Félagsmálaráðuneyti

209/1958

Reglugerð um holræsi á Seyðisfirði. - Brottfallin

REGLUGERÐ

Um holræsi á Seyðisfirði.

 

1. gr.

Þar sem bæ,jarstjórn hefur látið 1eggja holræsi i götu, veg eða um opið svæði er hverjum húseiganda, sem lóð á þar að, skylt að leggja á sinn kostnað ræsi frá húsinu, sem flytji allt skólp frá húsinu út í aðalræsið. Regnvatn af húsi og lóð skal einnig, að svo miklu leyti sem unnt er, leitt í húsræsið. Ef húseigandi van­rækir að leggja holræsi innan hæfilegs frests, sem bæjarstjórn tiltekur eða vega­nefnd fyrir hennar hönd, skal verkið unnið á hans kostnað.

 

2. gr.

Áður en húseigandi byrjar að leggja ræsi, skal hann skýra verkstjóra bæj­arins eða þeim, sem veganefnd felur umsjón með lagningu holræsa í bænum, frá því og fá samþykki þar til. Lega, halli, stærð og gerð pípna, brunna, vatnslása og yfir höfuð alls þess, sem skólplögninni innan og utan húss til heyrir, skal ákveðið í samráði við umsjónarmann. Hann skal og hafa umsjón með verkinu, og er hús­eiganda skylt að hlýða fyrirmælum hans í öllu því, sem að tilhögun og lagningu ræsanna lýtur. Sé um stór hús að ræða eða mikla lögn, má umsjónarmaður vega­nefndar krefjast uppdráttar, sem sýni glögglega alla tilhögun lagnarinnar. Rísi ágreiningur á milli umsjónarmanns og húseiganda út af holræsalögn, skal bæjar­stjórnin skera úr.

 

3. gr.

Bæjarstjórnin getur löggilt menn, sem teljast skulu hæfir að leggja og ganga frá holræsum, bæði utan húss og innan, enda sýni þeir eða sanni fyrir veganefnd, að þeir séu til þess færir. Þeir einir, sem bæjarstjórn löggildir til holræsalagninga, skulu hafa rétt til að leggja og ganga frá skólpræsum, sem standa í sambandi við holræsakerfi bæjarins.

 

4. gr.

Kostnaður við holræsagerð bæjarins greiðist úr bæjarsjóði. Til þess að stand­ast útgjöld þau, sem stafa af lagningu holræsa, ber hverjum þeim, sem hús á, lóð eða lóðarréttindi við götu, veg eða opið svæði, sem bærinn hefur lagt holræsi í, að greiða árlega til bæjarsjóðs 0.5% af fasteignamatsverði húss og lóðar og enn fremur 10 krónur fyrir hvern metra lóðar meðfram götu, vegi eða opnu svæði húsræsis megin, hvort heldur er um framlóð eða baklóð að ræða. Húseigandi greiðir jafnan metragjaldið af þeirri hlið lóðar sinnar, sem hann leggur húsræsi sitt út frá. Undanþágu eða ívilnun má þó veita, ef lóð er svo háttað, að auð­veldara er að koma skólpi eða afrennsli frá henni á annan hátt en í aðalræsið eða erfiðara að koma því á aðalræsið, en frá öðrum lóðum yfirleitt. Aukagjald má leggja á, ef skólp frá einhverri lóð er þannig, að telja má meiri útgjöld stafa af að koma því í burt, en öðru skólpi. Gjöld samkvæmt grein þessari er bæjar­stjórn heimilt að hækka eða lækka um 25 af hundraði, án þess að samþykki ráðuneytisins komi til.

 

5. gr.

Heimilt er bæjarstjórn að undanþiggja þá hús- og lóðareigendur, sem sjálfir hafa lagt holræsi frá húsi sínu og talið er viðunandi, að dómi bæjarstjórnar, frá þeirri skyldu að greiða holræsagjald og leggja nýtt ræsi i holræsi bæjarins.

 

6. gr.

Eigandi 1óðar ábyrgist holræsagjald, en heimilt er honum að hækka leigu eftir lóð eða mannvirki á henni, sem gjaldi eða gjaldauka svarar, þótt leiga hafi áður verið ákveðin. Gjaldið hefur lögtaksrétt, og er það tryggt með lögveði í húsi og mannvirkjum lóðareiganda á henni næstu 2 ár eftir gjalddaga, með forgangs­rétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. árlegur gjalddagi holræsa­gjalds er 1. apríl.

 

7. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum allt að 2000 krónum, sem renna í ríkissjóð. Mál út af brotum gegn reglugerð þessari skal fara með að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Seyðisfjarðar­kaupstaðar staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr.15  20. júní 1923, til þess að öðlast gildi 1. janúar 1959 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

 

Félagsmálaráðuneytið, 31. desember 1958

 

Friðjón Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica