Umhverfisráðuneyti

157/1993

Reglugerð um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi. - Brottfallin

Almenn ákvæði.

1. gr.

Óheimilt er að brenna sinu nema á jörðum sem eru í ábúð eða nýttar af ábúendum lögbýla og þá samkvæmt leyfi sýslumanns.

2. gr.

Aldrei má brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða af getur hlotist tjón á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri og mannvirkjum.

Tímamörk til sinubrennu.

3. gr.

2Eftir 1. maí ár hvert er hvarvetna óheimilt að brenna sinu og leyfi til sinubrennu gilda aðeins til þess tíma.

Telji sýslumaður að veðrátta eða snjóalög hafi hamlað sinubrennu fyrir 1. maí getur hann að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið þó veitt leyfishöfum, sbr. 4. gr., heimild til að brenna sinu til 15. maí. Sækja þarf um slíka heimild til sýslumanns hverju sinni og skal hann halda skrá yfir veitt leyfi.

Leyfi til sinubrennu.

4. gr.

Sýslumaður getur veitt ábúendum lögbýla leyfi til að brenna sinu að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

1. Takmörk þess svæðis sem fyrirhugað er að brenna sinu á skulu vera veI skilgreind.

2. Innan 200 m fjarlægðar frá mörkum svæðisins skulu ekki vera mannvirki, náttúruminjar, mosi, lyng, trjágróður eða ræktun sem eldur getur spillt eða grandað.

3. Varp fugla skal ekki vera hafið á svæðinu eða umhverfis það í minna en 200 m fjarlægð.

4. Jarðvegur og gróðursvörður skal ekki vera svo þurr að hætta sé á að eldur valdi tjóni.

Umsókn um leyfi til sinubrennu.

5. gr.

Umsókn um leyfi til sinubrennu skal fylgja vottun viðkomandi héraðsráðunautar, náttúruverndarnefndar eða gróðurverndarnefndar um að skilyrðum 1. og 2. töluliðar 4. gr. sé fullnægt.

Ef þess er óskað getur sýslumaður veitt leyfi til sinubrennu til allt að þriggja ára í senn enda sé skilyrðum 4. gr. fullnægt í hvert skipti sem brennt er.

Sýslumaður getur afturkallað leyfi til sinubrennu um stundarsakir, t.d. ef viðkomandi slökkviliðsstjóri telur hana viðsjárverða vegna veðurs eða annarra mikilvægra ástæðna. Jafnframt getur sýslumaður afturkallað leyfi til sinubrennu ef viðkomandi leyfishafi hefur ekki fylgt skilyrðum sem sett eru með reglugerð þessari og lögum nr. 61/1992.

6. gr.

Framkvæmd sinubrennu.

Leyfishafi skal tilkynna viðkomandi slökkviliðsstjóra með a.m.k. sex tíma fyrirvara í hvert skipti sem hann hyggst brenna sinu á því svæði sem hann hefur leyfi til. Á sama hátt skal hann tilkynna nágrönnum og eigendum eða umsjónarmönnum mannvirkja og lands, sem liggja í innan við 1000 m fjarlægð frá mörkum þess svæðis sem brenna skal, um fyrirhugaða brennu með sama fyrirvara.

Leyfishafi ber ábyrgð á framkvæmd sinubrennu. Hann skal hafa stöðuga gát á sinueldinum og útbreiðslu hans og hafa yfir að ráða mannafla og tækjum til að halda eldinum innan þeirra marka sem honum voru í upphafi sett og leyfið tekur til.

Um elda á víðavangi.

7. gr.

Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.

Skylt er hverjum þeim sem ferðast um að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds.

Þar sem eldur er gerður á víðavangi til annarrs en að brenna sinu skal um hann búið í sérstöku eldstæði eða hann kveiktur á þess konar undirlagi að tryggt sé að hann breiðist ekki út eða svíði gróður eða jarðveg. Eld skal slökkva tryggilega eða gæta þess að hann sé að fullu kulnaður áður en eldstæðið er yfirgefið.

Sá sem verður þess var að eldur er laus á víðavangi skal svo fljótt sem auðið er gera umráðamanni lands eða hlutaðeigandi yfirvaldi aðvart.

Um viðurlög og gildistöku.

8. gr.

Sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé ber fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst.

9. gr.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 4. gr. laga nr. 61/1992 um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi öðlast gildi þegar í stað.

Umhverfisráðuneytið, 6. apríl 1993.

Eiður Guðnason.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica