Félagsmálaráðuneyti

72/1999

Reglugerð um varasjóð viðbótarlána. - Brottfallin

Reglugerð

um varasjóð viðbótarlána.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til varasjóðs, skv. X. kafla laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem starfar í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga. Skal sjóðurinn bæta einstök tjón, sem Íbúðalánasjóður verður fyrir, vegna útlánatapa á viðbótarlánum og vegna kostnaðar við uppboðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán.

Íbúðalánasjóður varðveitir varasjóðinn og skal hann aðskilinn frá öðrum fjárhag Íbúðalánasjóðs í bókhaldi og öðru reikningshaldi.

II. KAFLI

Stjórn og skipulag.

2. gr.

Stjórn.

Félagsmálaráðherra skipar stjórn varasjóðs til fjögurra ára í senn, sbr. 43. gr. laga um húsnæðismál. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum.

Í starfsreglum, er stjórn varasjóðs setur, skal nánar kveðið á um innra skipulag og starfshætti sjóðsins.

Stjórn varasjóðs skal gæta þess að fé sjóðsins sé ávaxtað með tryggum hætti og að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

3. gr.

Verkefni.

Auk þess að bæta einstök tjón Íbúðalánasjóðs, sbr. 1. gr. sinnir varasjóður eftirtöldum verkefnum, sbr. ákvæði VIII til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál:

1.             Að bæta tjón vegna byggingargalla, sbr. IV. kafla.

2.             Að greiða niður áhvílandi eldri lán Byggingarsjóðs verkamanna, sbr. V. kafla.

Verkefni varasjóðs skv. 1. mgr. skulu aðgreind sem sérstakar deildir í bókhaldi sjóðsins sem hafa aðskilinn fjárhag. Stjórn sjóðsins er heimilt að færa fé á milli deildanna, ef ástæða þykir til.

4. gr.

Samráðsnefnd.

Stjórn Íbúðalánasjóðs og stjórn varasjóðs skulu koma á fót sérstakri samráðsnefnd, til að fjalla um samstarf varasjóðs og Íbúðalánasjóðs, miðla upplýsingum, er snerta framkvæmd III. kafla reglugerðar þessarar, og til að leysa úr ágreiningi, sem upp kann að koma vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar og ákvæða X. kafla laga um húsnæðismál.

Samráðsnefnd skal skipuð fjórum mönnum og skipar hvor aðili tvo menn í nefndina. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Skipunartími samráðsnefndar er tvö ár. Samráðsnefnd velur einn nefndarmann til þess að vera formaður. Skal formaður annast boðun funda og stjórn þeirra.

III. KAFLI

Útlánatap á viðbótarlánum.

5. gr.

Framlag sveitarstjórna.

Til að standa undir tjóni Íbúðalánasjóðs, sbr. 1. gr., skal sveitarfélag greiða tiltekinn hundraðshluta viðbótarlána, sem framlag í varasjóð. Framlag skal nema 5% af viðbótarláni, sem veitt er út á hverja íbúð. Framlagið er óafturkræft.

Við árlega endurskoðun á fjárhag varasjóðs skal lagt mat á hundraðshluta framlaga sveitarfélaga, skv. 1. mgr. Á grundvelli slíks mats og að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands er félagsmálaráðherra heimilt að hækka eða lækka hlutfallið.

6. gr.

Innheimta vanskila og framkvæmd.

Íbúðalánasjóður gætir þess að við innheimtuaðgerðir vegna vanskila á viðbótarlánum sé beitt sömu reglum og við meðferð almennra lána.

Komi til nauðungarsölu skulu sömu reglur gilda um viðbótarlán og almenn lán Íbúðalánasjóðs, þ. á m. um verðmat og ákvörðun um kaup á íbúðum. Sömu reglur skulu ennfremur gilda um endursölu uppboðsíbúða með viðbótarlánum og íbúða eingöngu með almennum lánum.

Í vinnureglum, er Íbúðalánasjóður setur að höfðu samráði við stjórn varasjóðs, skal nánar kveðið á um innheimtuaðgerðir vegna vanskila á viðbótarlánum, um meðferð mála við nauðungarsölu og við endursölu íbúða. Íbúðalánasjóður skal annast um kynningu á reglunum, þ. á m. við nauðungarsölu íbúðar.

7. gr.

Tilkynning um nauðungarsölu.

Íbúðalánasjóður skal með tryggilegum hætti tilkynna stjórn varasjóðs um fyrirhugaða nauðungarsölu íbúðar með viðbótarláni um leið og tilkynning berst frá sýslumanni um framhald uppboðs, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs skal, auk þeirra atriða, er fram koma í tilkynningu sýslumanns, sbr. 1. mgr., koma fram, hvenær viðbótarlán var veitt og hvert hafi verið síðasta söluverð eignarinnar.

Stjórn varasjóðs metur sjálfstætt, hvort hún telji ástæðu til að bjóða í hlutaðeigandi eign á nauðungarsölu.

8. gr.

Tilkynning um niðurstöðu nauðungaruppboðs.

Þegar frumvarp að úthlutun söluverðs hefur verið samþykkt hjá sýslumanni tilkynnir Íbúðalánasjóður varasjóði um niðurstöðu uppboðsins. Með tilkynningu fylgir yfirlitsblað þar sem m.a. kemur fram áætlað markaðsverð eignar á uppboðsdegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, ljósrit af veðbókarvottorði, kröfulýsingu Íbúðalánasjóðs, frumvarpi sýslumanns og kaupsamningi með viðbótarláni.

9. gr.

Tjón og kostnaður Íbúðalánasjóðs.

Varasjóður greiðir tjón og kostnað Íbúðalánasjóðs vegna nauðungarsölu á íbúð með áhvílandi viðbótarláni. Um er að ræða tjón vegna tapaðra viðbótarlána Íbúðalánasjóðs og kostnað við uppboðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán, frá því beðið er um uppboð hjá sýslumanni og þar til íbúð hefur verið seld á nauðungaruppboði.

Varasjóður greiðir tjón og kostnað, skv. 1. mgr. með eftirfarandi hætti:

1.             Ef kaupandi er annar en Íbúðalánasjóður greiðir varasjóður það sem á vantar við útgáfu uppboðsafsals.

2.             Ef Íbúðalánasjóður er kaupandi þá greiðir varasjóður Íbúðalánasjóði það sem á vantar, þegar endursala uppboðsíbúðar hefur farið fram.

10. gr.

Málskot.

Telji stjórn varasjóðs að tjón Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns stafi af vangæslu hagsmuna á nauðungarsölu þá skal varasjóður senda kröfur sínar ásamt rökstuddri greinargerð um það til stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs má skjóta til kærunefndar húsnæðismála.

11. gr.

Framsal krafna.

Íbúðalánasjóður framselur varasjóði þá kröfu, sem ekki fæst greidd við sölu íbúðar á uppboði, sbr. 9. gr.

IV. KAFLI

Bætur tjóna vegna byggingargalla.

12. gr.

Tryggingarsjóður vegna byggingargalla.

Til að standa undir tjóni vegna byggingargalla rennur gjald sem greitt hefur verið í Tryggingarsjóð vegna byggingargalla, sbr. 4. mgr. 53. gr. laga um húsnæðismál.

Varasjóður skal bæta það tjón sem sannanlega er tilkomið vegna galla sem ekki er hægt að rekja til vanrækslu á eðlilegu viðhaldi.

13. gr.

Skilyrði.

Skilyrði fyrir greiðslum úr varasjóðnum sbr. 2. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál er eftirfarandi:

1.             Íbúðirnar hafi verið byggðar eftir stofnun Tryggingarsjóðs enda hafi verið tekið allt að 1% iðgjald vegna þeirra.

2.             Galla megi ekki rekja til vanrækslu á eðlilegu viðhaldi eða til eðlilegs slits.

3.             Reglubundið eftirlit og úttekt sveitarfélags hafi verið framkvæmt. Sveitarfélag skal sýna fram á reglubundið eftirlit með skriflegum skýrslum um eftirlit á byggingarstað þar sem skráðir eru helstu verkþættir og framvinda verksins hverju sinni. Ef um var að ræða kaup á íbúðum í smíðum eða nýjum íbúðum á almennum markaði skal leggja fram úttekt sem sýnir hvernig staðið hefur verið að eftirliti á þeim byggingarþáttum sem lokið er þegar kaup voru gerð. Skýrslur þessar og úttektir skulu hafa legið fyrir við lokaúttekt Húsnæðisstofnunar ríkisins. Sveitarfélag skal sjá um að sérstök úttekt verði gerð áður en ábyrgð verktaka samkvæmt ÍST 30 eða öðrum framlögðum gögnum rennur út. Sveitarfélag ber ábyrgð á því að úttekt þessi sé gerð og ber kostnað af henni.

4.             Úttektir byggingarfulltrúa á einstökum þáttum framkvæmdarinnar hafi farið fram og við lokaúttekt liggi fyrir vottorð byggingarfulltrúa á þeim byggingarstigum sem getið er um í byggingarreglugerð.

5.             Verktaki hafi við lokaúttekt lagt fram skriflegar staðfestingar um að steypa og annað efni sem notað hefur verið sé í samræmi við gæðakröfur í efnis- og verklýsingu.

6.             Lokaúttekt Húsnæðisstofnunar ríkisins, eða Íbúðalánasjóðs, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál hafi farið fram við verklok. Skrifleg skýrsla skal liggja fyrir þar sem m.a. er staðfest hvort skilyrðum 3. - 5. tl. þessarar greinar sé fullnægt.

7.             Að tryggingar verktaka bæti ekki tjónið.

14. gr.

Krafa til sveitarfélags.

Eigandi skal gera kröfur til sveitarfélags um úrbætur. Sveitarfélag skal síðan gera rökstudda kröfu um greiðslu úr varasjóðnum. Varasjóður, eða sá aðili sem hann vísar til, framkvæmir úttekt og metur tjónið.

15. gr.

Endurkröfuréttur.

Varasjóður á endurkröfurétt á verktaka eða þá aðra sem samkvæmt lögum og almennum reglum skaðabótaréttar bera ábyrgð á tjóni sem bætt hefur verið af sjóðnum.

16. gr.

Ábyrgðartími.

Ábyrgð varasjóðsins varir í 15 ár frá lokaúttekt Húsnæðisstofnunar ríkisins eða Íbúðalánasjóðs, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál á framkvæmdunum eða kaupunum. Ábyrgð sjóðsins er óháð öðrum reglum, samningum eða lögum um ábyrgð á tjóni vegna húsbygginga.

V. KAFLI

Niðurgreiðsla áhvílandi eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna.

17. gr.

Framlög.

Til niðurgreiðslu og afskrifta eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna skal renna:

1.             Söluhagnaður af íbúðum sem sveitarfélög hafa byggt eða keypt og innleystar eru af hálfu sveitarfélaga, eftir gildistöku laga um húsnæðismál, og endurseldar eru á almennum markaði.

2.             Framlög ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum.

18. gr.

Söluhagnaður.

Söluhagnaður, skv. 1. tölul. 17. gr., er mismunur annars vegar á söluverði á almennum markaði og hins vegar á innlausnarverði skv. 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál, svo og öllum kostnaði sveitarfélags við sölu íbúðar.

19. gr.

Samþykki varasjóðs.

Kauptilboð á almennum markaði í íbúðir sveitarfélaga sem innleystar hafa verið skal vera með fyrirvara um samþykki varasjóðs. Sveitarfélagi ber að senda stjórn varasjóðs kauptilboð ásamt söluyfirliti. Stjórnin hefur viku til að taka afstöðu til kauptilboðsins. Telji hún kauptilboð of lágt miðað við markaðsverð getur stjórnin óskað mats trúnaðarmanns og samþykkt eða hafnað erindi eftir atvikum.

20. gr.

Umsókn.

Sveitarfélag skal sækja til varasjóðs um niðurgreiðslu eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna skv. 3. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál. Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja með umsókn:

1.             Staða áhvílandi lána Byggingarsjóðs verkamanna.

2.             Kauptilboð á almennum markaði með fyrirvara um samþykki varasjóðs.

21. gr.

Hámark niðurgreiðslu.

Samþykki stjórn varasjóðs umsókn er henni heimilt að greiða sveitarfélagi fjárhæð sem nemur að hámarki mismun á uppgreiddu láni Byggingarsjóðs verkamanna og 90% af söluverði á almennum markaði. Geta varasjóðs til þess að taka þátt í niðurgreiðslu mismunar ræðst af framlögum, skv. 17. gr.

Framlag ríkissjóðs, sbr. 17. gr., sem hlutfall af hámarki niðurgreiðslu skv. 1. mgr., skal ákveðið að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Á grundvelli fjárhagsáætlunar sjóðsins setur stjórn varasjóðs nánari reglur um nýtingu heimilda, skv. 1. mgr., þ. á m. um hlut viðkomandi sveitarfélags í hámarki niðurgreiðslu áhvílandi uppreiknaðra lána Byggingarsjóðs verkamanna.

VI. KAFLI

Gildistaka.

22. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 45. gr., 50. gr. og 4. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, um húnæðismál, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 28. janúar 1999.

Páll Pétursson.

___________________

Þórhallur Vilhjálmsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica