Samgönguráðuneyti

155/2007

Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Markmið með reglugerð þessari er að setja reglur um hámark leyfilegrar stærðar og þyngdar ökutækis með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki.

Reglugerð þessi gildir um bifreiðar, eftirvagna, tengitæki og, eftir því sem við á, dráttarvélar og vinnuvélar sem ætluð eru til notkunar á vegum.

2. gr.

Skýringar.

Vagnlest: Vélknúið ökutæki sem eftirvagn eða tengitæki er tengt við.

Eftirvagn: Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru ökutæki og aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga. Undir skilgreininguna eftirvagn falla:

Tengivagn: Eftirvagn á tveimur ásum eða fleiri sem tengdur er við dráttartæki án þess að lóðréttir kraftar geti flust á milli ökutækjanna.

Festivagn: Eftirvagn á einum ási eða fleiri sem tengdur er við dráttartæki þannig að hluti af þyngd eftirvagnsins hvílir á því.

Hengivagn: Eftirvagn á einum eða tveimur ásum sem tengdur er við dráttartæki þannig að lóðréttir kraftar færast á milli ökutækjanna.

Liðvagn: Hópbifreið sem sett er saman úr tveimur ósveigjanlegum hlutum, tengdum saman með liðamótum, sem innangengt er á milli.

Jafnhitavagn: Ökutæki með fastri eða færanlegri yfirbyggingu sem sérstaklega er búin til að flytja vörur við stillanlegt hitastig og hefur a.m.k. 45 mm þykka hliðarveggi að einangrun meðtalinni.

Tengitæki: Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru ökutæki og er ekki eftirvagn. Ennfremur hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn.

Háþekjugámur: Gámur allt að 2,9 m að hæð.

Ásþungi: Þungi ökutækis sem hvílir á hjólum á einum ási eða ásasamstæðu.

Heildarþyngd ökutækis: Þyngd ökutækis eða vagnlestar með ökumanni, farþegum, farmi og viðfestum vinnutækjum.

Mál sem tilgreind eru um lengd, breidd og hæð ökutækja eiga einnig við lausar yfirbyggingar og staðlaðar farmeiningar, t.d. gáma, svo og um farm ökutækis.

II. KAFLI

Stærð og þyngd ökutækis.

3. gr.

Skyldur ökumanns.

Ökumaður ökutækis, sem reglugerð þessi gildir um, skal sýna sérstaka varúð í umferðinni með tilliti til stærðar og þunga ökutækis/vagnlestar og skal víkja greiðlega fyrir öðrum ökutækjum og nema staðar ef þörf krefur.

Ökumaður skal gæta þess sérstaklega, með tilliti til hæðar ökutækis, að valda ekki hættu eða óþægindum við akstur undir brú, í göngum, undir rafmagns- eða símalínu eða við svipaðar aðstæður.

4. gr.

Merking vagnlestar.

Aftan á vagnlest, sem er lengri en 18,75 m skal vera merki um hámarkshraða slíks ökutækis og skilti með gulum fleti og rauðum jaðri, með áletruninni "LANGT ÖKUTÆKI", sbr. viðauka III. Óheimilt er að hafa skiltið aftan á vagnlest sem er 16,50 m eða styttri.

5. gr.

Lengd ökutækis.

Leyfileg lengd ökutækis er eftirfarandi:

 1. hópbifreið með fleiri en tvo ása, 15,00 m,
 2. hópbifreið með tvo ása, 13,50 m,
 3. hópbifreið sem er liðvagn, 18,75 m,
 4. bifreið, önnur en hópbifreið, 12,00 m,
 5. festivagn, 13,30 m,
 6. vagnlest, hópbifreið með eftirvagn eða tengitæki, 18,75 m,
 7. vagnlest, bifreið, önnur en hópbifreið, með festi- eða hengivagni eða samsvarandi tengitæki, 18,75 m,
 8. vagnlest, bifreið önnur en hópbifreið, með tengivagni eða samsvarandi tengitæki, 22,00 m.

Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur. Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins. Lárétt fjarlægð frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að hvaða hluta sem er fremst á festivagninum má mest vera 2,04 m.

Bifreið, svo og vagnlest, skal vera hægt að aka innan snúningsboga með 12,50 m radíus í ytri hring og 5,30 m radíus í innri hring, sbr. V. viðauka. Ákvæði þetta telst vera uppfyllt fyrir vagnlest með festivagni ef fjarlægð frá tengipinna vagnsins til miðju fræðilegs afturáss er ekki meiri en 9,20 m.

Þrátt fyrir ákvæði h-liðar 1. mgr. er heimilt að hafa vagnlest bifreiðar með tengivagni þannig að lengdin megi vera allt að 25,25 m í samræmi við eftirfarandi skilyrði:

 1. Lengd farmrýmis tengivagns má ekki vera meiri en 13,60 m.
 2. Bifreið og tengivagn skulu búin hemlum með læsivörn.

Heimild skv. 4. mgr. er bundin við þá vegi og þann tíma sem greinir í IV. viðauka. Um aðra vegi og tíma gilda ákvæði 13. gr. um undanþágu vegna sérstakra flutninga.

6. gr.

Mæling lengdar.

Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar sem er bifreið með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda vagnsins, má mest vera 18,90 m.

Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, má mest vera 19,65 m.

Fjarlægð milli aftasta áss bifreiðar og fremsta áss tengivagns má ekki vera minni en 3,00 m.

7. gr.

Breidd ökutækis.

Leyfileg breidd bifreiðar og eftirvagns er 2,55 m með þeirri undantekningu að yfirbygging jafnhitavagns má vera 2,60 m.

Leyfileg breidd vinnuvélar, eftirvagns hennar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m. Lögreglan getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.

Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra.

8. gr.

Breidd eftirvagns.

Breidd eftirvagns eða tengitækis, sem bifreið dregur, má ekki vera meiri en sem nemur 30 cm út fyrir hvora hlið bifreiðar.

9. gr.

Hæð ökutækis.

Leyfileg hæð ökutækis er 4,20 m sem skal mæld hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta þess sem hæst stendur.

10. gr.

Heildarþyngd og ásþungi.

Í I. viðauka reglugerðarinnar er kveðið á um leyfilega heildarþyngd og ásþunga ökutækis. Ákvæði II. viðauka gilda um slíkt hámark á vegum sem ekki þola þá þyngd sem tilgreind er í I. viðauka. Veghaldari getur gefið út skrá yfir vegi sem falla undir ákvæði I. og II. viðauka en ella gilda ákvæði I. viðauka.

Ásþungi drifáss eða drifása bifreiðar má ekki vera innan við 25% af heildarþyngd bifreiðar eða vagnlestar.

Leyfileg heildarþyngd og ásþungi ökutækis miðast við að loftþrýstingur í hjólbörðum sé ekki meiri en 8 bör eða 116 psi, mælt í köldum hjólbarða. Þó má loftþrýstingur vera 9 bör í negldum snjóhjólbörðum.

Leyfileg heildarþyngd bifreiðar með fimm eða sex ásum er 32 tonn og gilda þá ákvæði liðar 1.3.3 í I. viðauka.

Leyfileg heildarþyngd bifreiðar á beltum er 12 tonn.

Ökutæki má þó ekki hlaða þannig að heildarþyngd þess eða ásþungi verði meiri en heimilað er í skráningarskírteini þess.

III. KAFLI

Frávik frá stærð og þyngd ökutækis.

11. gr.

Tímabundnar takmarkanir.

Veghaldari getur takmarkað tímabundið leyfilega heildarþyngd og leyfilegan ásþunga ökutækja skv. 10. gr., miðað við burðarþol brúar eða vegar, svo sem þegar frost fer úr vegi. Þegar þungatakmarkanir eru í gildi skal heildarþyngd og ásþungi vera í samræmi við VI. viðauka.

12. gr.

Frávik frá leyfilegri heildarþyngd ökutækis.

Veghaldara er heimilt að veita undanþágu frá reglum um heildarþyngd ökutækja skv. 10. grein á einstökum vegum eða vegarköflum skv. I. viðauka og leyft allt að:

a. 44 tonna heildarþunga vagnlestar sem er að lágmarki 5 ása enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. hver ás, nema framás bifreiðar, sé á tvöföldum hjólum og með loftfjöðrum eða öðrum búnaði sem telst jafngildur,
 2. lágmarks hjólbarðastærð skal vera 275/70R22,5,
 3. bifreið sé með drifi á a.m.k. tveimur sívirkum drifásum,
 4. þungi á framási sé 7 tonn að hámarki en á öðrum ásum ekki meiri en 10 tonn og
 5. loftþrýstingur í hjólbarða sé takmarkaður að hámarki við 7 bör eða 102 psi í hjólbörðum framása (eða 7,5 bör eða 109 psi sé framás með loftfjöðrun eða öðrum búnaði sem telst jafngildur eða með hjólbarðastærð að lágmarki 385/65R22,5) og 6 bör eða 87 psi í hjólbörðum afturása, mælt í köldum hjólbarða.

b. 49 tonn fyrir vagnlest sem er að lágmarki 6 ása, enda séu uppfyllt:

 1. sömu skilyrði og tilgreind eru í a-lið, og
 2. a.m.k. 13,5 m séu milli fremsta og aftasta áss vagnlestar og a.m.k. 6 m frá aftasta ási ökutækis að fremsta ási festivagns.

Veghaldari getur takmarkað heimild skv. 1. mgr. við ástand vega hverju sinni og gerð ökutækis í samræmi við 11. gr.

Ítrekuð brot á skilyrðum heimildar skv. þessari grein getur varðað banni við beitingu heimildar samkvæmt greininni. Vegagerðin tekur ákvörðun um beitingu banns og tilkynnir um það til lögreglu.

13. gr.

Sérstakur flutningur.

Sækja má um undanþágu frá reglum um lengd, breidd, hæð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis til Vegagerðarinnar sem aflar samþykkis lögreglustjóra eins og við á í samræmi við verklagsreglur þar um. Þetta á við þegar nauðsyn þykir bera til, vegna óskiptanlegra eða sérstakra flutninga sem ekki geta með góðu móti farið fram með öðrum hætti. Vegagerðin getur sett nánari skilyrði fyrir leyfi og getur bundið undanþágu við ástand vega og mannvirkja hverju sinni og gerð ökutækis.

Við veitingu undanþágu skv. 1. mgr. skal Vegagerðin hafa samráð við aðra veghaldara eftir því sem við á. Þegar undanþága varðar flutning um tvö eða fleiri lögregluumdæmi sér Vegagerðin um að kynna flutninginn fyrir viðkomandi lögregluembættum eftir því sem við á.

Undanþágu skv. 1. mgr. má veita fyrir einn flutning eða í tiltekinn tíma, allt að einu ári enda sé gætt ákvæða 14. gr.

Leyfið skal vera skriflegt og haft meðferðis meðan á flutningi stendur.

Brot á skilyrðum undanþágu samkvæmt þessari grein getur varðað afturköllun undanþágu. Synja má um undanþágu hafi umsækjandi ítrekað gerst sekur um slíkt brot.

IV. KAFLI

Lögreglufylgd og eftirlit.

14. gr.

Lögreglufylgd vegna flutninga.

Þegar um flutning skv. 13. gr. er að ræða metur lögregla þörf á aðstoð hverju sinni með tilliti til umfangs og hættu við flutning, nauðsyn á stjórnun annarrar umferðar og annarra kringumstæðna í samræmi við reglur sem hún setur þar um. Lögregla getur í stað fylgdar mælt fyrir um sérstaka merkingu þ.m.t. um ljósabúnað.

Flytjandi skal óska eftir fylgd til Vegagerðar eða lögreglu um leið og sótt er um undanþágu skv. 13. gr.

Sá sem fær undanþágu til flutninga skv. 13. gr. skal greiða fyrir kostnað vegna lögreglufylgdar sem að mati lögreglustjóra er þörf á við flutninginn.

Lögreglustjóri getur krafist þess að kostnaður þessi verði greiddur fyrirfram eða að sett verði trygging sem hann metur gilda fyrir greiðslu hans.

15. gr.

Eftirlit.

Vegagerðin annast auk lögreglu eftirlit með stærð og þyngd ökutækja.

Sérstökum eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar er heimilt að stöðva ökutæki til þess að vigta þau og gera aðrar athuganir sem nauðsynlegar kunna að vera vegna eftirlits á stærð og þyngd ökutækja.

Reynist heildarþyngd eða ásþungi ökutækis meiri en heimilt er, ber ökumanni að fara eftir fyrirmælum eftirlitsmanns um að létta ökutækið eða gera aðrar ráðstafanir um áframhaldandi akstur ökutækis, krefjist eftirlitsmaður þess.

V. KAFLI

Málsmeðferð o.fl.

16. gr.

Málsmeðferð.

Um málsmeðferð vegna synjunar banns eða synjunar á undanþágu skv. 12. og 13. gr. reglugerðarinnar gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

17. gr.

Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu í samræmi við XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, svo og reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota.

18. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari hefur verið innleidd tilskipun ráðsins nr. 96/53/EB um að ákveða leyfileg hámarksmál vegna umferðar innan aðildarríkja og milli landa og leyfilega hámarksþyngd vegna umferðar milli landa fyrir tiltekin ökutæki sem eru í notkun í bandalaginu og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/7/EB sem breytir henni.

19. gr.

Viðaukar.

Eftirtaldir viðaukar, nr. I-VI fylgja reglugerðinni og eru hluti hennar:

I.

Leyfileg heildarþyngd og ásþungi á vegum.

II.

Leyfileg heildarþyngd og ásþungi á vegum sem ekki falla undir viðauka I.

III.

Merki fyrir langt ökutæki.

IV.

Undanþágur fyrir vagnlestir samkvæmt 4. og 5. mgr. 5. gr.

V.

Samanburður á ásþunga í viðauka I og II.

VI.

11. gr. viðauki.20. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 68., 75. og 76. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 og tekur gildi 1. mars 2007. Frá sama degi fellur úr gildi reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 688/2005, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. er heimilt til 1. janúar 2010 að nota háþekjugáma við flutninga á vegum þannig að heildarhæð vagns og gáms nemi allt að 4,40 m hæð. Ökumaður og flytjandi bera ábyrgð á að flutningurinn fari um leiðir þar sem mannvirki leyfa þá hæð.

Samgönguráðuneytinu, 27. febrúar 2007.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Viðaukar og fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica