Innanríkisráðuneyti

159/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja.

1. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar:

Í stað 1.3.3 kemur: 1.3.4.

2. gr.

13. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Sækja má um undanþágu frá reglum um lengd, breidd, hæð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis til Samgöngustofu sem aflar samþykkis Vegagerðar og lögreglustjóra eins og við á í samræmi við verklagsreglur þar um. Þetta á við þegar nauðsyn þykir bera til, vegna óskiptanlegra eða sérstakra flutninga sem ekki geta með góðu móti farið fram með öðrum hætti. Þetta á einnig við varðandi undanþágu frá lengd, breidd og hæð á skiptanlegum farmi ef augljós hagkvæmnisrök mæla með slíkum flutningum, sem og flutning á farþegum í sérstökum tilvikum á styttri leiðum þegar nauðsyn krefur, m.a. til að tryggja öryggi farþega, enda sé umferðaröryggi ekki skert eða aukin hætta á skemmdum á vegamannvirkjum. Samgöngustofa getur sett nánari skilyrði fyrir leyfi og getur bundið undanþágu við ástand vega og mannvirkja hverju sinni og gerð ökutækis.

Við veitingu undanþágu skv. 1. mgr. skal Samgöngustofa hafa samráð við veghaldara eftir því sem við á. Þegar undanþága varðar flutning um tvö eða fleiri lögregluumdæmi sér Samgöngustofa um að kynna flutninginn fyrir viðkomandi lögregluembættum eftir því sem við á.

Undanþágu skv. 1. mgr. má veita fyrir einn flutning eða í tiltekinn tíma, allt að einu ári enda sé gætt ákvæða 14. gr. Sé um farþegaflutninga að ræða er einungis hægt að veita undanþágu frá 1. október til 31. maí.

Leyfið skal vera skriflegt og haft meðferðis meðan á flutningi stendur.

Brot á skilyrðum undanþágu samkvæmt þessari grein getur varðað afturköllun undanþágu. Synja má um undanþágu hafi umsækjandi ítrekað gerst sekur um slíkt brot.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 75. og 76. gr. umferðarlaga, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 10. febrúar 2017.

Jón Gunnarsson
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica