Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 9. júní 2023

178/2011

Reglugerð um eftirlit umboðsmanns skuldara með endurútreikningum fjármálafyrirtækja á gengislánum neytenda.

1. gr. Úrræði skuldara.

Telji skuldari að fjármálafyrirtæki hafi ekki staðið rétt að endurútreikningi á húsnæðisláni, lánasamningi eða eignaleigusamningi sem fellur undir a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010 getur hann leitað með mál sitt til umboðsmanns skuldara.

2. gr. Úrræði umboðsmanns skuldara.

Komi beiðni frá skuldara um að umboðsmaður skuldara skoði mál sem fellur undir 1. gr. skal umboðsmaður afla upplýsinga um forsendur útreikninga og útskýringa á útreikningum hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki, eða hjá skuldara.

Fjármálafyrirtæki skal senda umboðsmanni umbeðnar upplýsingar eigi síðar en fjórum virkum dögum eftir að beiðni berst.

Umboðsmaður skuldara kveður á um úrbætur ef hann telur útreikninga ekki í samræmi við lög nr. 151/2010.

3. gr. Upplýsingaöflun.

Umboðsmaður skuldara getur krafið fjármálafyrirtæki um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt.

Upplýsingasöfnun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg og í samræmi við samþykki skuldara fyrir vinnslunni. Fylgt skal ákvæðum 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila, í þessu tilfelli umboðsmanns skuldara, þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en skuldara.

4. gr. Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli b-liðar 2. gr. laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 23. febrúar 2011.

Árni Páll Árnason.

Helga Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.