Innanríkisráðuneyti

169/2016

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum og reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum.

I. KAFLI

Breyting á reglugerð nr. 751/2003,
um skráningu ökutækja, með síðari breytingum.

1. gr.

Við 1. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Heimilt er að skrá ökutæki tímabundinni skráningu ef um tilraunaakstur er að ræða í þágu rann­sókna og þróunar ökutækja, t.d. prófun vistvænna ökutækja. Heimildina má aðeins veita í eins skamman tíma og nauðsynlegt er og aldrei lengur en til eins árs í senn og má endurnýja að þeim tíma liðnum. Heimildina má veita framleiðendum ökutækja eða umboðsaðila þeirra. Gildistími skal til­greindur í skráningarskírteini. Verði eigendaskipti á ökutækinu fellur heimildin umsvifalaust niður. Ef ekki er sótt sérstaklega um endurnýjun tímabundinnar skráningar eða slíkri beiðni hafnað skal að skrán­ingar­tíma loknum afskrá ökutækið, farga eða skila til eiganda. Samgöngustofa setur verklags­reglur um heimild til tímabundinnar skráningar.

2. gr.

4. málsl. 7. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Þjóðarmerki skal ekki vera á skrán­ingar­merkjum bifreiða sem tilgreindar eru í 2. mgr. 19. gr., að undanskildum d-lið.

3. gr.

Við 2. mgr. 19. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:

  1. Á skráningarmerkjum bifreiðar, sem skráð eru tímabundinni skráningu sbr. 3. mgr. 1. gr. þessarar reglugerðar, skulu brúnir, stafir og bandstrik vera græn. Flötur skal vera hvítur með endurskini.

II. KAFLI

Breyting á reglugerð nr. 822/2004,
um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum.

4. gr.

Á eftir ákvæði 03.05 bætist við nýtt ákvæði, 03.06, svohljóðandi:

03.06 Undanþága vegna tímabundinnar skilyrtrar skráningar.
(1) Samgöngustofa getur veitt undanþágu frá lið 03.04 og 03.05 á grundvelli heimildar til tímabundinnar skráningar samkvæmt reglum um skráningu ökutækja. Undir þetta ákvæði falla ökutæki sem notaá í þágu rannsóknar og þróunar ökutækja og eru í eigu fram­leið­anda og/eða eru skráð á umboðsaðila hans. Um gildistíma og skráningarmerki öku­tækis­ins fer eftir reglum um skráningu ökutækja. Samgöngustofa setur verklagsreglur um undan­þáguna.

III KAFLI

Lagastoð og gildistaka.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 60. og 64. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breyt­ingum, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 23. febrúar 2016.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica