Fjármálaráðuneyti

300/1994

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fjárfestingar í hótel- og gistirými. - Brottfallin

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fjárfestingar í hótel- og gistirými.

1. gr. - Aðilar sem rétt eiga á endurgreiðslu.

Rétt til endurgreiðslu hafa skattskyldir aðilar, sem stunda útleigu á hótel- og gistirými og annarri gistiþjónustu og fjárfestu í þeirri starfsemi á árunum 1990-1992.

2. gr. - Virðisaukaskattur sem endurgreiðslan tekur til.

Endurgreiðslu til aðila skv. 1. gr. skal miða við ákveðið hlutfall af eignfærðri nýfjárfestingu, sem bar virðisaukaskatt á árunum 1990-1992, í fasteignum og búnaði í gistirými, sbr. 1. og 3. mgr. 4. gr. Með eignfærðri nýfjárfestingu er átt við fyrnanlegar eignar sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, um tekju- og eignarskatt. Endurgreiðslan tekur ekki til virðisaukaskatts af fasteignum og búnaði sem hefur verið keyptur, yfirtekinn eða leigður af öðrum aðila í gistihúsarekstri.

3. gr. - Skilyrði til endurgreiðslu.

Endurgreiðsla er háð skilyrði um að skattskyldir aðilar skv. 1. gr. hafi með höndum rekstur gistiþjónustu á eftirfarandi uppgjörstímabilum:

1. Fyrstu þrjú uppgjörstímabil ársins 1994 vegna endurgreiðslu á því ári.

2. Öll uppgjörstímabil ársins 1994 vegna endurgreiðslu á árinu 1995.

3. Öll uppgjörstímabil áranna 1994 og 1995 vegna endurgreiðslu á árinu 1996.

4. gr. - Útreikningur endurgreiðslu.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts skv. 2. gr. skal að hámarki nema 8% af fjárfestingu á árinu 1990, 11% af fjárfestingu á árinu 1991 og 14% af fjárfestingu á árinu 1992.

Fjárhæð endurgreiðslu skal ákvörðuð þannig að reiknuð er út heildarfjárhæð virðisaukaskatts í fjárfestingu skv. 1. mgr. Sé heildarfjárhæð hærri en 75 m.kr. lækkar hlutfall endurgreiðslu skv. 1. mgr. samsvarandi þannig að heildarendurgreiðsla verði 75 m.kr. Endurgreiðslufjárhæð hvers og eins rekstraraðila skal deilt í þrjár jafnar fjárhæðir sem greiddar verða út til bráðabirgða í samræmi við 2. mgr. 6. gr. og önnur ákvæði reglugerðar þessarar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal endurgreiðsla til aðila sem teljast vera í blandaðri starfsemi, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum, nema 40% af hlutfallstölum 1. mgr. vegna uppgjörstímabila skv. 1.-3. tölul. 3. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal heildarendurgreiðsla úr ríkissjóði eigi vera hærri fjárhæð en 6% af samanlagðri skattskyldri veltu allra viðkomandi aðila af gistiþjónustu á árunum 1994-1996, sbr. 3. mgr. 6. gr.

5. gr. - Skil á endurgreiðslubeiðni.

Aðilar sem um ræðir í 1. gr. skulu senda ríkisskattstjóra beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. 2. gr., ásamt ársreikningi og afriti af leyfisbréfi til gististaðarekstrar. Beiðnin ásamt fylgigögnum skal berast ríkisskattstjóra fyrir 1. ágúst 1994. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests verða eigi afgreiddar nema aðili færi gildar ástæður sér til málsbóta og getur ríkisskattstjóri metið það í hverju tilfelli hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Þó verða endurgreiðslubeiðnir eigi afgreiddar ef þær berast 14 dögum eftir lok skilafrests eða síðar.

Endurgreiðslubeiðni skv. 1. mgr. skal vera á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

6. gr. - Afgreiðsla endurgreiðslubeiðni.

Ríkisskattstjóri skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og leiðrétta hana ef hún er í ósamræmi við reglugerð þessa eða önnur fyrirmæli skattyfirvalda. Hann getur krafið aðila um framlagningu frekari gagna ef nauðsynlegt þykir.

Hafi beiðni um endurgreiðslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla vegna ársins 1990 fara fram 1. október 1994, vegna ársins 1991 þann 1. apríl 1995 og vegna ársins 1992 þann 1. apríl 1996. Frestur þessi framlengist þó ef ríkisskattstjóri getur, vegna atvika sem rekja má til umsækjanda, ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggist á.

Ríkisskattstjóri samræmir endurgreiðslubeiðnir og gætir þess að ákvæðum reglugerðar þessarar sé framfylgt. Endurgreiðslur skv. 2. mgr. teljast endanlegar nema ljóst verði, þegar uppgjör ársins 1996 liggur fyrir, að eftirfarandi gildi um heildarveltu, sbr. 4. mgr. 4. gr.: V

Innheimtumaður ríkissjóðs annast endurgreiðslu.

Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.

Komi í ljós að endurgreiðsla skv. reglugerð þessari hafi verið of há skal ríkisskattstjóri þegar í stað tilkynna aðila og innheimtumanni ríkissjóðs þar um. Um álag og dráttarvexti vegna of hárrar endurgreiðslu fer skv. 27. og 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

7. gr. - Færslur í bókhald og ársreikning.

Sá sem fær endurgreiðslu skv. ákvæðum reglugerðar þessarar skal færa hana á sérstakan tekjureikning í bókhaldi sínu. Þá skal endurgreiðslan tilgreind annað hvort sérstaklega í ársreikningi sem fylgir skattframtali eða í skyringum með honum.

Að öðru leyti gildir eftir því sem við getur átt reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

8. gr. - Kæruleiðir.

Ákvarðanir ríkisskattstjóra á grundvelli reglugerðar þessarar eru kæranlegar til fjármálaráðuneytis.

9. gr. - Viðurlagaákvæði.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

10. gr. - Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytið, 31. maí 1994.
F.h.r.
Indriði H. Þorláksson
Jón H. Steingrímsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica