Umhverfisráðuneyti

168/2000

Reglugerð um skilyrði fyrir löggildingu iðnmeistara samkvæmt 10. tölul. í ákvæði til bráðabirgða laga nr. 73/1997, með síðari breytingum.

1. gr.

Þeir einstaklingar sem fengu útgefið eða áttu rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hafa lokið meistaraskóla eiga rétt á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd eftir að hafa sótt námskeið eins og greinir í reglugerð þessari, enda sæki þeir um slíka löggildingu fyrir 1. júlí 2001.

2. gr.

Umhverfisráðherra skipar nefnd til að hafa yfirstjórn með námskeiðum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúi tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, fulltrúi tilnefndur af Skipulagsstofnun, fulltrúi án tilnefningar sem skal vera formaður og jafn margir varamenn. Nefndin stendur fyrir gerð námskeiða, útgáfu sérstaks námsefnis og ræður kennara. Nefndin getur að fengnu samþykki umhverfisráðuneytisins falið viðurkenndum aðila námskeiðshaldið en skal eigi að síður hafa eftirlit með því.

3. gr.

Námskeið skulu auglýst rækilega með hæfilegum fyrirvara s.s. í dagblöðum og staðarblöðum þar sem það á við. Halda skal námskeið eftir þörfum en við það skal miðað að ekki séu færri en 15 þátttakendur á hverju námskeiði að öðrum kosti getur nefndin ákveðið að sameina námskeið.

Á námskeiðunum skal farið í eftirfarandi atriði:

1) Skipulags- og byggingarlög og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

2) ÍST 30 og notkun hans.

3) Útboð, tilboð og verksamningsgerð.

4) Samskipti aðal- og undirverktaka.

5) Iðnaðarlög.

6) Stofnun félaga og ábyrgð stjórnarmanna félaga.

7) Gæðastjórnun.

8) Öryggismál.

9) Kostnað við útselda tíma.

10) Helsta mun á verktaka og launþega og vinnuveitendaábyrgð.

11) A.m.k. 5 kennslustundir í lausn raunhæfs verkefnis.

Námskeiðin skulu vera 45 kennslustundir að lengd. Skylt er að sitja allt námskeiðið að öðrum kosti eiga þátttakendur ekki rétt á löggildingu.

4. gr.

Þátttakendur skulu greiða námskeiðsgjald sem skal greitt þegar skráning á námskeið fer fram. Upphæð námskeiðsgjalds skal ekki vera hærri en kostnaður við námskeiðshald.

Fjárhæð námskeiðsgjalds skal ákveðin af umhverfisráðuneytinu hverju sinni, að fenginni tillögu nefndarinnar sbr. 2. gr.

Heimilt er að endurgreiða námskeiðsgjald verði ekki af námskeiði eða mæli sérstakar ástæður með því.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 10. tölulið í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 3. mars 2000.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica