einkennisbúningi samkvæmt reglugerð þessari. Hann getur jafnframt sett nánari reglur um útvegun og úthlutun einkennisfatnaðar sem tollstjórum er falin. Ríkistollstjóri skal jafnframt annast útboð í samráði við Ríkiskaup þegar um meiriháttar innkaup á einkennisfatnaði er að ræða.

10. gr.

Útvegun einkennisfatnaðar o.fl.

Tollstjórar skulu útvega einkennisfatnað og annan búnað fyrir tollverði. Þeim ber að halda skrá yfir afhentan einkennisfatnað, tollmerki, tækjabelti og annan tilheyrandi búnað. Tollstjórum ber að haga viðskiptum með einkennisfatnað, skó og annan búnað samkvæmt þessari reglugerð í samræmi við fyrirmæli ríkistollstjóra.

Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar skulu tollverðir greiða sjálfir. Meiriháttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfsins, skal tollvörðum bætt að mati tollstjóra.

Þegar tollgæslumaður lætur af störfum, skal hann skila þeim einkennisfatnaði sem hann hefur fengið síðast afhentan. Ennfremur skal hann skila húfum, búnaði, einkennum og tollskírteini hafi hann fengið slíkt skírteini. Einkennisfatnað, sem tollvörður hefur fengið afhentan og hann hefur notað í meira en tvö ár, skal telja eign hans að þeim tíma liðnum en skila skal hann öllum einkennum og tollskilríki.

Án leyfis tollstjóra er tollvörðum óheimilt að nota tollskilríki og einkennisbúning, einkenni og annan búnað honum tilheyrandi nema við tollgæslustörf. Ekki er heimilt að afhenda utanaðkomandi aðila tollskilríki og einkennisbúning, einkennismerki og annan búnað honum tilheyrandi nema með sérstakri heimild tollstjóra. Ríkistollstjóri veitir leyfi vegna starfa tollgæslunnar erlendis.

11. gr.

Snyrtimennska.

Tollverðir skulu ætíð vera snyrtilegir til fara við störf sín. Þeir skulu sýna sjálfum sér, einkennisfatnaði sínum og starfinu tilhlýðilega virðingu. Fatnaði og skóm ber þeim að halda vel við og sjá um að hann sé hreinn og snyrtilegur. Jafnframt skal tollvörður hafa hár hreint, vel klippt og snyrtilegt og ekki bera áberandi skartgripi.

Tollstjóri og aðrir yfirmenn tollgæslunnar skulu fylgjast með klæðaburði tollvarða og sjá um að hann sé í samræmi við gildandi reglur. Þess skal gætt að samræmi sé í klæðaburði þegar tveir eða fleiri eru saman að störfum.

12. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 144/1997, um einkennisbúninga og búnað tollvarða. Þó er heimilt að nota einkennisfatnað samkvæmt eldri reglugerð til 1. janúar 2000 eða þar til úthlutun á nýjum fatnaði hefur farið fram.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar skulu tollverðir nota eldri gerðir einkenna þar til ríkistollstjóri afhentir ný einkenni skv. 6. gr.

Fjármálaráðuneytinu, 6. apríl 1999.

F. h. r.

Árni Kolbeinsson.

Hermann Jónasson.

 

Fylgiskjal I.

Úthlutun einkennisfatnaðar.

Regluleg úthlutun skal vera eftirfarandi:

1.

Einkennishúfa 1 ásamt aukakolli

ein þriðja hvert ár.

2.

Einkennisjakki 1

einn þriðja hvert ár.

3.

Einkennisbuxur 1 eða 2

fernar hvert ár.

4.

Regnfrakki

einn fimmta hvert ár.

5.

Einkennishúfa 2

ein tvisvar í röð á þriggja ára fresti.

6.

Einkennisjakki 2

einn tvisvar í röð á þriggja ára fresti.

7.

Einkennishúfa 3

ein fjórða hvert ár.

8.

Einkennisskyrta

fimm á hverju ári.

9.

Hálsbindi

eitt á hverju ári.

10.

Belti

eitt fjórða hvert ár.

11.

Leðurhanskar

eitt par á hverju ári.

12.

Hvítir hanskar

eitt par þriðja hvert ár.

13.

Sokkar

fjögur pör á hverju ári.

14.

Götuskór

eitt par á hverju ári.

15.

Kuldaskór

eitt par á hverju ári.

16.

Strokkur

einn þriðja hvert ár.

17.

Einkennispeysa

ein á hverju ári og tvær annað hvert ár.

Eftirfarandi tafla skýrir enn frekar hvernig úthlutunin verður í framkvæmd. Nauðsynlegt er að hafa í huga að úthlutun fatnaðar reiknast frá síðustu úthlutun til hvers tollvarðar, óháð töflunni.

 Úthlutunarár 1999-2007

'99

'00

'01

'02

'03

'04

'05

'06

'07

 Einkennishúfa 1

1

 

 

1

 

 

1

 

 

 Einkennisjakki 1

1

 

 

1

 

 

1

 

 

 Einkennisbuxur 1 eða 2

4

4

4

4

4

4

4

4

4

 Regnfrakki

1

 

 

 

 

1

 

 

 

 Einkennishúfa 2

 

1

1

 

1

1

 

1

1

 Einkennisjakki 2

 

1

1

 

1

1

 

1

 

 Einkennishúfa 3

1

 

 

 

1

 

 

 

1

 Einkennisskyrta

5

5

5

5

5

5

5

5

5

 Hálsbindi

1

1

1

1

1

1

1

1

1

 Belti

1

 

 

 

1

 

 

 

1

 Leðurhanskar

1

1

1

1

1

1

1

1

1

 Hvítir hanskar

1

 

 

1

 

 

1

 

 

 Svartir sokkar

4

4

4

4

4

4

4

4

4

 Götuskór

1

1

1

1

1

1

1

1

1

 Kuldaskór

1

1

1

1

1

1

1

1

1

 Strokkur

1

 

 

1

 

 

1

 

 

 Einkennispeysa

2

1

2

1

2

1

2

1

2

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica