Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

179/2003

Reglugerð um dánarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fenginni umsókn, að greiða dánarbætur þeim sem orðið hafa ekkjur eða ekklar, sbr. 2. gr., eiga lögheimili hér á landi og uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar að öðru leyti.


2. gr.

Ekkja/ekkill samkvæmt reglugerð þessari er einstaklingur sem verið hefur í hjúskap eða staðfestri samvist og hefur misst maka sinn. Hið sama gildir um einstaklinga sem hafa verið í óvígðri sambúð sem skráð er í þjóðskrá í að minnsta kosti eitt ár við andlát maka. Hafi skráð sambúð varað skemur en eitt ár en sambúðarfólk hefur eignast barn saman eða konan er þunguð, eiga ákvæði reglugerðarinnar einnig við.


3. gr.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir dánarbætur skv. 1. gr. í næsta mánuði eftir fráfall maka.

Heimilt er að hefja greiðslur þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skilríki um andlát ef upp hefur verið kveðinn úrskurður um að um bú horfins manns megi fara sem dánarbú, sbr. 1. gr. laga nr. 44/1981 um horfna menn.


II. KAFLI
Sex mánaða dánarbætur skv. 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.
4. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða hverjum þeim sem verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs dánarbætur í sex mánuði eftir fráfall maka.


III. KAFLI
Framlengdar dánarbætur skv. 2. mgr. 6. gr.
laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.
5. gr.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir dánarbætur í a.m.k. 12 mánuði til viðbótar sex mánaða dánarbótum skv. 4. gr. vegna fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda eða ef umsækjandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri.

Tryggingastofnun ríkisins hefur ennfremur heimild til að framlengja greiðslur dánarbóta um allt að 36 mánuði til viðbótar dánarbótum skv. 4. gr. og 1. mgr. ef sérstaklega erfiðar fjárhagslegar og félagslegar aðstæður eru fyrir hendi.

Með fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum er átt við að ekkja eða ekkill búi við verulega skerta afkomumöguleika í kjölfar fráfalls maka og hafi takmarkaða getu til tekjuöflunar.


6. gr.

Með umsóknum um dánarbætur skv. 5. gr. skal leggja fram upplýsingar um tekjur og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslu og endurskoðun dánarbóta. Ákvæði 47. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 14. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, gilda um öflun upplýsinga eftir því sem við á.


IV. KAFLI
Niðurfelling dánarbóta.
7. gr.

Greiðslur dánarbóta falla niður í lok þess mánaðar sem viðtakandi þeirra gengur í hjúskap eða stofnar til staðfestrar samvistar. Ennfremur falla greiðslur niður ári eftir að viðtakandi þeirra hefur óvígða sambúð.

Greiðslur dánarbóta samkvæmt 5. gr. falla niður við 67 ára aldur viðtakanda þeirra.


V. KAFLI
Gildistaka.
8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 15. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og gildir um þá sem verða ekkjur eða ekklar eftir gildistöku hennar. Frá sama tíma falla brott óbirtar reglur tryggingaráðs frá 29. desember 1997.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 5. mars 2003.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica