Félagsmálaráðuneyti

99/1995

Reglugerð um fráveitu á Dalvík. - Brottfallin

Reglugerð

 um fráveitu á Dalvík.

1 . gr.

Reglugerð þessi gildir um fráveitu í lögsagnarumdæmi Dalvíkur.

2. gr.

Dalvíkurbær starfrækir fráveitu, bæjarsjóður kostar rekstur hennar og framkvæmdir við hana. Bæjarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveitu og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs til reksturs og framkvæmda við hana.

Tæknideild bæjarins fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitu bæjarins í umboði bæjarstjórnar.

3. gr.

Fráveitan veitir fráveituvatni, sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn hitaveitu og ræsivatn, um fráveitulagnir frá byggð til viðtakanda.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn, en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum samliggjandi fráveitulögnum.

Bæjarsjóður á allar holræsalagnir fráveitu, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofanvatnsræsi í götum og opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum húseigna. Ennfremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, dælustöðvar og hreinsistöðvar.

4. gr.

Þar sem fráveita bæjarins nær til, skal húseigendum séð fyrir götufráræsi frá götuholræsi að lóðarmörkum húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir, skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn. Tæknideild bæjarins ákveður legu götuholræsa og tengigreina.

5. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði, þar sem fráveita bæjarins liggur, er skylt að leggja á sinn kostnað fráræsi frá húseignum sínum og tengja þau við fráveituna. Þegar lögð er tvöföld fráveita, skulu húseigendur halda skólpi og ofanvatni aðskildu í tvöfaldri fráveitulögn og tengja hana tvöfaldri fráveitu bæjarins. Að öðru leyti er bent á 10. gr. mengunarvarnarreglugerðar.

6. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á fráræsi húseignar að fráveitu bæjarins, skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að safnbrunni með sjálfvirkum dælubúnaði, sem dælir fráveituvatninu að brunni, þannig staðsettum, að hægt sé að veitu fráveituvatni frá honum í fráveitu bæjarins.

7. gr.

Þar sem fráveita bæjarins nær ekki til, skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá fráræsum húseigna um rotþrær og siturleiðslur að viðtaka. Dalvíkurbær kostar niðursetningu og annan frágang rotþróar og lagna, en húseigandi leggur til rotþró sem samþykkt er af byggingarfulltrúa og hlotið hefur viðurkenningu Hollustuverndar. Húseigandi annast allt viðhald.

Þegar fráveita bæjarins hefur verið lögð, skulu húseigendur kosta og tengja fráræsi húseigna við hana.

8. gr.

Þegar tengja skal fráræsi húseigna við fráveitu bæjarins eða veita fráveituvatni frá þeim um rotþró, sé þess ekki kostur að tengja fráræsislögn frá húseign við fráveitu, skal sækja um það til byggingareftirlits bæjarins á þar til gerðum eyðublöðum, sem þar eru látin í té. Umsóknir skulu undirritaðar af húseigendum eða fullgildum umboðsmönnum þeirra, ásamt pípulagningameistara þeim, sem verkið á að vinna.

Umsóknum skulu fylgja teikningar af fráveitulögnum húsa og lóða og fráræsum frá húseignum sem tengja á fráveitu bæjarins.

Umsóknum um rotþrær skulu fylgja teikningar, er sýni gerð þeirra og staðsetningu og siturleiðslur að viðtaka, auk teikninga af fráveitulögnum húsa og lóða.

9. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum sbr. byggingarreglugerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

10. gr.

Byggingareftirlit bæjarins skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar, skal það einnig taka út og viðurkenna fráræsi frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu bæjarins eða rotþrær.

11. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því, að lagnir fráveitu bæjarins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald. Dalvíkurbæ er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

12. gr.

Ekki er heimilt að veita fráveituvatni frá húseignum í fráveitu bæjarins, ef það inniheldur mikið af fitu frá stórum eldhúsum og matvælaiðnaði, súrum vökvum, lífrænum leysiefnum og öðrum hættulegum efnaúrgangi frá iðnaðar- og framleiðslustarfsemi, bensíni og olíum frá bensínstöðvum, bifreiðaverkstæðum og smurstöðvum, sandi frá þvottaplönum, fiskúrgangi frá fiskvinnslustöðvum eða öðru sem valdið getur skemmdum og rekstrartruflunum á fráveitu bæjarins og skaðlegri mengun á viðtaka.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn innihaldi ofangreind efni, ber eiganda húseignar að gera ráðstafanir til að fjarlægja þau eða gera óskaðleg, áður en fráveituvatninu er veitt í fráveitu bæjarins. Dalvíkurbær getur krafist þess að viðurkenndum búnaði sé komið fyrir til að hindra að ofangreind efni komist í fráveitukerfi bæjarins.

13. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og sjá um hreinsun á fráræsum og gæta þess að þau stíflist ekki.

Rotþrær ber að hreinsa að minnsta kosti einu sinni á ári. Skiljur á fráræsislögnum ber að hreinsa reglulega þannig að tryggt sé að hreinsibúnaðurinn gegni hlutverki sínu. Dalvíkurbær sér um hreinsun rotþróa.

14. gr.

Þar sem hætta er á, að fráveituvatn frá fráveitu bæjarins flæði til baka um fráræsislagnir frá húseigendum, vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu, skulu húseigendur koma fyrir sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll.

15. gr.

Af öllum fasteignum í lögsagnarumdæmi Dalvíkur, sem liggja við vegi, götur eða opin svæði, þar sem holræsalagnir fráveitu bæjarins liggja, skal greiða árlega fráveitugjald og skal því m.a. varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu bæjarins.

16. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa. Fráveitugjald skal miðast við ákveðinn hundraðshluta af álagningarstofni og hlíta ákvæðum um minnsta og mesta gjald, samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og ráðuneytið staðfestir.

17. gr.

Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu fráveitugjalds.

18. gr.

Fráveitugjald má innheimta með lögtaki og er það tryggt með lögveðsrétti í eigninni næstu 2 ár eftir gjalddaga, með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

19. gr.

Brot á reglugerð þessari varðar sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Mál varðandi brot á reglugerð þessari skal farið með að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Dalvíkurkaupstaðar, staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi og holræsagjöld á Dalvík nr. 186/1943.

Félagsmálaráðuneytið, 3. febrúar 1995.

Húnbogi Þorsteinsson.

Sesselja Árnadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica