Landbúnaðarráðuneyti

160/2006

Reglugerð um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa. - Brottfallin

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Tilgangur, markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja góðan aðbúnað hrossa og að þau hafi ætíð nægilega beit/fóður og vatn. Einnig að notkun á hrossum sé í samræmi við þrek þeirra og þol og að þau fái góða meðferð að öðru leyti.

Reglugerð þessi gildir um öll hross, hvort sem þau eru haldin í atvinnuskyni, svo sem á ræktunarbúum, tamningastöðvum, hestaleigum og reiðskólum, eða til nota í frístundum.

2. gr.

Orðskýringar.

  1. Aðbúnaður, er húsakostur og/eða skjól.
  2. Umhirða hrossa, er fóðrun, beitarstýring, eftirlit með holdafari og heilbrigði og hirðing á feldi, hófum og tönnum.
  3. Tamningastöð, er staður þar sem hross eru tamin eða þjálfuð gegn gjaldi.
  4. Reiðskóli, er staður þar sem fram fer kennsla í reiðmennsku gegn gjaldi.
  5. Hestaleiga, er staður þar sem hross eru leigð til útreiða gegn gjaldi.

3. gr.

Yfirstjórn og eftirlit.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Landbúnaðarstofnun er ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis og hefur undir sinni stjórn dýralækni hrossasjúkdóma.

Dýralæknir hrossasjúkdóma skal með störfum sínum stuðla að góðri meðferð og heil­brigði hrossa í samvinnu við dýralækna, ráðunauta, búfjáreftirlitsmenn, Umhverfis­stofnun og hrossaeigendur. Hann skal með rannsóknum, almennri fræðslu og leiðbeiningar­starfi auka skilning á hrossasjúkdómum, vinna að vörnum gegn þeim og gera árlega skrá um tíðni hrossasjúkdóma, í samvinnu við dýralækna.

Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt, sbr. ákvæði reglugerðar um búfjáreftirlit nr. 743/2002.

Hver sá sem verður var við að eiganda eða umráðamann hrossa skorti fóður, beit, vatn eða viðeigandi aðbúnað fyrir hross sín, hann vanhirði þau eða beiti þau harðýðgi, skal tilkynna það héraðsdýralækni. Berist slíkar upplýsingar til dýralæknis, búfjár­eftirlits­manns, búnaðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það viðkomandi héraðs­dýralækni samdægurs. Héraðsdýralæknir skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand hrossanna og aðbúnað. Að öðru leyti fer um mál skv. 4. mgr. eftir ákvæðum 16. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

II. KAFLI

Umhirða.

4. gr.

Fóðrun og beit.

Hross skulu ávallt hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notkunar.

Hross skulu hafa aðgang að beit í a.m.k. tvo mánuði samfellt á tímabilinu 1. maí til 1. október.

Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umhirðu. Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir c-lið viðauka I við reglugerðina, um holdastigun.

Forðast skal allar snöggar fóðurbreytingar og aðeins nota óskemmt fóður. Hvort sem fóðrað er utandyra eða innan, skal þess gætt að undirlag sé þurrt og laust við taðmengun.

Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring. Óheimilt er að hafa hross án fóðurs lengur en 14 klst. og án drykkjarvatns lengur en fjórar klst. Folaldshryssur er óheimilt að hafa án vatns og fóðurs lengur en tvær klst. Eftir notkun skulu hross ávallt hafa aðgang að nægu drykkjarvatni.

5. gr.

Hirðing og heilbrigðiseftirlit.

Eigandi eða umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans eigu/umsjá og leita lækninga ef með þarf. Hann skal koma í veg fyrir að ormasmit nái að magnast upp með beitarstjórnun og ormalyfjagjöf. Gefa skal ormalyf a.m.k. einu sinni á ári. Halda skal hrossum hreinum, verja þau ytri óværu, snyrta hófa og raspa tennur eftir þörfum.

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að hross sé haldið alvarlegum eða áður óþekktum smitsjúkdómi er skylt að tilkynna það héraðsdýralækni þegar í stað.

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um merkingar nr. 289/2005 er eigandi eða umráða­maður ábyrgur fyrir að sjúkdómar í hrossi á hans vegum og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Dýralæknum er skylt í lok hverrar vitjunar að skrá á viðurkenndan hátt upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meðhöndlun og lyfja­notkun. Einnig skal skrá leiðbeiningar um framhaldsmeðferð, nýtingu afurða og takmark­anir á þátttöku í sýningu og keppni. Upplýsingarnar skulu ávallt vera aðgengi­legar Landbúnaðarstofnun og eiganda.

Að vetri skal fylgjast daglega með hrossum á útigangi, en vikulega með hrossum í heimahögum að sumri. Umráðamenn stóðhesta skulu hafa daglegt eftirlit með stóðhestagirðingum.

Hross á húsi skulu fá hreyfingu eða aðra útivist í a.m.k. klukkustund á dag, nema sjúkdómar eða veður hamli. Óheimilt er að halda hross ein á húsi.

6. gr.

Notkun.

Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra leyfir. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar.

Hross skulu járnuð ef hætta er á að hófar slitni til skaða við notkun eða rekstur. Þess skal gætt að hvíla hross reglulega á ferðalögum og að þeim sé ekki ofgert.

Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og valdi ekki sárum eða öðrum skaða.

7. gr.

Skráning dagbókar.

Halda skal dagbók um notkun og umhirðu hrossa á hestaleigum, tamningastöðvum og í reiðskólum. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum skv. reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

III. KAFLI

Aðbúnaður.

8. gr.

Hesthús og innréttingar.

Innréttingar og annar útbúnaður hesthúsa skulu vera þannig að ekki skapist hætta á að hross verði fyrir meiðslum eða heilsutjóni. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að fljótlegt sé að rýma þau í neyðartilvikum. Stíuveggir skulu vera þannig gerðir að ekki skapist hætta á að fætur eða höfuð festist. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 cm.

Innréttingar skulu vera þannig gerðar að hross geti séð önnur hross á húsi. Í byggingar og innréttingar skal nota efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hvers konar hættuleg og heilsuspillandi efni.

Gólf skulu vera með stömu yfirborði sem auðvelt er að þrífa. Steypt gólf í básum skulu klædd gúmmímottum eða öðru mjúku efni. Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku. Ganga skal frá niðurföllum þannig að þau valdi ekki slysum eða óþægindum.

Stíur skulu vera svo stórar að hestur/hestar geti auðveldlega legið og snúið sér innan hennar.

Básar skulu einungis notaðir tímabundið fyrir hvert hross. Básar og stíur skulu uppfylla kröfur um lágmarksstærðir sem fram koma í a-lið viðauka I við reglugerð þessa.

9. gr.

Loftræsting.

Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum, en loftskipti eiga að vera næg til að magn skaðlegra loftegunda sé að jafnaði innan viðurkenndra hættumarka sbr. b-lið viðauka I við reglugerð þessari.

Hita og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í b-lið viðauka I.

Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur vera innan þeirra marka sem um getur í b-lið viðauka I við reglugerð þessa.

10. gr.

Birta og lýsing.

Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo að ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum. Glugga, ljós og raf­magns­leiðslur skal verja þannig að ekki valdi slysum.

11. gr.

Gerði og girðingar.

Gerði við hesthús skal að lágmarki vera 100 fermetrar. Óheimilt er að nota gaddavír og háspenntar rafgirðingar í gerði. Afrennsli skal vera gott þannig að ekki myndist svað og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum.

Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum.

Forðast skal að nota ristahlið á girðingar umhverfis hrossahólf eða þar sem umferð hrossa er mikil. Um hrossagirðingar fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglugerðar nr. 748/2002 um girðingar, sbr. 13. og 14. gr.

12. gr.

Skjól i hrossahögum.

Hross sem ganga úti frá 1. október til 1. júní skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Þar sem fullnægjandi náttúruleg skjól eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem ganga í þrjár stefnur eða mynda með öðrum hætti skjól úr öllum áttum. Hver skjólveggur skal vera að lágmarki 2,5 m á hæð og 4 m á lengd eða svo stór að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls. Skjólveggirnir skulu traust­lega byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossunum. Eftirlits­aðilar skv. 3. mgr. 3. gr. fylgjast með því að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.

Umhverfi, hönnun og viðhald húsa og skýla skal vera þannig að ekki valdi slysum og gripir haldist hreinir.

13. gr.

Umhverfi.

Frágangi taðþróa og haughúsa skal þannig háttað að ekki valdi mengun umhverfis eða hættu fyrir menn og skepnur, sbr. reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns o.fl.

IV. KAFLI

Gildistaka o.fl.

14. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 132/1999.

15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Hesthús sem innréttuð eru fyrir gildistökudag reglugerðar þessarar, eða sem hlotið hafa samþykki byggingaryfirvalda fyrir gildistöku hennar eru undanþegin ákvæðum a-liðar viðauka I um stíu- og básastærðir og ákvæðum 11. gr. um lágmarksstærð gerða. Um þau gilda áfram ákvæði eldri reglugerðar nr. 132/1999 hvað þær stærðir varðar.

Landbúnaðarráðuneytinu 16. febrúar 2006.

F. h. r.

Ólafur Friðriksson.

Atli Már Ingólfsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica