Leita
Hreinsa Um leit

Félagsmálaráðuneyti

308/1995

Reglugerð um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks. - Brottfallin

Reglugerð

 um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs

 vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks.

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til fyrirtækja sem starfrækja vinnslu á ferskum sjávarafla í frystingu, söltun, skreið og rækju- og skelvinnslu og gert hafa kauptryggingarsamninga við starfsmenn sína í samræmi við ákvæði almennra kjarasamninga og greiða þeim föst laun fyrir dagvinnu meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur.

2. gr.

Í reglugerð þessari merkja eftirfarandi hugtök það sem hér segir:

a. Kauptryggingarsamningur er samningur milli vinnuveitanda og starfsmanns um kauptryggingu í samræmi við ákvæði almennra kjarasamninga.

b. Með vinnslustöðvun er átt við að eðlilegri vinnslu verði ekki haldið áfram í fiskvinnslufyrirtæki eða einhverri deild eða vinnslulínu þess, vegna hráefnisskorts eða vegna þess að ekki er talið réttlætanlegt að vinna afla af rekstrarlegum ástæðum, svo sem vegna ónógs magns eða hráefnisverðs, enda taki vinnslustöðvunin til meirihluta starfsmanna í hlutaðeigandi deild eða vinnslulínu.

c. Vinnumiðlun er aðili sem annast atvinnuleysisskráningu á viðkomandi stað lögum samkvæmt.

d. Með starfsmönnum er átt við þá sem vinna störf sem beinlínis eru háð því að hráefni sé fyrir hendi, svo sem móttöku á vinnslustað, vinnslu, frágang og flutning hráefnis innan fyrirtækis, svo og þá sem annast ræstingar á vinnslustað. Hins vegar er ekki átt við þá sem eingöngu starfa við löndun afla og flutning til vinnslustöðva.

3. gr.

Fyrir hvern heilan vinnudag umfram fyrstu tvo vinnudaga á ári sem vinnsla stöðvast fær fyrirtæki greidda hámarksdagpeninga skv. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 93/1993, auk lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingargjalds atvinnurekenda, fyrir hvern starfsmann í fullu starfi, sem orðið hefur verkefnalaus vegna stöðvunarinnar, meðan stöðvun varir, þó ekki lengur en 30 greiðsludaga í senn og aldrei lengur en 60 greiðsludaga á ári. Greiðsla vegna starfsmanns í hlutastarfi skal vera í samræmi við samningsbundið starfshlutfall hans.

Greiðslu vegna tryggingargjalds atvinnurekanda greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður beint til innheimtumanns ríkissjóðs.

4. gr.

Séu líkur á vinnslustöðvun skal fyrirtæki, með a.m.k. 3 sólarhringa fyrirvara, tilkynna fyrirhugaða vinnslustöðvun til vinnumiðlunar og tilgreina orsakir hennar.

Fyrstu tilkynningu á ári skal fylgja skrá yfir alla starfsmenn fyrirtækisins, sem hafa gildandi kauptryggingarsamninga, með upplýsingum um kennitölur þeirra, gildistíma samninga og samningsbundið starfshlutfall starfsmanna. Einnig skulu fylgja afrit af gerðum kauptryggingarsamningum, sem skulu vera undirritaðir af samningsaðilum, dagsettir, og tilgreina gildistíma og samningsbundið starfshlutfall.

Vinnumiðlun framsendir tilkynningu og fylgigögn til skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Vinnumiðlun skal fylgjast með og tilkynna Atvinnuleysistryggingasjóði hvort og hvenær til vinnslustöðvunar kemur. Komi til vinnslustöðvunar skal fyrirtæki tilkynna vinnumiðlun um hana. Vinnumiðlun sendir skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs staðfestingu sína á því að um vinnslustöðvun sé að ræða af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í b-lið 2. gr. reglugerðar þessarar. Vinnumiðlun getur krafist þess að fyrirtæki sýni fram á ástæðu vinnslustöðvunar.

Komi ekki til vinnslustöðvunar innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar er hún úr gildi fallin.

Ef til vinnslustöðvunar kemur innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar og hafi orðið breytingar á starfsliði, sem nýtur kauptryggingar, skal fyrirtæki á fyrsta mánudegi eftir vinnslustöðvun senda leiðréttar skrár og afrit af nýjum kauptryggingarsamningum til vinnumiðlunar, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.

Þá skal fyrirtæki vikulega, á mánudegi, senda vinnumiðlun skrá yfir þá starfsmenn sem vinnslustöðvun tók til í næstliðinni viku. Skráin skal bera glöggt með sér hvenær vinnslustöðvun hófst og hve marga daga hún hefur staðið. Vinnumiðlun framsendir skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs gögnin.

Starfsmenn skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs meta hvort skilyrði til greiðslu eru fyrir hendi og ákvarða fjárhæð greiðslu til fyrirtækis í samræmi við starfshlutfall starfsmanna samkvæmt kauptryggingarsamningum.

Greitt er vikulega til hlutaðeigandi fyrirtækis eins fljótt og auðið er eftir að fullnægjandi upplýsingar hafa borist skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Vinnumiðlun og Atvinnuleysistryggingasjóður skulu hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis, sem vill njóta greiðslna samkvæmt reglugerð þessari, í því skyni að ganga úr skugga um réttmæti greiðslu.

5. gr.

Nú hefur fyrirtæki tilkynnt vinnslustöðvun með tilskildum fyrirvara en býðst hráefni til vinnslu í skamman tíma eftir að vinnslustöðvun er hafin og er því þá heimilt að boða starfsfólk til vinnu, þó aldrei skemur en heilan dag í senn.

Fyrirtæki, sem vill gera hlé á boðaðri vinnslustöðvun, sbr. 1. mgr., skal, þegar í stað og áður en hlé er gert, tilkynna skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs og hlutaðeigandi vinnumiðlun um það.

Eftir að samfelld vinnsla er hafin á ný gilda ákvæði 1. mgr. 4. gr. um tilkynningarfrest. Með samfelldri vinnslu er átt við að unnið sé lengur en fimm vinnudaga samfellt.

6. gr.

Fyrirtæki er skylt að tilkynna skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar í stað ef breyting verður á fjölda starfsmanna sem hafa gildandi kauptryggingarsamninga og eru verkefnalausir af völdum vinnslustöðvunar. Sama á við ef starfsmaður með kauptryggingarsamning tekur annað launað starf meðan á vinnslustöðvun stendur. Greiðsla Atvinnuleysistryggingasjóðs til fyrirtækis vegna þessara starfsmanna fellur niður um leið og tekið er launað starf annars staðar.

7. gr.

Kauptryggingarsamningur getur verið tímabundinn eða til ótiltekins tíma. Hann skal gerður í því formi sem Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasambandið annars vegar og Verkamannasamband Íslands hins vegar samþykkja.

Hafni starfsmaður að gera kauptryggingarsamning skal litið svo á sem hann hafi hafnað atvinnu og á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem kauptrygging hefði tryggt honum laun hjá fyrirtækinu.

8. gr.

Fyrirtækjum er skylt að hlutast til um að starfsfræðslunámskeið fyrir starfsmenn verði fyrst og fremst haldin á þeim tíma sem vinnslustöðvun varir. Ef því verður með engu móti komið við á fyrirtæki rétt á greiðslu fyrir þær vinnustundir hvers starfsmanns, sem tapast vegna setu á námskeiðum sem haldin eru að opinberri tilhlutan á dagvinnutíma, þó ekki meira en 40 stundir vegna hvers starfsmanns.

Fylgja skal ákvæðum reglugerðar þessarar, eftir því sem við á, um tilkynningu um námskeið og ákvörðun greiðslu. Leggja skal fram staðfestingu námskeiðshaldara um námskeiðshald og tíma og efni námskeiðs. Að loknu námskeiði skal leggja fram staðfestingu á þátttöku hvers starfsmanns sem greiðsla sjóðsins miðaðist við.

Greiðslur þessar teljast hluti þeirra greiðslna sem um ræðir í 3. gr.

9. gr.

Ef ágreiningur rís um rétt fyrirtækis til greiðslu sker stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úr honum og eru úrskurðir stjórnarinnar endanlegir.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 5. gr. laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51 frá 7. mars 1995, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um greiðslur vegna fastráðins fiskvinnslufólks, nr. 425 frá 31. ágúst 1988, með síðari breytingum.

Félagsmálaráðuneytið, 24. maí 1995.

Páll Pétursson.

Anna G. Björnsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica