Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Breytingareglugerð

1629/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1088/2018 um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

1. gr.

Við bráðabirgðaákvæði I við reglugerðina bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Ef Jöfnunarsjóður úthlutar ekki fjármagni skv. 4. mgr. skal Jöfnunarsjóður úthluta ráðstöfunarfjármagninu eða því sem eftir stendur með viðbótarframlagi til sveitarfélaga, allt að því marki sem annað hvort:

  1. Staðgreiðsla íbúa í sveitarfélaginu fyrstu tíu mánuði ársins 2021 er lægri en á sama tímabili árið 2020, verðleiðrétt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis.
  2. Mismunur er á tekjustofnum sveitarfélags á hvern íbúa, að frádregnum framlögum Jöfnunarsjóðs og 93% vegins meðaltals sömu stærðar fyrir öll sveitarfélög.

Viðbótarframlög skv. 5. mgr. skulu reiknast út frá þeirri fjárhæð sem reynist lægri skv. a- eða b-lið 5. mgr. og á grundvelli margfeldis eftirfarandi forsenda sem telst skiptigrunnur úthlutunarinnar:

  1. Reiknaðri hlutfallsbreytingu á staðgreiðslu íbúa sveitarfélags fyrstu tíu mánuði ársins 2021 samanborið við sama tímabil árið 2020, leiðrétt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis.
  2. Reiknuðum hlutfallsmun á fjárhæð tekjustofna hvers sveitarfélags, að frádregnum framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, á hvern íbúa fyrir árið 2020 og 93% meðaltals sömu stærðar fyrir öll sveitarfélög.
  3. Íbúafjölda sveitarfélaga.

Úthlutunarupphæðinni er ráðstafað hlutfallslega til sveitarfélaga á grundvelli skiptigrunnsins, af því fjármagni sem er til ráðstöfunar og að því marki sem sveitarfélög geta notið framlagsins.

2. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 28. desember 2021.

Sigurður Ingi Jóhannsson
innviðaráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.