Félagsmálaráðuneyti

771/1998

Reglugerð um breytingu á reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla nr. 653/1997. - Brottfallin

Reglugerð

um breytingu á reglugerð um jöfnunarframlög

Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla nr. 653/1997.

 

1. gr.

Við 3. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi:

Útreiknuð framlög hvers árs skal leiðrétta þegar endanlegur álagningarstofn útsvars viðkomandi árs liggur fyrir. Leiðréttingin skal fara fram fyrir 31. desember árið á eftir og skal leiðrétting hvers sveitarfélags koma til frádráttar/viðbótar áætluðu almennu jöfnunarframlagi fyrir næsta fjárhagsár eftir leiðréttingardag. Reynist áætlunin lægri en frádráttur er heimilt að taka af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs til að mæta mismuninum.

2. gr.

Síðasta málsgrein 5. töluliðar A hluta 3. greinar verði svohljóðandi:

Þá skal einnig leiðrétta niðurstöðuna m.t.t. kennsluafsláttar kennara og leiðbeinenda vegna aldurs og kennsluferils. Ennfremur skal leiðrétta niðurstöðuna m.t.t. mismunandi meðalgrunnlauna skólastjóra, kennara og leiðbeinenda í grunnskólum þannig að þeir skólar, þar sem meðalgrunnlaun eru umfram meðaltal landsins, fá leiðréttingu til hækkunar en skólar, þar sem meðalgrunnlaunin eru undir meðaltali landsins, fá leiðréttingu til lækkunar. Við þá leiðréttingu skal miða við heildarkjarasamning milli Kennarasambands Íslands annars vegar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar eins og hann er hverju sinni. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skal setja nánari vinnureglur um útreikning slíkra leiðréttinga.

3. gr.

Þriðja málsgrein 5. gr. fellur út.

Á eftir fjórðu málsgrein 5. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi:

Framlagið skal greitt í einu lagi eftir á fyrir 31. janúar. Við útreikning framlagsins skal raunkostnaður þessara forfalla ársins á undan lagður til grundvallar ásamt áætluðum útsvarsstofni sama árs.

Síðasta málsgrein 5. greinar fellur út.

4. gr.

6. grein reglugerðarinnar verði svohljóðandi:

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal greiða öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg framlög til nýbúafræðslu á grunnskólastigi þar sem um slíkt er að ræða. Sveitarfélög, sem ekki reiknast með jöfnunarframlög skv. 3. gr., fá þó ekki framlög samkvæmt þessari grein.

Framlagið skal vera 75.000 kr. á hvern nýbúa á ári miðað við einstaklingskennslu. Þar sem mögulegt er að kenna saman fleiri nemendum lækkar framlagið á hvern nemanda um 7.000 kr. á ári vegna hvers viðbótarnemanda, en verður þó aldrei lægra en 40.000 kr. á nemanda. Framlagið greiðist beint til viðkomandi heimasveitarfélags.

Reykjavíkurborg annast fyrir Jöfnunarsjóð upplýsingaöflun vegna útreiknings framlagsins samkvæmt sérstökum samningi milli Reykjavíkurborgar, Jöfnunarsjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á grundvelli samningsins annast Reykjavíkurborg einnig kennsluráðgjöf fyrir sveitarfélög utan höfuðborgarinnar.

Í lok hvers skólaárs skal Reykjavíkurborg senda Jöfnunarsjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga skýrslu um þjónustu þessa.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 21. desember 1998.

Páll Pétursson.

Húnbogi Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica