Sjávarútvegsráðuneyti

163/1973

Reglugerð um hvalveiðar

I.

1. gr.

Rétt til þess að stunda hvalveiðar í íslenzkri fiskveiðlandhelgi og til að landa hvalafla, þótt utan landhelgi sé veitt, svo og til að verka slíkan afla, hafa þeir einir, er fengið hafa til þess leyfi sjávarútvegsráðuneytisins. Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar og ef báðar þessar stofnanir telja að gengið sé of nærri hvalstofninum með nýjum veiðileyfum skal umsókn synjað.

2. gr.

Bannað er að veiða:

a) Hvalkálfa, hvali á spena og kvenhvali, sem kálfar eða hvalir á spena fylgja.

b) Grænlands-sléttbak, Íslands-sléttbak, hnúfubak og steypireyð.

c) Langreyðar innan við 55 fet eða 16.8 metra að lengd, sandreyðar innan við 40 fet eða 12,2 metra að lengd og búrhvali innan við 35 fet eða 10,7 metra að lengd.

Þó má veiða langreyðar yfir 50 fet (15,2 m) og sandreyðar yfir 35 fet (10,7 m) fyrir íslenzkar landstöðvar, enda sé hvalkjötið þá notað til manneldis eða skepnufóðurs á Íslandi.

3. gr.

Hvalir skulu mældir á láréttum fleti svo nákvæmlega sem hægt er, með stálmælibandi, sem þannig er úr garði gert að á núll-endanum sé oddhvasst skaft, sem stinga má föstu niður beint á móts við annan enda hvalsins. Mælibandið skal þanið í beinni línu samsíða hvalnum og lesið af því beint á móts við hinn endann.

Endar hvals við mælingu skulu taldir vera fremsti oddur efri kjálka og sporðrauf. Lengd hvals skal miða við heilt fet, þ. e. hvalur, sem mælist milli 76 1/2 fet og 77 1/2 fet skal talinn 77 fet. Ef mæling stendur á hálfu feti, skal lengd miðuð við næsta heila fet á eftir, t. d. 76 1/2 fet skal tákna 77 fet.

4. gr.

Veiðileyfi skv. 1. gr. skulu veitt landstöð eða landstöðvum, er einnig skulu hafa sérstakt leyfi til verkunar hvalafla sbr. 1. gr. Skulu veiðileyfin gilda í eitt veiðitímabil í senn. Veiðitímabil skulu vera samfelld og aldrei vara lengur en í 4 1/2 mánuð á ári.

5. gr.

Íslenzkum landstöðvum skal aðeins heimilt að taka á móti og verka hvalafla íslenzkra skipa, er veiðileyfi hafa skv. 1. gr. og þeim skipum er aðeins heimilt að landa afla sínum til íslenzkra landstöðva.

6. gr.

Allir veiddir hvalir skulu merktir veiðiskipi og tölusettir í þeirri röð, sem þeir hafa veiðzt í.

7. gr.

Landstöðvar skulu halda dagbók yfir veiðarnar. Skulu innfærslur allar vera greinilegar og má eigi strika út eða gera ólæsilegt það, sem innfært hefur verið. Dagbók skal hafa tölusettar blaðsíður, vera gegnumdregin og löggilt af sjávarútvegsráðuneytinu.

8. gr.

Í dagbók skal greina eftirfarandi:

a) Tölu og tegund veiddra hvala og misstra og þeirra, sem unnið er úr.

b) Veiðistað.

c) Kynferði og stærð veiddra hvala (sjá 3. gr.).

d) Ef um kvenhval er að ræða skal tekið fram hvort hún sé mjólkurfull eða með á spena. Einnig skal tilgreind lengd fósturs, sé það fyrir hendi.

e) Heildarmagn lýsis, mjöls og annarra afurða.

f) Upplýsingar varðandi hvalgöngur eða aðrar upplýsingar, sem gætu orðið til glöggvunar á hegðun og ástandi hvalstofna hér við land.

9. gr.

Afhenda skal sjávarútvegsráðuneytinu dagbókina við lok hvers veiðitímabils.

10. gr.

Sjávarútvegsráðuneytið skipar eftirlitsmann með hverri landstöð og ákveður þóknun hans, er greiðist úr ríkissjóði. Einnig er landstöðvum skylt að hlíta því, að erlendir eftirlitsmenn fylgist nákvæmlega með starfsemi stöðvarinnar í samræmi við samþykktir alþjóða hvalveiðiráðsins, sem bindandi eru fyrir Ísland, eða ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að.

11. gr.

Hver landstöð skal greiða kr. 27 000.00 árgjald í ríkissjóð og auk þess kr. 9 000.00 krónur á ári fyrir hvert hvalveiðiskip. Gjöld þessi skulu samanlagt ekki nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði við eftirlit með hvalveiðum skv. lögum nr. 26/1949 og reglugerð þessari.

12. gr.

Hvalskyttur og skipshafnir veiðiskipa skulu ráðnar þannig, að laun þeirr a séu að verulegu leyti miðuð við tegund, stærð og afurðir veiddra hvala, en ekki aðeins við tölu veiddra hvala. Engin aflaverðlaun eða aðrar aukaþóknanir má greiða skyttum eða áhöfnum veiðiskipa vegna veiði hvala með mjólk eða kálf á spena. Afhenda skal sjávarútvegsráðuneytinu yfirlit yfir allar launagreiðslur og grundvöll þeirra, þegar þess er óskað.

13. gr.

Skipstjóri hvalveiðiskips, útgerðarmaður og forstöðumenn landstöðvar skulu sameiginlega bera ábyrgð á því að ekki sé brotið gegn ákvæðum reglugerðar þessarar.

II.

Sérákvæði um veiðar á hrefnu og tannhvölum öðrum en búrhval.

14. gr.

Leyfi til veiða á hrefnu og tannhvölum öðrum en búrhval, sem veitt eru skv. 1. gr., skulu ávallt vera tímabundin. Þau skulu veitt skipstjórum veiðiskipa, sem ásamt útgerðarmönnum skulu ábyrgir fyrir því að öll skilyrði veiðileyfanna verði haldin. Áður er veiðileyfi eru veitt skulu liggja fyrir staðfestar upplýsingar um það hvar og á hvern hátt aflinn verði verkaður.

15. gr.

Sjávarútvegsráðuneytið getur sett leyfishöfum skilyrði með ákvæðum í leyfisbréfum m. a., um:

a) Ákveðin veiðisvæði,

b) lengd veiðiferða,

c) útbúnað veiðiskips,

d) meðferð og verkun afla,

e) skyldu til skýrslugerðar,

f) innköllun eða skiptingu leyfa.

16. gr.

Eintak af lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar og reglugerð þessari skulu höfð til sýnis á áberandi stað þar sem hvalveiðar og vinnsla er stunduð.

17. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum og öðrum viðurlögum skv. lögum nr. 26/1949 um hvalveiðar. Mál út af brotum skulu sæta meðferð opinberra mála.

18. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 26/1949, til að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 113 16, ágúst 1949 um hvalveiðar.

Sjávarútvegsráðuneytið, 30. maí 1973.

Lúðvík Jósepsson.

Þórður Ásgeirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica