Félagsmálaráðuneyti

160/2007

Reglugerð um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um iðnaðarstarfsemi, búnað og geymslustaði þar sem hættuleg efni sem tilgreind eru í I. viðauka eru geymd eða notuð við eðlilega starfsemi eða þar sem þau kunna að myndast við röskun á eðlilegri starfsemi og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum eða sérreglum.

Reglugerðin gildir ekki um eftirfarandi:

  1. Starfsemi sem fyrst og fremst hefur í för með sér hættu vegna jónandi geislunar.
  2. Herstöðvar og hergeymslur.
  3. Vinnslu jarðefna í námum, gryfjum eða borholum. Reglugerðin skal þó gilda um efnafræðilega vinnslu og hitameðhöndlun og geymslu í tengslum við nýtingu jarðefna í námum, gryfjum eða borholum ef um er að ræða hættuleg efni sem tilgreind eru í I. viðauka.
  4. Leit og nýtingu jarðefna á hafi úti, þar á meðal vetniskolefni.
  5. Flutning varasamra efna og tímabundna milligeymslu utan starfsstöðvar, hvort sem er á landi, sjó eða lofti, þ.m.t. ferming og afferming og flutningur á milli annars konar flutningstækja í höfnum, hafnarbökkum eða flutningastöðvum.
  6. Flutning hættulegra efna í rörleiðslum, þ.m.t. dælustöðvar, utan starfsstöðva sem þessi reglugerð á við.
  7. Urðunarstaði úrgangs. Reglugerðin skal þó gilda um aðstöðu í rekstri þar sem úrgangi er fargað, þar á meðal gryfjur undir úrgang eða stíflur, þar sem hættuleg efni eru sem tilgreind eru í I. viðauka, einkum ef notkun þeirra er í tengslum við efnavinnslu eða hitameðhöndlun jarðefna.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi á vinnustöðum og fyrirbyggja stór­slys af völdum hættulegra efna og draga úr afleiðingum þeirra fyrir fólk og umhverfi.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Starfsstöð: Allt svæðið sem lýtur stjórn rekstraraðila og þar sem hættuleg efni er að finna í einni stöð eða fleiri, þar á meðal í sameiginlegum eða tengdum grunn­virkjum eða starfsemi.
  2. Stöð: Eining innan starfsstöðvar þar sem hættuleg efni eru framleidd, notuð, meðhöndluð eða geymd. Hugtakið skal ná yfir öll tæki, mannvirki, leiðslur, vélar, verkfæri, einkajárnbrautir, skipakvíar, löndunarbryggjur vegna stöðvarinnar, hafnarbakka, vörugeymslur eða hliðstæð mannvirki, fljótandi eða ekki, sem eru nauðsynleg rekstri stöðvarinnar.
  3. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir eða hefur eignarhald á starfsstöð eða stöð, eða hefur óskoraðan ákvörðunarrétt um reksturinn í sam­ræmi við lög.
  4. Hættulegt efni: Efni, samsett efni eða efnablanda sem tilgreind eru í I. viðauka og er að finna sem hráefni, framleiðsluvara, aukaafurð, hálfunnin vara eða leif, þar með talin efni sem raunhæft er að ætla að geti myndast þegar slys verða.
  5. Stórslys: Atvik á borð við stórfellda efnaútlausn, eldsvoða eða sprengingu sem stafar af stjórnlausri atburðarás við rekstur starfsstöðvar og stofnar heilsu fólks og/eða umhverfi á vinnustaðnum eða fyrir utan hann í mikla hættu, samstundis eða síðar, og þar sem eitt eða fleiri hættuleg efni koma við sögu.
  6. Hætta: Sá eðlislægi eiginleiki hættulegs efnis eða ytri aðstæðna að geta valdið heilsu fólks og/eða umhverfi skaða.
  7. Áhætta: Líkur á því að tiltekin áhrif komi fram á tilteknu tímabili eða við tilteknar aðstæður.
  8. Geymsla: Það að ákveðið magn hættulegra efna er að finna í vörugeymslu, í öryggisvörslu eða sem birgðir.

4. gr.

Almennar skyldur rekstraraðila.

Rekstraraðili skal gera allar nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir stór­slys. Enn fremur skal atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo tafarlaust megi draga sem mest úr afleiðingum þeirra.

Rekstraraðila er skylt að sanna fyrir Vinnueftirliti ríkisins hvenær sem þess er óskað að hann hafi gripið til nauðsynlegra ráðstafana samkvæmt reglugerð þessari einkum hvað varðar skoðun og eftirlit.

II. KAFLI

Tilkynningarskylda rekstraraðila.

5. gr.

Tímamörk tilkynningar.

Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu um hvort unnið sé með eða geymd séu eitt eða fleiri þeirra efna sem talin eru upp í I. viðauka í því magni sem tilgreint er í 1. og 2. töludálki, svo sem efni sem eru geymd eða notuð í tengslum við viðkomandi starfsemi, framleiðsluafurðir, aukaafurðir eða afganga innan eftirtalinna tímamarka nema slíkar upplýsingar hafi áður verið látnar Vinnueftirlitinu í té:

  1. Nýjar starfsstöðvar þarf að tilkynna með hæfilegum fyrirvara áður en fram­kvæmdir eða starfræksla hefst.
  2. Starfandi starfsstöðvar sem ekki hafa áður fallið undir samsvarandi reglugerð þarf að tilkynna innan þriggja mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar.

6. gr.

Innihald tilkynningar.

Tilkynning skv. 5. gr. skal innihalda:

  1. Heiti rekstraraðila ásamt heimilisfangi starfsstöðvarinnar sem á í hlut.
  2. Skráða starfsstöð rekstraraðila ásamt heimilisfangi.
  3. Nafn eða starfsheiti þess sem ber ábyrgð á starfsstöðinni.
  4. Nafn öryggisvarðar/öryggistrúnaðarmanns og starfssvið/starfsheiti.
  5. Nöfn annarra starfsmanna sem sjá um öryggismál.
  6. Nægjanlegar upplýsingar til að bera kennsl á þau hættulegu efni eða þann flokk hættulegra efna sem um er að ræða.
  7. Magn þess hættulega efnis eða efna sem um er að ræða og á hvaða formi þau finnast.
  8. Lýsingu á starfsemi eða væntanlegri starfsemi stöðvarinnar eða geymsluaðstöðu.
  9. Þætti í næsta nágrenni starfsstöðvarinnar sem gætu valdið stórslysi eða aukið á afleiðingar stórslyss.

7. gr.

Breytingar sem tilkynna skal.

Rekstraraðila ber að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins tafarlaust ef eftirfarandi breytingar eiga sér stað:

  1. Verulegar breytingar verða á efnismagni eða framleiðsluferli starfsstöðvar miðað við fyrri upplýsingar eða breyting verður á eðli eða eðlisástandi þess frá því sem fram kemur í fyrri tilkynningu.
  2. Breyting verður á starfsstöð eða stöð sem gæti haft veruleg áhrif á hættu á stór­slysum.
  3. Stöð er lokað varanlega.

III. KAFLI

Áætlun um stórslysavarnir, öryggisstjórnunarkerfi og keðjuverkandi áhrif.

8. gr.

Áætlun um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi.

Rekstraraðili sem hefur sama eða meira efnismagn en gefið er upp í fyrri töludálki í töflum sem eru í 1. og 2. hluta I. viðauka skal vinna áætlun um stórslysavarnir og sjá til þess að hún sé framkvæmd með réttum hætti.

Áætlun rekstraraðila um stórslysavarnir skal miðast við að tryggja fólki og umhverfi mikla vernd með viðeigandi aðferðum, þar á meðal gerð stjórnkerfa.

Starfandi starfsstöð sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglugerð skal gera áætlun um stórslysavarnir helst þegar í stað og í engum tilvikum síðar en innan þriggja mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar.

9. gr.

Efni áætlunar um stórslysavarnir.

Eftirfarandi atriði skal taka til greina við framkvæmd áætlunar um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi og skulu þær kröfur sem gerðar eru í áætluninni vera í hlutfalli við umfang stórslysahættunnar sem starfsstöðinni fylgir:

  1. Áætlun um stórslysavarnir skal vera skrifleg og ná til meginmarkmiða og meginreglna rekstraraðila vegna aðgerða til varna gegn stórslysahættu.
  2. Öryggisstjórnunarkerfi skal ná til þess hluta almenna stjórnkerfisins sem tekur til skipulags, ábyrgðar, starfshátta, málsmeðferðar, vinnsluferla og leiða til að móta og hrinda í framkvæmd áætlun um stórslysavarnir.
  3. Með öryggisstjórnunarkerfi skal tekið á eftirtöldum atriðum:
    1. Skipulagi og starfsfólki: Hlutverk og ábyrgð starfsfólksins vegna stór­slysa­varna á öllum stigum skipulagsins. Greina skal þörf starfsfólksins fyrir þjálfun og bjóða því slíka þjálfun. Samstarf skal haft við starfsmenn svo og undirverktaka sem starfa í starfsstöðinni þar sem við á.
    2. Greiningu og mati á helstu slysahættum: Taka skal upp og nota aðferðir við kerfisbundna greiningu á helstu slysahættum sem stafa af eðlilegum jafnt sem óeðlilegum rekstri, svo og mat á slysalíkum og afleiðingum slysa.
    3. Rekstrarstjórn: Taka skal upp og nota aðferðir við öruggan rekstur, þar á meðal viðhald, ásamt tilheyrandi leiðbeiningum, í verksmiðjunni, vinnslu­ferlum, búnaði og við tímabundna rekstrarstöðvun.
    4. Stjórnun á breytingum: Taka skal upp og nota aðferðir við skipulag breytinga á stöðvum, vinnsluferlum eða geymsluaðstöðu, eða hönnun nýrra.
    5. Skipulagningu til undirbúnings neyðartilfella: Taka skal upp og nota aðferðir við að sjá fyrir neyðartilvik með skipulagðri greiningu og við að undirbúa, prófa og endurskoða neyðaráætlanir til að bregðast við slíkum neyðar­tilvikum og veita öllum viðkomandi starfsmönnum sérhæfða þjálfun, þ.m.t. starfsmenn í undirverktöku sem eiga hlut að máli.
    6. Vöktun kerfisins: Taka skal upp og nota aðferðir við símat á því að unnið sé í samræmi við markmiðin í áætlun rekstraraðila um stórslysavarnir og í öryggisstjórnunarkerfinu, og aðferðir við rannsókn og leiðréttingar þegar svo er ekki. Aðferðirnar skulu ná til kerfisins sem rekstraraðili hefur komið upp til að tilkynna stórslys eða tilvik þar sem legið hefur við stórslysi, einkum þegar varnir hafa brugðist, ásamt rannsókn á slíkum atvikum og áframhaldandi starfi á grundvelli fenginnar reynslu.
    7. Úttekt og endurskoðun: Taka skal upp og nota aðferðir við reglubundið og kerfisbundið mat á áætlun um stórslysavarnir og skilvirkni og hagkvæmni öryggisstjórnunarkerfisins. Vinna skal skjalfesta endurskoðun á árangri áætlunarinnar og öryggisstjórnunarkerfisins og uppfærslu þeirra af hálfu yfirstjórnar starfsstöðvarinnar.

10. gr.

Keðjuverkandi áhrif.

Þegar gerð er áætlun um stórslysavarnir skv. 8. og 9. gr. eða öryggisskýrsla skv. IV. kafla skal tekið mið af nærliggjandi starfsemi, þ.e. hvort hún geti aukið líkur á stórslysi eða valdið keðjuverkandi áhrifum vegna staðsetningar eða nálægðar á geymslum sem hafa að geyma hættuleg efni eða starfsemi þar sem slík efni eru til staðar.

Til að þetta sé mögulegt skulu nærliggjandi fyrirtæki hafa samvinnu og samráð um nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir stórslys og draga úr afleiðingum þess fyrir menn og umhverfi ef það verður.

Vinnueftirlit ríkisins skal að sama skapi nýta upplýsingar sem rekstraraðilar leggja fram til að leita uppi starfsstöð eða hópa starfsstöðva þar sem afleiðingar af stórslysum kunna að aukast vegna staðsetningar og nálægðar vegna þeirra hættulegu efna sem þar eru.

Vinnueftirliti ríkisins skal tryggja að þegar slíkar starfsstöðvar finnast fái þær nauð­syn­legar upplýsingar til að þeim verði kleift að taka til greina eðli og umfang heildar­hættunnar af stórslysi í áætlunum sínum um stórslysavarnir, öryggisstjórnunar­kerfum, öryggisskýrslum og neyðaráætlunum til nota í starfsstöðinni.

11. gr.

Endurskoðunarákvæði.

Rekstraraðili skal endurskoða áætlun um stórslysavarnir, svo og viðkomandi stjórnkerfi og málsmeðferð, og endurnýja eftir þörfum ef breytingar eru gerðar á stöð, starfsstöð, geymsluaðstöðu eða vinnslu, eða ef breytingar verða á eðli eða magni hættulegra efna sem geta haft veruleg áhrif á stórslysahættu.

IV. KAFLI

Öryggisskýrsla.

12. gr.

Almennt.

Rekstraraðili starfsstöðvar sem hefur efnismagn samkvæmt seinni töludálki í töflum sem eru í 1. og 2. hluta I. viðauka skal gera öryggisskýrslu með það að markmiði:

  1. að sýna fram á að áætlun um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi til að framkvæma hana hafi verið komið á fót í samræmi við 9. gr.,
  2. að sýna fram á að hættan af stórslysum hafi verið greind og að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að fyrirbyggja slík slys og draga úr afleiðingum þeirra fyrir fólk og umhverfi,
  3. að sýna fram á að tekið sé fullnægjandi tillit til öryggis og áreiðanleika við hönnun, byggingu, rekstur og viðhald hvers kyns stöðva, geymslustöðva, tækja og grunnvirkja sem tengjast rekstrinum og tengjast hættu á stórslysum í starfsstöðinni,
  4. að sýna fram á að neyðaráætlanir hafi verið gerðar innan starfsstöðvarinnar og leggja fram upplýsingar sem gera það kleift að gera neyðaráætlun til nota utan starfsstöðvarinnar svo grípa megi til nauðsynlegra ráðstafana ef stórslys á sér stað og
  5. að láta viðeigandi stjórnvöldum í té nægilegar upplýsingar til að þau geti tekið ákvarðanir um staðsetningu nýrrar starfsemi eða framkvæmda í grennd við starfandi starfsstöð.

13. gr.

Innihald öryggisskýrslu.

Í öryggisskýrslu skulu vera a.m.k. öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem eru til­greindar hér á eftir:

  1. Upplýsingar um stjórnkerfi, fjölda starfsfólks, skipulag starfsstöðvar vegna stórslysavarna og hvernig þjálfun starfsfólks er háttað, sbr. einnig 9. gr.
  2. Lýsing á umhverfi starfsstöðvar: Lýst skal staðnum og umhverfi hans, þar á meðal landfræðilegri legu, með upplýsingum um veðurfar, staðhætti, vatnamælingar, og sögu staðarins ef þess gerist þörf. Lýst skal stöðvum í starfsstöðinni og annarri starfsemi sem af gæti stafað hætta á stórslysum og lýst svæðum þar sem stórslys gæti orðið.
  3. Lýsing á stöðvum: Lýsing á helstu starfsemi, tæknilegu ferli og framleiðsluvörum þeirra hluta starfsstöðvarinnar sem eru mikilvægir með hliðsjón af öryggismálum. Einnig skal lýsa stórslysavöldum og aðstæðum sem stórslys gæti orðið við, ásamt lýsingu á fyrirhuguðum forvörnum og vinnsluferlum, einkum rekstraraðstæðum.
  4. Upplýsingar um hættuleg efni:
    1. Efnafræðiheiti: CAS-númer, nafn samkvæmt IUPAC-flokkunarkerfinu, önnur nöfn, reynsluformúla, samsetning efnisins, hreinleikastig, helstu óhreinindi og hundraðshlutar, greiningar- og ákvörðunaraðferðir sem tiltækar eru í starfsstöðinni með lýsingu á aðferðum sem notaðar eru og vísanir í fræðirit, aðferðir og varúðarráðstafanir í sambandi við með­höndlun, geymslu og eldhættu sem framleiðandi gerir kröfur um, neyðar­ráðstafanir sem framleiðandi viðhefur ef efni breiðist út af slysni og aðferðir sem framleiðandi getur gripið til í þeim tilgangi að gera efni skað­laus.
    2. Á hvaða stigi starfseminnar er unnið eða kann að vera unnið með efnin.
    3. Magn hættulegra efna (stærðargráða) sem er að jafnaði í starfsstöðinni en einnig áætlað hámarksmagn.
    4. Efna- og eðlisfræðileg hegðun efnis við venjuleg notkunarskilyrði í framleiðslukerfinu.
    5. Þær myndir sem efnin geta birst í eða tekið á sig ef óvenjulegar en fyrirsjáanlegar aðstæður skapast.
    6. Önnur hættuleg efni sem geta haft áhrif á hugsanlega hættu sem við­komandi starfsemi hefði í för með sér.
  5. Greining á slysahættu og forvarnaraðferðir: Nákvæm lýsing á hugsanlegum aðstæðum við stórslys og líkum á þeim eða þeim aðstæðum sem þau verða við, þar á meðal yfirlit um atvik sem geta orðið til þess að skapa slíkar aðstæður, hvort sem orsakirnar er að finna í stöðvunum sjálfum eða utan þeirra. Einnig skal koma fram mat á því hversu víðtækar og alvarlegar afleiðingar skilgreind stórslys gætu haft fyrir fólk og umhverfi, þ.m.t. kort, myndir eða, eftir því sem við á, jafngildar lýsingar sem sýna svæði sem geta orðið fyrir áhrifum við slík slys sem rekja má til starfsstöðvarinnar, sbr. þó ákvæði reglugerðarinnar um trúnað­ar­upplýsingar. Að auki skal lýsa tæknilegum færibreytum og búnaði sem notaður er til að tryggja öryggi í stöðvunum.
  6. Varnir og viðbúnaður til að draga úr afleiðingum slyss: Lýsing á búnaði sem komið hefur verið fyrir á starfsstöð til að draga úr afleiðingum stórslysa, skipulag viðvörunar og viðbúnaðar, lýsing á tiltækum úrræðum í starfsstöðinni eða utan hennar og yfirlit um atriði þessa töluliðar sem nauðsynleg eru fyrir gerð neyðaráætlunar í starfsstöðinni.
  7. Tilgreind skulu heiti þeirra stofnana sem standa að samningu skýrslunnar.
  8. Ávallt skal vera til staðar uppfærð skrá um hættuleg efni sem er að finna í starfsstöðinni.

14. gr.

Sameining skýrslna.

Heimilt er að sameina öryggisskýrslur, kafla úr öryggisskýrslum eða aðrar jafngildar skýrslur, sem unnar eru á grundvelli annarrar löggjafar, í eina öryggisskýrslu í skilningi þessa kafla reglugerðarinnar til að komast hjá óþarfa tvítekningu upplýsinga og tví­verknaði hjá rekstraraðila eða lögbæru yfirvaldi, enda sé öllum kröfum þessarar greinar fullnægt.

15. gr.

Skil á öryggisskýrslu, tímamörk.

Vinnueftirliti ríkisins skal send öryggisskýrsla innan eftirfarandi tímamarka:

  1. Hæfilega löngu áður en bygging eða rekstur hefst þegar um nýja starfsstöð er að ræða.
  2. Starfandi starfsstöð sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglugerð skal skila öryggisskýrslu helst þegar í stað og í engum tilvikum síðar en innan árs frá gildistöku reglugerðar þessarar.
  3. Þegar um er að ræða reglubundna endurskoðun skal öryggisskýrslu skilað tafar­laust.

16. gr.

Viðbrögð Vinnueftirlits ríkisins.

Áður en rekstraraðili hefst handa við byggingu eða rekstur eða í tilvikunum sem um getur í b- og c-lið 15. gr. skal Vinnueftirlit ríkisins innan hæfilegra tímamarka frá því að skýrslan barst:

  1. tilkynna rekstraraðila niðurstöður athugunar sinnar á öryggisskýrslunni, eftir að farið hefur verið fram á frekari upplýsingar ef þurfa þykir, eða
  2. banna að rekstur hefjist á starfsstöð eða að honum sé haldið áfram í samræmi við valdsvið og málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 34. gr.

17. gr.

Endurskoðun öryggisskýrslu.

Öryggisskýrslan skal endurskoðuð með reglubundnum hætti og uppfærð þegar þess gerist þörf en þó eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Annars skal öryggisskýrslan endurskoðuð á öðrum tímum að frumkvæði rekstraraðila eða að ósk Vinnueftirlits ríkisins þegar ástæða er til vegna nýrra staðreynda eða til að taka megi til greina nýja tækniþekkingu á öryggismálum, til dæmis varðandi greiningu á slysum, eða eftir því sem unnt er tilvikum þar sem legið hefur við slysi og nýja þekkingu á hættumati.

Rekstraraðili skal endurskoða öryggisskýrslu og endurnýja eftir þörfum ef breytingar eru gerðar á stöð, starfsstöð, geymsluaðstöðu eða vinnslu, eða ef breytingar verða á eðli eða magni hættulegra efna sem geta haft veruleg áhrif á stórslysahættu. Slíkar breytingar skulu tilkynntar Vinnueftirliti ríkisins.

18. gr.

Undantekningarákvæði.

Þegar sýnt hefur verið fram á með fullnægjandi hætti að mati Vinnueftirlits ríkisins að ástand einstakra efna, sem er að finna í starfsstöðinni eða einhverjum hluta hennar, sé með þeim hætti að þeim geti ekki stafað stórslysahætta er heimilt að einskorða upp­lýsingar, sem krafist er í öryggisskýrslum, við atriði sem lúta að vörnum gegn þeirri stór­slysa­hættu sem eftir stendur og að draga úr afleiðingum hennar fyrir fólk og umhverfi.

19. gr.

Skrá yfir starfsstöðvar.

Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir starfsstöðvar sem í hlut eiga samkvæmt þessum kafla ásamt rökstuðningi og senda þá skrá til viðkomandi alþjóðastofnana, sbr. II. viðauka.

V. KAFLI

Neyðaráætlanir.

20. gr.

Markmið neyðaráætlana.

Rekstraraðili starfsstöðvar sem hefur efnismagn samkvæmt seinni töludálki í töflum sem eru í 1. og 2. hluta I. viðauka skal gera neyðaráætlun með það að markmiði:

  1. að halda óhöppum í skefjum og hafa stjórn á þeim til þess að halda áhrifum þeirra í lágmarki og draga úr þeim skaða sem þau valda fólki, umhverfi og eignum,
  2. að hrinda í framkvæmd þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til að vernda fólk og umhverfi fyrir áhrifum stórslysa,
  3. að koma nauðsynlegum upplýsingum til almennings og þeirra stofnana eða yfirvalda sem málið varðar á svæðinu og
  4. að umhverfið sé lagfært og hreinsað í kjölfar stórslyss.

21. gr.

Efni neyðaráætlana.

Í neyðaráætlun til að nota í starfsstöð skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn eða staða þess sem heimilt er að hefja neyðaraðgerðir, þess sem stjórnar aðgerðum til að draga úr skaða á staðnum og samræmir þær og þess sem annast tengsl við yfirstjórn almannavarna.
  2. Vegna fyrirsjáanlegra aðstæðna eða atvika sem gætu hrundið af stað stórslysi skal fylgja lýsing á því sem gera skal til að hafa stjórn á þessum aðstæðum eða atvikum og draga úr afleiðingum þeirra, þar á meðal lýsing á öryggisbúnaði og tiltækum úrræðum.
  3. Ráðstafanir til að koma sem fyrst tilkynningu um slysið til viðeigandi aðila, svo sem lögreglu, sjúkraliðs, slökkviliðs, björgunarsveita, yfirstjórnar almannavarna, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins. Fram skulu koma upplýsingar sem fylgja skulu fyrstu viðvörun og ráðstafanir til að koma ítarlegri upplýsingum á framfæri eftir því sem þær berast.
  4. Samantekt á a-c-liðum í flæðiriti þar sem sýnd eru samskipti og ráðstafanir sem gripið er til ef stórslys á sér stað.
  5. Ráðstafanir til að draga úr áhættu fyrir fólk á staðnum, þar á meðal hvernig gefa á út viðvörun og hvað fólki er ætlað að gera þegar viðvörun er gefin út.
  6. Allar upplýsingar sem yfirstjórn almannavarna þarf á að halda til að undirbúa neyðaráætlanir til að nota utan starfsstöðvar.
  7. Ráðstafanir til að þjálfa starfsfólk í störfum sem því er ætlað að sinna og samræma þessa þjálfun við neyðarþjónustu utan starfsstöðvarinnar þar sem þess er þörf.
  8. Ráðstafanir til aðstoðar við að draga úr skaða utan starfsstöðvarinnar.

Í neyðaráætlun til að nota utan starfsstöðvar skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn eða staða þess sem heimilt er að hefja neyðaraðgerðir og þess sem er heimilt að stjórna aðgerðum utan starfsstöðvarinnar og samræma þær.
  2. Ráðstafanir til að fá sem fyrst tilkynningu um óhapp, ásamt aðferðum við viðvörun og útkall.
  3. Ráðstafanir til að samræma þau úrræði sem nauðsynleg eru til að hrinda neyðaráætlun utan starfsstöðvarinnar í framkvæmd.
  4. Ráðstafanir til að aðstoða við að draga úr skaða í starfsstöðinni.
  5. Ráðstafanir til að draga úr skaða utan starfsstöðvarinnar.
  6. Ráðstafanir til að dreifa til almennings sértækum upplýsingum um slysið og rétt viðbrögð við því.

22. gr.

Samráð.

Neyðaráætlanir sem ætlaðar eru til nota innan starfsstöðvar skulu samdar og uppfærðar í samráði við starfsfólk starfsstöðvarinnar, þ.m.t. starfsfólk sem er ráðið til langs tíma í undirverktöku og málið varðar.

Samráð skal haft við almenning um samningu og uppfærslu neyðaráætlana til að nota utan starfsstöðva.

23. gr.

Tímamörk.

Rekstraraðili skal gera neyðaráætlun um ráðstafanir innan starfsstöðvar innan eftirtalinna tímamarka:

  1. Áður en rekstur hefst þegar um er að ræða nýjar starfsstöðvar.
  2. Helst þegar í stað og í engum tilvikum síðar en innan árs frá gildistöku reglugerðar þessarar þegar um er að ræða starfandi starfsstöðvar sem ekki hafa áður fallið undir samsvarandi reglugerð.

Gera skal neyðaráætlun í samræmi við ákvæði laga um almannavarnir til nota utan starfsstöðvarinnar vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til utan starfsstöðvarinnar.

Rekstraraðili skal veita Vinnueftirliti ríkisins nauðsynlegar upplýsingar, sbr. 2. mgr., innan eftirtalinna tímamarka:

  1. Áður en rekstur hefst þegar um er að ræða nýjar starfsstöðvar.
  2. Helst þegar í stað og í engum tilvikum síðar en innan árs frá gildistöku reglugerðar þessarar þegar um er að ræða starfandi starfsstöðvar sem ekki hafa áður fallið undir samsvarandi reglugerð.

24. gr.

Prófun og endurskoðun neyðaráætlana.

Rekstraraðili skal endurskoða og prófa neyðaráætlanir til nota í starfsstöðvum og utan þeirra og endurnýja þær og uppfæra eftir þörfum með hæfilegu millibili og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Við endurskoðun skal taka til greina breytingar á starfsstöðvum eða opinberri neyðarþjónustu, nýja tækniþekkingu og þekkingu á viðbrögðum við stórslysum.

Varðandi neyðaráætlanir til nota utan starfsstöðva skal haft samráð við yfirstjórn almannavarna á viðkomandi stað í því skyni að efla samvinnu um hjálparaðgerðir á sviði almannavarna ef til meiri háttar neyðarástands kemur.

VI. KAFLI

Upplýsingar um öryggisráðstafanir.

25. gr.

Grenndarkynning og aðgangur almennings að upplýsingum.

Rekstraraðila ber að tryggja að einstaklingar og lögaðilar sem stórslys getur bitnað á fái óumbeðið viðhlítandi upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig bregðast skuli við ef slys verður. Endurskoða skal þessar upplýsingar og uppfæra samhliða endurskoðun öryggisskýrslu. Almenningur skal einnig hafa aðgang að þessum upplýsingum.

Almenningur skal hafa aðgang að innsendum öryggisskýrslum hjá eftirlitsaðila með ákveðnum fyrirvara. Rekstraraðila er heimilt að fara fram á við eftirlitsaðila að ákveðnir hlutar öryggisskýrslu, svo sem iðnaðarleyndarmál eða persónuupplýsingar sem eðlilegt er að leynt fari, séu ekki aðgengilegir almenningi.

26. gr.

Innihald upplýsinga.

Upplýsingar sem veittar eru almenningi á grundvelli 25. gr. skulu innihalda eftirfarandi atriði:

  1. Nafn rekstraraðila og staðsetning svæðis.
  2. Nafn og staða þess sem veitt hefur upplýsingar.
  3. Staðfesting á því að svæði sé háð ákvæðum reglugerðar þessarar og að öryggisskýrsla eða að minnsta kosti tilkynning skv. II. kafla hafi verið send Vinnueftirliti ríkisins.
  4. Lýsing í almennum orðum á þeirri starfsemi sem fram fer á svæðinu.
  5. Almenn heiti þeirra efna og efnablandna sem notuð eru á svæðinu og valdið geta stórslysahættu, en tegundarheiti eða almenn hættuflokksgreining þeirra ef um er að ræða geymslu sem 2. hluti I. viðauka gildir um, svo og tilgreining á helstu hættueiginleikum.
  6. Almennar upplýsingar um hvaða stórslysahætta getur skapast, þar á meðal um hugsanleg áhrif á íbúa og umhverfi.
  7. Fullnægjandi upplýsingar um hvernig farið yrði að því að vara íbúa við slysi og leyfa þeim að fylgjast með gangi mála.
  8. Fullnægjandi upplýsingar um hvað viðkomandi íbúum ber að gera og hvernig þeir skulu hegða sér ef slys verður.
  9. Staðfesting á því að rekstraraðila sé skylt að gera viðeigandi ráðstafanir á svæðinu, þar á meðal með því að stofna til tengsla við almannavarnanefnd, með tilliti til hugsanlegs slyss og takmörkunar á áhrifum þess.
  10. Tilvísun til neyðaráætlunar sem gerð hefur verið með tilliti til áhrifa slyss utan svæðisins og hvatning til fólks um að fylgja öllum fyrirmælum eða óskum yfirvalda ef slys verður.
  11. Nánari upplýsingar um hvar unnt sé að afla frekari upplýsinga með fyrirvara um upplýsingar sem eðlilegt er að leynt fari samkvæmt lögum eða eðli máls.

VII. KAFLI

Viðbrögð við stórslysum.

27. gr.

Framkvæmd neyðaráætlana.

Rekstraraðili skal hrinda neyðaráætlun í framkvæmd án tafar þegar stórslys verður eða þegar stjórnlaus atburðarás á sér stað sem skynsamlegt er að ætla að valdið geti stórslysi.

28. gr.

Tilkynning um stórslys.

Ef stórslys á sér stað í starfsstöð sem fellur undir reglugerð þessa er rekstraraðila skylt að tilkynna það tafarlaust slökkviliði og lögreglu. Lögregla skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins, Umhverfisstofnun og yfirstjórn almannavarna á viðkomandi stað um slysið. Afhenda skal upplýsingar um aðstæður við slysið, hættuleg efni sem um er að ræða, gögn sem tiltæk eru til að meta áhrif slyssins á fólk og umhverfi og neyðarráðstafanir sem gripið er til um leið og þær liggja fyrir.

Veita skal eftirlitsaðila upplýsingar um þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að draga úr áhrifum slyssins til lengri eða skemmri tíma og að koma í veg fyrir að slíkt slys endurtaki sig.

29. gr.

Upplýsingar sem rekstraraðila ber að veita í kjölfar stórslyss.

Rekstraraðila er skylt jafnskjótt og unnt er eftir að stórslys hefur orðið að tilkynna það Vinnueftirliti ríkisins.

Rekstraraðila ber að láta Vinnueftirliti ríkisins í té eftirfarandi upplýsingar um leið og þær liggja fyrir:

  1. Aðstæður á slysstað,
  2. hættuleg efni sem um er að ræða,
  3. gögn sem eru tiltæk til að meta áhrif slyssins á menn og umhverfi og
  4. neyðarráðstafanir sem gripið er til.

Rekstraraðili skal veita Vinnueftirliti ríkisins upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir til að draga úr áhrifum slyssins til meðallangs og langs tíma og til að koma í veg fyrir að slíkt slys endurtaki sig.

Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins uppfærðar upplýsingar ef frekari rannsóknir leiða í ljós viðbótarstaðreyndir sem breyta áður sendum upplýsingum eða niðurstöðum sem dregnar eru af þeim.

30. gr.

Stjórnvaldsráðstafanir í framhaldi af stórslysi.

Samráðsnefnd, sbr. 33. gr., skal tryggja að gerðar verði neyðarráðstafanir og aðrar ráðstafanir til lengri eða skemmri tíma sem kunna að reynast nauðsynlegar og að safnað verði saman þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að ljúka megi rannsókn á slysum, hvort sem er á sviði tækni, skipulags eða stjórnunar. Jafnframt skulu þessir aðilar gera tillögur um forvarnir eða setja reglur í framhaldi af því.

Vinnueftirlit ríkisins skal sjá til þess að rekstraraðili grípi til allra nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta.

VIII. KAFLI

Skipulag.

31. gr.

Landnýting.

Til að stuðla að því að þau markmið sem sett eru í þessari reglugerð náist þarf að taka mið af stórslysahættu þegar landnýting er skipulögð. Þetta á einkum við þegar velja á heppilegan stað fyrir nýja starfsstöð, endurbæta eða stækka þarf starfsstöð og þegar velja á flutningsleiðir.

Við skipulag landsvæða þarf að taka mið af stórslysahættu þannig að sem minnst hætta sé fyrir menn og umhverfi auk þess sem fullnægjandi vegalengd skal vera á milli starfsstöðvar sem fellur undir þessa reglugerð og staða sem eru einstakir frá náttúrunnar hendi. Nánari ákvæði um skipulag og landnýtingu er að finna í lögum og reglugerð um skipulagsmál.

IX. KAFLI

Ýmis ákvæði

32. gr.

Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

Vinnueftirlit ríkisins leggur mat á hvort áætlun um stórslysavarnir, öryggisskýrsla og neyðaráætlun rekstraraðila sé fullnægjandi.

33. gr.

Samráðsnefnd.

Félagsmálaráðherra skipar samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði að fengnum tilnefningum frá Brunamálastofnun, ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins.

Hlutverk samráðsnefndarinnar er að tryggja samráð og samstarf hlutaðeigandi stofnana í því skyni að tryggja öryggi starfsmanna, almennings og umhverfis þegar stórslys í iðnaði ber að höndum.

34. gr.

Rekstrarstöðvun ef yfirvofandi hætta skapast.

Óheimilt er að halda áfram starfsemi starfsstöðvar eða stöðvar að öllu leyti eða að hluta ef áframhaldandi starfsemi eða notkun hefur í för með sér yfirvofandi hættu á stórslysi.

35. gr.

Kæruheimild.

Um kæruheimild á grundvelli reglugerðar þessarar fer skv. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

36. gr.

Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

37. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 51. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Reglugerðin er enn fremur sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins nr. 96/82/EB frá 9. desember 1996 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/105/EB frá 16. desember 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 96/82/EB.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 263/1998 um hættumat í iðnaðarstarfsemi.

Félagsmálaráðuneytinu, 14. febrúar 2007.

Magnús Stefánsson.

Sesselja Árnadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica