Félagsmálaráðuneyti

550/1999

Reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu - Brottfallin

REGLUGERÐ

um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til innheimtu krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu, heimilda til samninga og skilyrða fyrir afskriftum slíkra krafna.

2. gr.

Kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu annars vegar þegar sjóðurinn kaupir fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins eru hærri en matsverð hennar við uppboð, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 og hins vegar þegar aðrir kaupa fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins sem hvíla á fasteign fást ekki að fullu greiddar af söluverði hennar.

3. gr.

Íbúðalánasjóður skal tilkynna skuldara bréflega um niðurstöðu uppgjörs á nauðungarsölunni um leið og frumvarp um úthlutun á söluverði og verðmat íbúðar liggur fyrir.

Í tilkynningu skal m.a. gera grein fyrir heimildum til að semja um uppgjör kröfunnar auk þess sem vekja skal athygli á því að skuldin beri dráttarvexti frá dagsetningu tilkynningar.

4. gr.

Náist ekki samningar sbr. 3. gr. skal þegar hefja innheimtuaðgerðir vegna krafna Íbúðalánasjóðs sem glata veðtryggingu við nauðungarsölu.

Innheimta skal reynd hjá skuldara allt þar til eignaleysi hans hefur verið sannað með árangurslausri aðfarargerð eða á annan tryggilegan hátt.

5. gr.

Íbúðalánasjóði er heimilt að skuldbreyta kröfu sem glatað hefur veðtryggingu með því að taka við nýju skuldabréfi til allt að 10 ára. Skuldabréfið skal vera vísitölutryggt og bera sömu vexti og fasteignaveðbréf Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma. Skuldabréfið skal tryggt með veði í fasteign innan markaðsverðs hennar.

Íbúðalánasjóður getur heimilað skuldara veðbreytingu (flutning) á lánum samkvæmt þessari grein. Veðkröfur sjóðsins eru þær sömu og í 1. mgr.

Hafi skuldari ekki samið um greiðslu kröfunnar við Íbúðalánasjóð sendir sjóðurinn honum árlega yfirlit yfir skuldastöðu hans.

6. gr.

Skuldarar fá ekki fyrirgreiðslu að nýju hjá Íbúðalánasjóði fyrr en kröfur sjóðsins á hendur þeim hafa verið greiddar, samið hefur verið um greiðslu þeirra skv. 5. gr. eða þær afskrifaðar skv. 7. gr.

Þegar skuldari hefur gefið út skuldabréf til greiðslu á kröfu getur hann sótt um fyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði að nýju. Skuld samkvæmt slíku skuldabréfi skal tilgreind í greiðslumati ásamt öðrum skuldum og tekið tillit til hennar við mat á greiðslugetu skuldara.

7. gr.

Að liðnum 5 árum frá nauðungarsölu er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu enda liggi þá fyrir að krafan sé óinnheimtanleg.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 5. ágúst 1999.

Páll Pétursson.

Ingi Valur Jóhannsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica