Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

177/1999

Reglugerð um smásölu og veitingar áfengis.

1. gr.

Um smásölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og veitingar áfengis á veitingastað fer eftir gildandi lögum og ákvæðum reglugerðar þessarar.


2. gr.

Sterkir drykkir teljast samkvæmt reglugerð þessari áfengi sem meira er í en 21% af vínanda að rúmmáli. Létt vín telst áfengi, annað en öl, sem í er minna af vínanda.


Smásala áfengis.
3. gr.

Afgreiðslutími útsölustaða áfengis skal aldrei vera lengri en frá klukkan 8.00 til klukkan 23.00.

Áfengisútsölustaðir skulu vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.


4. gr.

Umsókn um leyfi til rekstrar áfengisútsölu skal senda sveitarstjórn í viðkomandi sveitarfélagi. Áður en sveitarstjórn veitir leyfi skal hún leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefndar, sem lætur í té umsögn um fyrirhugaða staðsetningu áfengisútsölu.

Sveitarstjórn er heimilt að binda veitingu leyfis til rekstrar útsölustaðar áfengis skilyrðum um staðsetningu, afgreiðslutíma og önnur málefnaleg atriði.

Húsnæði og rekstur áfengisútsölu skal vera afmarkaður og aðgreindur frá öðrum verslunarrekstri. Þannig sé t.d. húsnæðið afmarkað með skilrúmum og sala áfengis fara um sérstaka sjóðvél.


Veitingar áfengis.
5. gr.

Sveitarstjórn hver í sínu umdæmi ákveður heimilan afgreiðslutíma áfengis á veitingastöðum er hafa leyfi til áfengisveitinga, þó með þeim takmörkunum sem greinir í lögum um helgidagafrið.


6. gr.

Umsókn um almennt leyfi fyrir veitingastað til áfengisveitinga skal send sveitarstjórn í viðkomandi sveitarfélagi. Leyfi verður einungis veitt þeim sem hefur gilt veitingaleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði og skal koma fram í umsókn um hvers konar veitingastað er að ræða.

Umsókn skal fylgja sakavottorð þeirra sem að umsókninni standa, auk vottorða þess efnis að hlutaðeigandi skuldi ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð umfram það sem segir í 3. mgr. 14. gr. áfengislaga. Þá skulu fylgja umsókn yfirlýsingar þess efnis að sá sem er tilnefndur stjórnandi samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laganna uppfylli þau skilyrði sem þar greinir.

Gjald fyrir leyfisbréf, sem innheimta ber samkvæmt þeim reglum er um það gilda á hverjum tíma, skal greitt þegar umsókn er lögð fram.


7. gr.

Sveitarstjórn skal leita eftir umsögn heilbrigðisnefndar sem meta skal innréttingar og annað svipmót veitingarekstrar. Þá skal sveitarstjórn leita álits byggingar- og skipulagsnefndar og viðkomandi lögreglustjóra. Heimilt er nefnd að fela því embætti sem fer með þann málaflokk, sem undir nefndina heyrir, afgreiðslu slíkra mála, enda verði þeim skotið til ákvörðunar nefndarinnar.

Þegar sveitarstjórn hefur móttekið umsagnir þessar metur hún hvort efni séu til að gefa út leyfi, með hvaða skilyrðum og til hve langs tíma, sbr. þó 3. mgr. 13. gr. áfengislaga. Sveitarstjórn er m.a. heimilt að binda leyfi því skilyrði að það nái einungis til sölu á áfengu öli og léttu víni.

Leyfi til áfengisveitinga skal bundið við nafn og kennitölu umsækjanda og veitir leyfishafa aðeins rétt til veitinga í því húsnæði sem sótt er um leyfi fyrir.


8. gr.

Áður en leyfi er gefið út skal umsækjandi setja tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum sem stofnast vegna veitingarekstursins ef til gjaldþrotaskipta eða rekstrarstöðvunar kemur.

Trygging getur verið fólgin í ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs, eða öðrum sambærilegum tryggingum.


9. gr.

Tryggingarfjárhæðir skulu vera sem hér segir:

a. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 100 eða færri, 500.000 krónur.
b. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 101 til 200, 750.000 krónur.
c. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 201 til 300, 1.000.000 krónur.
d. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 301 til 400, 1.250.000 krónur.
e. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 401 til 500, 1.500.000 krónur.
f. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 501 til 749, 2.000.000 krónur.
g. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 750 til 1000, 2.500.000 krónur.
h. Áfengisveitingastaður með leyfðan fjölda gesta 1001 eða fleiri, 3.000.000 krónur.

Innheimtumaður ríkissjóðs hver í sínu umdæmi varðveitir tryggingarfé og vottar að það hafi verið lagt fram.


10. gr.

Komi til gjaldþrots leyfishafa skal tryggingarfé ráðstafað til þrotabúsins.

Eigi er heimilt að fella úr gildi tryggingu eða skerða tryggingarfé nema vottorð sveitarstjórnar þess efnis að leyfi sé fallið úr gildi liggi fyrir. Innheimtumaður ríkissjóðs skal þó ekki heimila að trygging sé felld úr gildi fyrr en sex mánuðum eftir að rekstri veitingastaðar er hætt, enda hafi verið lögð fram vottorð þess efnis að leyfishafi skuldi ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóði vegna reksturs veitingastaðarins, auk vottorðs sýslumanns og héraðsdóms þess efnis að ekki hafi verið gerð aðför í eignum leyfishafa eða gjaldþrotaskipta krafist yfir honum, vegna rekstursins.


11. gr.

Á veitingastað þar sem leyfðar eru áfengisveitingar skal liggja frammi verðskrá sem gestir eiga aðgang að um verð á þeim áfengistegundum sem þar eru á boðstólum. Þar skal og liggja frammi verðskrá um verð á öðrum veitingum, mat og óáfengum drykkjum, sem á boðstólum eru.

Áfengisskammtur fyrir sterka drykki skal miðaður við 3 cl. Nota skal eingöngu mælitæki sem hlotið hafa löggildingu.


12. gr.

Lögreglustjóri skal gæta þess að áfengisveitingar fari eigi fram á veitingastað eftir að leyfi er fallið úr gildi. Nú er sótt um endurnýjun leyfis til áfengisveitinga og má þá sveitarstjórn framlengja fyrra leyfi til bráðabirgða meðan sú umsókn er til meðferðar með sömu skilyrðum og eldra leyfi.

Taki nýr aðili við rekstri veitingastaðarins eða ef breytt er um heiti eða kennitölu leyfishafa skal sótt um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar má sveitarstjórn gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi.

Ef veitingastaður er stækkaður skal sótt um viðbótarleyfi vegna hins nýja húsnæðis. Ef fyrirhugað er að breyta verulega rekstri veitingastaðar, svo sem að breyta veitingahúsi í skemmtistað, skal sótt um leyfi vegna hins breytta rekstrar.

Um meðferð umsókna samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eins og um nýja umsókn væri að ræða.


13. gr.

Sveitarstjórn, þar sem heimahöfn skips er, getur veitt leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi í skipulögðum hópferðum innan landhelgi og í hópferðum sem farnar eru af sérstöku tilefni.

Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar Siglingastofnunar Íslands og viðkomandi lögreglustjóra. Leyfi skal því aðeins veitt að fullnægt sé ákvæðum laga um veitinga- og gististaði til að fá útgefið veitingaleyfi og að viðkomandi skip hafi leyfi Siglingastofnunar Íslands til að flytja farþega í atvinnuskyni.

Um umsókn um leyfi og gildistíma þess fer að öðru leyti eftir almennum ákvæðum reglugerðarinnar.


14. gr.

Heimilt er, þegar sérstaklega stendur á, að veita ábyrgðarmanni húsnæðis leyfi til áfengisveitinga af sérstöku tilefni, enda uppfylli hann lögbundin skilyrði til þess.

Sækja skal um slíkt leyfi með a.m.k. 10 daga fyrirvara til sveitarstjórnar. Sveitarstjórn getur heimilað embættisafgreiðslur slíkra leyfa.

Ekki er þörf á leyfi til áfengisveitinga, ef um einkasamkvæmi er að ræða. Samkoma telst einkasamkvæmi ef tilefni samkomunnar er sérstakt og persónulegt.


15. gr.

Um gjald fyrir leyfi til áfengisveitinga fer eftir ákvæðum áfengislaga.


Almenn ákvæði.
16. gr.

Sveitarstjórn skal afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt reglugerð þessari ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum þeirra til að fá útgefið slíkt leyfi.


17. gr.

Verði leyfishafi uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla eða uppfyllir ekki skilyrði sem um reksturinn gilda skal veita honum skriflega áminningu. Áminningu veitir viðkomandi sveitarstjórn eða lögreglustjóri. Lögreglustjóri hver í sínu umdæmi skal halda skrár yfir áminningar. Áminning hefur gildi í tvö ár frá því hún hefur verið birt leyfishafa.

Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi skal það varða sviptingu leyfis um ákveðinn tíma. Sveitarstjórn ber að svipta leyfi telji lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi að skilyrði 1. málsl. 2. mgr. séu uppfyllt. Ef vanræksla er stórfelld eða ítrekuð skal lengd sviptingar ákveðin með hliðsjón af því.


18. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt áfengislögum, nr. 75 15. júní 1998, öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sölu og veitingar áfengis, nr. 425 8. september 1989, með síðari breytingum.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 17. mars 1999.

Þorsteinn Pálsson.
Arnar Þór Jónsson.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica