Félagsmálaráðuneyti

195/1994

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna - Brottfallin

REGLUGERÐ

um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

I. KAFLI

Menntun slökkviliðsmanna og veiting starfa í slökkviliði.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til eftir því sem við á:

1. Þeirra sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir að aðalstarfi.

2. Þeirra sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir samkvæmt 7. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.

2. gr.

Umsækjendur um störf slökkviliðsmanna og þeir sem ráðnir eru til starfa sem slökkviliðsmenn, sbr. 1. gr., skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

1. Vera á aldrinum 20-28 ára, reglusamir og háttvísir.

2. Hafa góða líkamsburði, gott andlegt og líkamlegt heilbrigði, hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vera ekki haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.

3. Hafa aukin ökuréttindi til að stjórna: a) vörubifreið og b) leigubifreið.

4. Hafa iðnmenntun, sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða sambærilega menntun og reynslu.

Víkja má frá ofangreindum skilyrðum að hluta til vegna þeirra, sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir samkvæmt 2. tölul. 1. gr.

Við ráðningu í starf slökkviliðsstjóra er viðkomandi sveitarstjórn heimilt að meta nám og námsárangur á sviði brunamála á háskólastigi að hluta til eða öllu leyti til jafns við námskröfur samkvæmt II. kafla reglugerðar þessarar.

Endurráðning slökkviliðsmanna samkvæmt 1. tölul. 1. gr. til almennra slökkvistarfa er heimil allt að fimm árum eftir að þeir hverfa úr starfi. Að öðru leyti miðast endurráðning við það, að slökkviliðsmenn standist þær kröfur, sem fram koma í II. kafla reglugerðar þessarar.

II. KAFLI

Framkvæmd skólastarfs og fyrirkomulag.

3. gr.

Innan Brunamálastofnunar ríkisins skal starfrækja sérstaka fræðsludeild er nefnist Brunamálaskólinn, sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Starfar skólinn samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Skólinn skal veita slökkviliðsmönnum að minnsta kosti þá menntun og starfsþjálfun, sem krafa er gerð um í reglugerð þessari og lýtur m.a. að skyldubundnu námi þessara aðila og endurmenntun.

Innan Brunamálaskólans skal starfa farskóladeild, sem veitir fræðslu til slökkviliðsmanna samkvæmt 2. tölul. 1. gr. Þátttaka slökkviliðsmanna samkvæmt 2. tölul. 1. gr. í grunnnámi samkvæmt 9. gr. skal ákvarðast af viðkomandi sveitarstjórn.

Meginstarfsemi Brunamálaskólans greinist annars vegar í farskóla og hins vegar í samningsbundna starfsemi skólans innan atvinnuslökkviliðanna, sbr. 1. tölul. 5. gr.

4. gr.

Við Brunamálaskólann skal starfa sérstök skólanefnd er ber ábyrgð á skólastarfinu og stýrir því. Þeir sem skipaðir eru í skólanefnd skulu vera með reynslu í brunamálum. Skólanefnd er skipuð af stjórn Brunamálastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn og í henni skulu vera þrír einstaklingar og jafnmargir til vara og skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.

5. gr.

Helstu verkefni skólanefndarinnar eru að:

1. ákvarða um fyrirkomulag kennslunnar í farskólanum og gera samninga við slökkviliðin og aðra aðila um tiltekna framkvæmd skólastarfsins.

2. ákveða fyrirkomulag og framkvæmd fornáms, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar.

3. vinna að útgáfu námsvísa, ákveða námsefni í samræmi við reglugerð þessa og prófverkefni í samráði við kennara. Að framkvæma námsmat, stöðupróf og veita undanþágur ef með þarf í sérstökum tilfellum samkvæmt 2. gr. reglugerðar þessarar. Nefndin má fella niður eða bæta við námsefni eftir því sem þörf þykir, og gæta skal hún þess að það sé á hverjum tíma í samræmi við bestu vitneskju og nýjustu tækni á sviði brunamála.

4. setja reglur um framkvæmd prófa, viðurkenna kennara og prófdómara til sinna starfa.

5. gefa út prófskírteini og skilríki um námsferil.

6. gefa út formlega viðurkenningu sem fyrst til allra þeirra, sem falla undir bráðabirgðaákvæði reglugerðar þessarar.

7. gera starfsáætlun skólans fyrir eitt ár í senn og ganga frá fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil. Slíkar starfs- og fjárhagsáætlanir eru síðan lagðar fyrir stjórn Brunamálastofnunar til samþykkar.

8. úrskurða í ágreiningsmálum, sem upp kunna að koma milli aðila varðandi skólanámið og próf.

9. hafa umsjón með öllu framhaldsnámi, sbr. 8, gr.

10. gefa stjórn Brunamálastofnunar umsögn um hæfi þeirra, sem sækja um stöðu skólastjóra Brunamálaskólans, sbr. 6. gr.

6. gr.

Brunamálastjóri ræður skólastjóra samkvæmt tillögum stjórnar Brunamálastofnunar til fjögurra ára í senn. Skólastjóri skal hafa víðtæka menntun, þekkingu og starfsreynslu á sviði brunamála. Skólanefnd skal leita eftir því að sveitarfélög gefi þeim, sem ráðnir eru til skólans, launalaust leyfi til allt að fjögurra ára í senn á grundvelli sérstaks samkomulags, ef við á.

Verði stjórn Brunamálastofnunar ekki sammála um eina tillögu um ráðningu skólastjóra, skal tillaga meirihluta stjórnarinnar ráða.

Skólastjóri fer með daglegan rekstur skólans í umboði skólanefndar og annast nauðsynlega kynningarstarfsemi. Skólastjóri gerir tillögur að námsvísi og stundaskrá til skólanefndar, vinnur að samningu og endurskoðun á námsefni, hefur kennsluskyldu við skólann og vinnur að gerð starfsáætlunar. Skólastjóri situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt, undirritar fyrir hennar hönd gögn, sem um getur í 4. og 5. tölul. 5. gr. og sér að öðru leyti um að framkvæma ákvarðanir skólanefndar.

7. gr.

Kostnaður við rekstur Brunamálaskólans greiðist af tekjum Brunamálastofnunar ríkisins, sbr. 23. gr. laga nr. 41/1992, samkvæmt sérstakri fjárhagsáætlun skólanefndar, sem stjórn stofnunarinnar samþykkir fyrir hvert ár, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 41/1992. sem stjórn stofnunarinnar samþykkir fyrir hvert ár, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 41/1992. Slíkt skal þó ávallt miðað við ramma fjárlaga hverju sinni. Er þar um að ræða kostnað við skólastjórn, kennara, námskeiðahald, útgáfu námsefnis, efniskostnað við kennsluna o.fl. Viðkomandi sveitarfélag greiðir ferðakostnað og uppihaldskostnað þeirra, sem sækja skólann frá því sveitarfélagi.

Kennslutæki Brunamálastofnunar og slökkviliða sveitarfélaganna er heimilt að nota við skólastarfið með samþykki viðkomandi yfirmanna án sérstakrar greiðslu.

8. gr.

Sérnámi slökkviliðsmanna er skipt í grunneiningar (hver kennslustund er 40 mínútur og telst vera tvær grunneiningar), og skal námið vera með þeim hætti sem hér greinir:

1. Grunnnám, sem skiptist í tvo áfanga.

2. Fullnaðarnám, sem skiptist í tvær brautir.

3. Eldvarnaeftirlitsnám.

4. Framhaldsnám, sem slökkviliðsmönnum skal gefinn kostur á, enda hafi þeir öðlast fullgild starfsréttindi samkvæmt 1.-3. tölul. þessarar greinar.

9. gr.

Grunnnám.

Í fyrri áfanga grunnnáms skal einkum kennt eftirfarandi: Lög um brunavarnir og brunamál, almenn slökkvitækni, s.s. eðli elds, akstur slökkvibifreiða og meðferð slökkvibúnaðar, s.s. notkun á dælum, handslökkvitækjum, meðferð froðu, reykköfun, vatnsöflun, notkun stúta, reyklosun og notkun sliga, aðstoð við sjúka og slasaða og meðferð ýmissa hjálpargagna. Slökkviliðsmaður skal færa sérstaka dagbók yfir þátttöku sína og æfingar.

Í þessum áfanga grunnnámsins skal slökkviliðsmaður ljúka 227 grunneiningum.

Í síðari áfanga grunnnámsins felst fullnaðarkennsla í þeim þáttum, sem kenndir voru í fyrri áfanga. Til viðbótar skal einkum kennt eftirfarandi: Fræðsla um hættuleg efni og meðferð mismunandi slökkviefna, þjálfun í björgunarstörfum og björgun verðmæta og meðferð björgunarbúnaðar, aðstoð við sjúka og slasaða, fræðsla fyrir skóla, fyrirtæki og almenning.

Í þessum áfanga grunnnámsins skal slökkviliðsmaður ljúka 223 grunneiningum.

Enginn getur hafið nám í síðara áfanga grunnnáms nema hann hafi hlotið lágmarkseinkunn eftir nám í fyrri áfanga og starfað fimm mánuði í slökkviliði.

10. gr.

Fullnaðarnám.

Fullnaðarnám skiptist í tvær brautir, tæknibraut og stjórnunarbraut. Til að hefja fullnaðarnám verður slökkviliðsmaður að hafa lokið grunnnámi með lágmarkseinkunn.

Nám á tæknibraut er að stórum hluta verklegt nám, m.a. þátttaka í stórum slökkviæfingum, auk bóklegrar kennslu í stjórnun, gerð slökkviáætlana, þjálfun í lestri teikninga, slökkvitækni og ráðgjöf, fræðslu fyrir skóla og almenning og leiðbeiningum fyrir fjölmiðla, námskeið í eldvarnaeftirliti, brunarannsóknum, slökkvi- og viðvörunarkerfum og öryggisgæslu, reykköfun, slökkvistarfi við flugvélabruna, björgun úr bílflökum, meðferð körfu- og stigabifreiða, ruðningsstarfi og björgun vegna stórslysa og náttúruhamfara, almannavörnum, nám í líkamsrækt og þrekþjálfun.

Í fullnaðarnámi á tæknibraut skal slökkviliðsmaður ljúka 240 grunneiningum.

Nám á stjórnunarbraut er einkum fólgið í eftirfarandi: Stjórnun bæði á eldsstað og í starfsstöð, þjálfunar- og kennslufræði, skýrslugerð, gerð fjárhagsáætlana, brunarannsóknir, almannavarnir, fræðsla um sérstakar áhættur og slökkviefni, þjálfun í lestri teikninga, fræðsla um eiturefni og mengunarvarnir, rennslisfræði, stjórnun eldvarnaeftirlits, gerð slökkviáætlana, svo og lög og reglugerðir um brunavarnir og brunamál.

Í fullnaðarnámi á stjórnunarbraut skal slökkviliðsmaður ljúka 150 grunneiningum.

11. gr.

Eldvarnaeftirlitsnám.

Eldvarnaeftirlitsnám er ætlað fyrir þá starfsmenn slökkviliða, sem sinna eldvarnaeftirliti. Til að hefja slíkt nám verður slökkviliðsmaður að hafa lokið bæði grunnnámi og fullnaðarnámi samkvæmt reglugerð þessari með lágmarkseinkunn.

Nám í eldvarnaeftirliti er einkum fólgið í eftirfarandi: Lögum um brunavarnir og brunamál, brunamálareglugerð, reglugerðum um opinbert eldvarnaeftirlit og einkaeftirlit, aðvörunarkerfum, slökkvikerfum, slökkviefnum, handslökkvitækjum, teikningum mannvirkja, ráðgjöf til almennings, fyrirtækja og skóla, frágangi lagna, eldsneytisbirgðum, rýmingarleiðum, brunaálagi í byggingum, útgöngu- og neyðarlýsingum, brunavörnum á hótelum og sjúkrastofnunum, brunarannsóknum og daglegu eldvarnaeftirliti.

Í eldvarnaeftirlitsnámi skal slökkviliðsmaður ljúka 170 grunneiningum.

12. gr.

Áður en nýliði hefur starf í slökkviliði skal hann fara á sérstakt fornámskeið hjá sínu slökkviliði. Fornámskeið skal standa minnst í tvo daga fyrir skipaða slökkviliðsmenn, sem ráðnir verða í hlutastarf, en fjóra daga fyrir væntanlega atvinnuslökkviliðsmenn, sem ráðnir verða í fullt starf.

Reynslutími skal vera fjórir mánuðir. Að honum loknum skal tekin ákvörðun um ráðningu eða áframhaldandi skipun í starfið með sérstöku samkomulagi.

Slökkviliðsmenn samkvæmt 1. tölul. 1. gr. skulu hafa lokið menntun og starfsþjálfun í grunnnámi innan eins árs frá því að þeir hefja störf og fullnaðarnámi eigi síðar en fjórum árum frá því að þeir hefja störf. Fullnaðarnám má ekki hefja fyrr en eftir 28 mánaða starf í slökkviliði.

Þeir sem gegna slökkvistarfi samkvæmt 2. tölul. 1. gr. skulu, eftir því sem við verður komið, hafa lokið menntun og starfsþjálfun í fyrri áfanga grunnnáms innan tveggja ára frá því að þeir eru skipaðir til starfa.

13. gr.

Sérnám slökkviliðsmanna er fólgið í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun, eins og skýrt er hér að framan. Öllu námi skal ljúka með verklegu og bóklegu prófi og þarf að ná 70% samanlögðum árangri til að standast prófið, og skal þá árangurinn metinn til starfsréttinda með eftirfarandi hætti:

Slökkviliðsmaður I.Slökkviliðsmaður II.
Slökkviliðsmaður III.T
Slökkviliðsmaður III.S
Eldvarnaeftirlitsmaður

eftir að hafa lokið 1. áfanga grunnnáms og námi í reykköfun samkvæmt reglugerð um reykköfun frá 26. júlí 1984 og er þar með hæfur til almennra slökkviliðsstarfa.
eftir að hafa lokið 2. áfanga grunnnáms.
eftir að hafa lokið fullnaðarnámi á tæknibraut.
eftir að hafa lokið fullnaðarnámi á stjórnunarbraut.
eftir að hafa lokið fullnaðarnámi í eldvarnaeftirliti.

Krafist er fullrar mælingar í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun. Enginn má þreyta sama prófið oftar en þrisvar.

 

III. KAFLI

Réttindi og skyldur.

14. gr.

Slökkviliðsmönnum ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið, m.a. með námskeiðum og verklegri þjálfun, þar sem henni verður við komið.

15. gr.

Slökkviliðsmenn samkvæmt 1. tölul. I. gr. skuli að jafnaði ganga í einkennisfatnaði við störf sín. Einnig skulu þeir fá nauðsynlegan hlífðarfatnað gegn kulda og vosbúð. Sama gildir um slökkviliðsstjóra, varaslökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmenn samkvæmt 2. tölul. 1. gr.

Brunamálastofnun ríkisins setur nánari reglur um hlífðarfatnað. Sveitarstjórn setur nánari reglur um einkennisfatnað.

16. gr.

Slökkviliðsmenn skulu njóta sömu verndar og aðstöðu og aðrir þeir, er gegna borgaralegri skyldu og skulu þeir tryggðir í starfi í samræmi við áhættu starfsins.

17. gr.

Við lífshættuleg skilyrði skal slökkviliðsmaður ávallt gæta þess að stofna hvorki eigin lífi né annarra berlega í tvísýnu.

Ekki má á nokkurn hátt tálma því að slökkviliðsmenn geti sinnt starfi sínu.

18. gr.

Slökkviliðsmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt þeir láti af störfum.

19. gr.

Um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna fer að öðru leyti eftir II. kafla laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál, og samþykktum um slökkvilið á hverjum stað, eftir því sem við á. Leita skal umsagnar hagsmunasamtaka slökkviliðsmanna um samþykktir er varðað geta hagsmuni slökkviliðsmanna.

20. gr.

Um viðurlög vegna brota á reglugerð þessari fer eftir lögum nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál, og eftir því sem við á samkvæmt lögum nr. 38/ 1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

21. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr., sbr. 5. mgr. 2. gr., laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 197/1991 um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

Ákvæði til bráðabirgða:

Slökkviliðsmenn, sem starfað hafa samfellt í fjögur ár fram að setningu reglugerðar þessarar, skulu öðlast full starfsréttindi á grundvelli reglugerðarinnar, að því tilskildu að þeir sæki bóklegt endurmenntunarnámskeið innan fimm ára frá setningu reglugerðar þessarar.

Félagsmálaráðuneytið, 14. apríl 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Sesselja Árnadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica